Háskóli Íslands

Rannsóknir á sníkjudýrum, örverum og meinafræði í ýmsum dýrategundum

Alþjóðleg rannsókn á smitsjúkdómum og lyfjaþolnum bakteríum í skólpi (Global Sewage Surveillance Project)
Starfslið: Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir.
Samstarf: Rene S. Hendriksen og Jette Kjeldgaard, Research Group of Genomic Epidemiology, DTU-Food, National Food Institute, Danmörku, stýra þessu verkefni sem unnið er í samstarfi við fjölda rannsóknarstofa um allan heim.
Upphaf: 2016. Lok: Óviss.

Í lok árs 2015 hófu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og National Food Institute, DTU í Danmörku (WHO Collaborating Center for Antimicrobial Resistance in Foodborne Pathogens and Genomics) forrannsókn á notagildi víðerfðamengjafræði (metagenomics) við rannsóknir og eftirlit með smitsjúkdómum í skólpsýnum á alþjóðavísu. Markmiðið er að geta greint, haft eftirlit með, fyrirbyggt og spáð fyrir um smitsjúkdóma í mönnum. Eftirlit með skólpi er talið vera góð leið til að ná að fylgjast með ýmsum smitsjúkdómum í stóru þýði. Með þessu eftirliti er hægt að fá sýni úr stórum hluta þýðisins og þar með talið úr heilbrigðum einstaklingum. Hraðari og nákvæmari greiningar á sjúkdómsvöldum og sýklalyfjaónæmi eru mikilvægar þegar kemur að forvörnum og vörnum gegn sjúkdómum.
Sýnatökur fóru fyrst fram í 63 löndum í byrjun árs 2016, þar á meðal Íslandi. Sýnatökur fóru svo fram tvisvar sinnum á árinu 2017 og þá í yfir 100 löndum. Sýni eru tekin úr skólphreinsistöðvum, rétt eftir inntak í stöðina fyrir hreinsun. Tekið er safnsýni yfir 24 klst tímabil. DNA útdráttur og raðgreining fer fram hjá National Food Institute, DTU í Danmörku (WHO Collaborating Center for Antimicrobial Resistance in Foodborne Pathogens and Genomics) með Illumina Hiseq. Gögnin eru lesin saman við ýmsa gagnagrunna á vegum DTU Food og annarra og greint verður hvort og þá hvaða sýkingavaldar og sýklalyfjaónæmisgen má finna í sýnunum. Gögnin verða greind fyrir hvert land fyrir sig og tengd tiltækum gögnum svo sem á notkun sýklalyfja. Fylgjast má með framgangi verkefnisins hér: http://www.compareeurope. eu/Library/Global-Sewage-Surveillance-Project
--------

Ásætumítlar á hunangsflugum
Starfslið: Guðný Rut Pálsdóttir og Karl Skírnisson.
Upphaf: 2017 Lok: Óviss.

Fimm humlutegundir (Bombus spp.) hafa fundist á Íslandi. Erlendis eru þekktar margar tegundir ásætumítla sem lifa samlífi með humlum en hér á landi hafa þeir ekki verið ákvarðaðir til tegundar. Tilgangur verkefnisins er að skoða það nánar. Í byrjun maí 2017 voru 40 humlu-drottningar fangaðar í Árbæ, í Kópavogsdal og á Keldum og þær settar beint í etanól. Búið er að tegundagreina humlurnar. Allar báru þær mítla, yfirleitt nokkra tugi og lokið er við að telja þá. Vinna við tegundaákvörðun er hafin og ljóst að um er að ræða nokkrar tegundir mítla.
--------

Bandormar í þurrlendisspendýrum á Íslandi
Starfslið: Karl Skírnisson.
Upphaf: 2017. Lok: 2017.

Sullaveiki í mönnum og dýrum var um aldir mikið heilbrigðisvandamál á Íslandi sem talið er hafa náð hámarki á ofanverðri 19. öld þegar fræðimenn áætluðu að fjórði til fimmti hver Íslendingur hafi verið smitaður. Hafist var handa við að rita yfirlitsgrein um bandormategundir í þurrlendisspendýrum á Íslandi þegar höfundur fékk tækifæri til að dvelja við rannsóknir á Dýrafræðistofnuninni í Kaupmannahöfn í byrjun ársins. Verkinu lauk á árinu og í árslok birtist grein um efnið í Náttúrufræðingnum (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“). Í greininni er sérstök áhersla lögð á tegundirnar sem hér lifðu í hundum, tegundir sem nú hefur verið útrýmt.
Í greininni eru viðraðar hugmyndir um það hvernig vöðvasullsbandormurinn Taenia ovis gæti hafa borist til landsins mörgum áratugum áður en hann var fyrst staðfestur á Íslandi 1983. Þær hugleiðingar voru einnig kynntar á veggspjaldi á haustdögum (sjá „Erindi og veggspjöld á innlendum ráðstefnum“).
--------

