Háskóli Íslands

Rannsóknir á sumarexemi, samstarfsverkefni Keldna og Háskólans í Bern

Markmið rannsóknanna er að finna og greina próteinin (ofnæmisvakana) sem valda exeminu og rannsaka ónæmissvarið og feril sjúkdómsins með því lokamarkmiði að þróa ónæmismeðferð gegn honum, þ.e. bólusetningu sem forvörn og afnæmingu sem lækningu.
Við höfum einangrað og tjáð þá ofnæmisvaka sem máli skipta úr flugnabitkirtlum, alls 15 prótein (Schaffartzik et al., 2010; Schaffartzik et al., 2011; Schaffartzik et al., 2009). Rannsóknum á ónæmissvarinu í sjúkdómnum hefur einnig miðað vel og hafa þær skilað mjög áhugaverðum niðurstöðum sem eru undirstaða þess að velja meðferð og meta gagnsemi hennar (Hamza et al., 2007; Hamza et al., 2010; Hamza et al., 2008; Heimann et al., 2011). Framangreindar niðurstöður hafa gert okkur kleift að hefja tilraunir í ónæmismeðferð, bólusetningum og afnæmingu.
Verið er að reyna þrjár leiðir til að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi;
1) með hreinum ofnæmisvökum í Th1 stýrandi ónæmisglæði, 
2) með ofnæmisvakagenum á veiruferjum,
3) um slímhúð meltingarfæra með því að fóðra hross á byggi sem tjáir ofnæmisvaka.
 
1) Bólusetja/afnæma með hreinum ofnæmisvökum í Th1 stýrandi ónæmisglæði (próteinbóluefni)
Ónæmisglæðar eru nauðsynlegur þáttur í próteinbóluefnum en þeir ræsa ónæmissvarið og stýra því. Gríðarleg framför hefur orðið í þróun kröftugra ónæmisglæða undanfarin ár. Til þess að fá aðgang að glæðum sem viðurkenndir eru í bóluefni þarf að semja við lyfjafyrirtækin sem eiga þá ef þeir fást ekki keyptir. Verið er að bera saman sprautunaraðferðir og ónæmisglæða.

 

 
2) Bólusetja/afnæma með ofnæmisvökum á veiruferjum (genabóluefni)

Vörn gegn veirusýkingum er á Th1 braut ónæmissvars og því tilvalið að notafæra sér það í gerð bóluefnis gegn ofnæmi. Nú þegar eru í notkun í hrossum veiruferjubóluefni gegn inflúensu- og West Nile veiru. Við hyggjumst prófa tvær veirutegundir, gammaherpesveiru 2 (EHV-2) sem sýkir hesta og baculoveiru sem sýkir skordýr.
 
 
3) Bólusetja/afnæma um slímhúð munns með því að fóðra hross á byggi sem tjáir ofnæmisvaka
Í samstarfi við ORF Líftækni er verið að tjá ofnæmisvaka í byggi. Í fólki er farið að nota afnæmingu um slímhúðina undir tungunni í stað þess að sprauta undir húð. Við hyggjumst athuga hvort hægt sé að afnæma sumarexemshesta um slímhúð munns með því að gefa þeim bygg sem tjáir ofnæmisvaka.
 

 

 

Áskorunartilraun

Árangur af bólusetningu í þessum fyrstu tilraunum er metinn með því að mæla mótefna- boðefna- og bólgumiðlasvörun hestanna og á þeim grundvelli ákvarðað hvort ónæmissvarið er á réttri braut. Á endanum þarf gera áskorunartilraunir, þ.e. flytja 20 bólusetta hesta út og 10-20 ómeðhöndlaða samanburðarhesta á flugusvæði og fylgjast með þeim í a.m.k. tvö ár. Það ætti að leiða í ljós hvort bólusettu hestarnir eru raunverulega varðir gegn exeminu miðað við samanburðarhestana. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is