Er skógarmítillinn Ixodes ricinus landlægur á Íslandi?
Starfslið: Matthías Eydal
Samstarf: VectorNet. Jolyon Medlock og Kayleigh Hansford, Public Health England. Erling Ólafsson, Matthías Alfreðsson, Ester Rut Unnsteinsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands. Fuglaathugunarstöð Suðausturlands.
Upphaf: 2015. Lok: Óviss.

Verkefnið var í byrjun þáttur í stærra verkefni (VectorNet) en í því var fólgin samvinna milli fjölda sérfræðinga víðsvegar í Evrópu um leit að skógarmítli (Ixodes ricinus) og skráningu á útbreiðslu/útbreiðsluaukningu hans. Í rannsókninni er í fyrsta sinn leitað kerfisbundið að skógarmítlum í skóglendi hér á landi, búsvæði mítlanna, með flöggunar aðferð. Auk þess er skráningu á greindum mítlatilfellum á dýrum og á fólki haldið áfram. Leitað hefur verið að mítlum á músum, refum og á farfuglum. Á árinu 2016 var sérstaklega óskað liðsinnis dýralækna, heilbrigðisstarfsfólks og almennings við að halda til haga mítlum sem finnast á fólki eða dýrum (hundum og köttum) og senda inn til greiningar. Við leit í skóglendi á 111 stöðum víðs vegar um landið á árunum 2015-2016 fundust einungis fáeinir mítlar og á mjög afmörkum svæðum og lirfustig mítilsins hefur enn ekki fundist. Mítlar hafa fundust á farfuglum við komu til landsins, en engir á músum og refum. Samstarfið við VectorNet stóð yfir 2015-2016 og lauk með birtingu greinar í vísindaritinu Parasites & Vectors: Alfreðsson M. o. fl. 2017. Flöggun var haldið áfram og sömuleiðis leit á hagamúsum og farfuglum 2017. Innsendum mítlum hefur fjölgað á allra síðustu árum, mítlar hafa einkum fundist á hundum, en einnig á öðrum dýrum og á fólki. Keldum og Náttúrufræðistofnun bárust til skoðunar mun fleiri skógarmítlar á árinu 2017 en nokkurn tímann fyrr, samtals 66 mítlar víða að af landinu. Lifandi skógarmítill sem fannst í mars 2017, áður en farfuglar komu til landsins, staðfestir að tegundin lifi af veturinn. Þar eð ekki hafa enn fundist lirfur mítilsins er ekki hægt að staðfesta að skógarmítill ljúki lífsferli sínum hér á landi. Nú er hafin leit að sjúkdómsvöldum (vector-borne pathogens) í skógarmítlum sem safnað er hér á landi. Ekki leikur á því vafi að skógarmítlar berast til landsins á vorin með farfuglum og e.t.v. er það uppruni allra mítlanna sem síðan finnast á spendýrum yfir sumarið. Talið er hugsanlegt að skógarmítill geti náð viðvarandi fótfestu á mjög afmörkuðum svæðum, helst sunnanlands, en það munu áframhaldandi rannsóknir væntanlega leiða í ljós.
--------

Fósturlát hjá gemlingum
Starfslið: Einar Jörundsson, Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir, Guðbjörg Jónsdóttir og starfsfólk sýklafræðideildarinnar á Keldum.
Samstarf: Charlotta Oddsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands.
Upphaf: 2015. Lok: Óviss.

Lambleysi veturgamalla áa hefur þekkst lengi hér á landi, og hafa sést talsverðar sveiflur milli ára. Áður var talið að vandamálið skýrðist af breytileika í kynþroska og hæfni til að festa fang frá ári til árs. Þegar fósturtalningar með ómsjá hófust hér á landi kom fljótt í ljós að allt að helmingur veturgamalla áa á einstaka búum gengu með dauð fóstur, og skiluðu ekki lambi að vori. Það varð því ljóst að þótt gemlingar festu fang var talsvert um fósturlát. Fyrri rannsóknir hér á landi miðuðu að því að kanna hvort búskaparlag og aðstæður, selenskortur eða þekktir sýkingarvaldar væru áhrifavaldar í þessu vandamáli en ekki tókst að greina fylgni milli þessara þátta og fósturláts í gemlingum. Í gögnum sem safnað hefur verið undanfarin ár á Tilraunabúinu að Hesti eru vísbendingar um að þeir gemlingar sem þyngjast hraðar eigi frekar á hætta að missa fóstur.
Verkefnið snýst um að rannsaka fósturlát í íslenskum gemlingum. Lögð verður áhersla á að greina hvenær á meðgöngunni fósturlát verður hjá gripunum. Í þessu samhengi verður fylgst með þyngdaraukningu gemlinganna á mánuðunum fyrir fengitíma og meðan á meðgöngu stendur. Einnig verður leitast við að gera víðtæka meinafræðilega skoðun á gemlingum sem eru við það að láta fóstri, í því skyni að greina almennt heilsufar gripanna.
Á árinu voru gerðar blóðhagsmælingar á 94 blóðsýnum, sermi hirt úr 152 blóðsýnum úr gemlingum frá þremur bæjum og 2 gemlingar og fóstur þeirra krufin.
Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði Landbúnaðarins.
--------

Lífsferlar og vistfræði fuglaagða
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Kirill Galaktionov og Anya Gonchar, Dýrafræðistofnun Rússnesku Vísindaakademíunnar, St. Pétursborg, Rússlandi; Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Simona Georgieva, Anna Faltýnková, Jana Roháčová, Aneta Kostadinova og fleiri samverkamenn þeirra við Sníkjudýradeild Háskólans í Ceské Budejovice í Tékklandi.
Upphaf: 1998. Lok: Óviss.

Um árabil hafa rannsóknir verið stundaðar á Keldum á sníkjudýrafánu villtra íslenskra fugla. Meðal annars hefur verið unnið að raðgreiningum og útlitsathugunum ögðutegunda (Digenea) sem lifa sem lirfur í fjöru- og sjávarsniglum en á fullorðinsstigi í fjöru- og sjófuglum. Samvinna um þessar rannsóknir hefur verið við sérfræðinga í Frakklandi og Rússlandi og sem stendur vinnur doktorsnemi (AG) í verkefninu.
Á svipaðan hátt hafa ýmsar athuganir verið gerðar undanfarin ár á ögðum sem hafa lífsferil sem bundinn er við ferskvatn, tegundir sem lifa á lirfustigi í vatnasniglunum Radix balthica, Gyraulus laevis og Physa acuta. Á árinu var svo í fyrsta sinn leitað að lirfustigum agða í tveimur öðrum sniglum (Bathyomphalus contortus úr Áshildarholtsvatni og Planorbarius corneus úr Mývatni). Einnig var safnað samlokuskeljum (Pisidium sp.) sem og snigla- og andablóðsugum til að rannsaka hlutverk þeirra í lífsferlum tiltekinna ögðutegunda sem fullorðnar lifa flestar hverjar í einhverjum vatnafuglum. Jafnframt var haldið áfram skipulagðri leit að fullorðnum ögðum úr vatnafuglum, meðal annars fuglum sem drukknað höfðu í silunganetum í Mývatni. Alls voru skoðaðir ríflega 1200 vatnasniglar á árinu. Var þeim safnað í tvö skipti (júlí og í lok ágúst) í þremur aðskildum vatnakerfum á Reyjavíkursvæðinu, í Mývatni og í Áshildarholtsvatni í Skagafirði. Sníkjulirfufána sniglanna er ávörðuð bæði með sameindalíffræðilegum og útlitsfræðilegum aðferðum. Í árslok kom í ljós að Tékkneski Rannsóknarsjóðurinn ákvað að fjármagna til næstu þriggja ára verkefni sem byggir á ofangreindum rannsóknum. Ber það titilinn „Trematodes in sub-Arctic lake food webs: development of quantitative diversity baselines and a framework for community ecology research in the Arctic“.
Á árinu hélt Anna Faltýnková erindi um ögðufánu Íslands (sjá „Erindi og veggspjöld á alþjóðlegum ráðstefnum“).
Verkefnin hafa notið styrks úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til margra ára.
--------

Meinafræði, faraldsfræði og erfðafræðileg flokkunarfræði sníkjudýra af fylkingu “Apicomplexa” í stofnum hörpuskelja í Norður Atlantshafi.
Starfslið: Árni Kristmundsson.
Samstarf: Mark Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies; Jónas P. Jónasson, Hafrannsóknarstofnun; Susan Ingis, University of Massachusetts-Dartmouth,
Upphaf: 2002. Áætluð lok: Óviss.

Mikil afföll voru í íslenska hörpuskeljastofninum við Ísland árin 1999-2006 og náði stofnvísitalan sögulegu lágmarki árið 2008, og var þá aðeins um 13% af meðaltali áranna 1996-2000. Afföllin voru bundin við eldri skeljar (veiðistofn). Við Færeyjar og austurströnd Norður-Ameríku hafa einnig orðið óeðlileg afföll á skyldum tegundum (queen scallop - Chlamys opercularis; Sea scallop – Placopecten magellanicus). Markmið þessa verkefnis er að rannsaka hvort sjúkdómar geti átt beinan eða óbeinan þátt í afföllum skeljastofnanna.
Um 15 ára skeið hafa hörpuskeljar verið fengnar reglulega frá nokkrum lykilsvæðum í Breiðafirði auk sýna frá Arnarfirði, Hvalfirði og Húnaflóa til leitar og staðfestingar á sjúkdómsvöldum. Alls hafa verið rannsökuð meira en 5000 sýni.
Áður óþekkt tegund frumdýrs af fylkingu Apicomplexa sem sýkir og drepur vöðva- og blóðfrumur (hemocytes) hefur greinst í hárri tíðni og var smitmagn mjög mikið þegar náttúrulegur dauði var sem mestur í stofninum. Niðurstöður sýna að þessar sníkjudýrasýkingar eigi stóran þátt í stofnhruni hörpuskeljastofnsins við Ísland.
Rannsóknir á “queen scallop” (Chlamys opercularis) frá Færeyjum og Skotlandi, “king scallop” (Pecten maximus) við V-Skotland og “sea scallop“ (Placopecten magellanicus) við Atlantshafsströnd Kanada og Bandaríkjanna staðfesta tilvist sömu sníkjudýrategundar í skeljunum. Aukinn náttúrulegur dauði og sjúkdómseinkenni svipuð þeim sem voru í íslensku skelinni hafa greinst í skeljum við Færeyjar, Bandaríkin og Kanada. Líkur eru á því að sýkingarnar eigi þátt í afföllum í þeim. Auk þessa eru vísbendingar um að sama sníkjudýr valdi tjóni á stofnum bæði í Norður-Kyrrahafi sem og í Barentshafi.
Síðustu ár hafa rannsóknir verið útvíkkaðar og áhersla lögð á að kanna lífsferil sníkjudýrsins. Upphaflega var talið að smit bærist beint á milli skelja en sterkar vísbendingar eru nú um að lífsferill sníkjudýrsins þarfnist millihýsils. Sú vinna er langt á veg komin og er nú unnið að greinaskrifum á þeim niðurstöðum.
Niðurstöður rannsókna úr verkefninu hafa nú þegar verið birtar í fjórum greinum í ritrýndum. Verkefnið er styrkt af Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytinu og University of Massachusetts.
--------

Meinafræði íslensku rjúpunnar
Starfslið: Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Ólafur K. Nielsen og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun Íslands; Karl Skírnisson, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum; Gunnar Stefánsson, Raunvísindastofnun Íslands; Sighvatur Sævar Árnason og Björg Þorleifsdóttir, Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands.
Upphaf: 2006. Lok: Óviss.

Haustið 2017 voru veiddar rúmlega 100 rjúpur í Þingeyjarsýslu og þær rannsakaðar. Breytingar voru skráðar og sýni tekin m.a. til vefjarannsókna. Sambærileg söfnun hefur verið framkvæmd ár hvert síðan 2006. Nýrnasýni hafa verið tekin úr 100 fuglum ár hvert þar sem niðurstöður frá 2006 sýndu oxalat nýrnakvilla hjá sumum fuglum. Fjöldi fugla með nýrnakvillann hefur verið breytilegur milli ára, frá 5% og upp í 47% fugla. Kanna á útbreiðslu þessara breytinga og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigði rjúpunnar. Að auki hafa sýni af tilfallandi breytingum í rjúpunum verið tekin í vefjameinarannsókn.Þessar meinafræðirannsóknir eru hluti af stóru verkefni þar sem kanna á tengsl heilbrigðis við stofnbreytingar íslensku rjúpunnar. Úrvinnsla sýna er enn í gangi og óvíst hvenær þeim líkur.
--------

Rannsóknir á blóðögðum og sundmannakláða
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Libuse Kolařová, Háskólanum í Prag í Tékklandi; Simona Georgieva, Anna Faltýnková, og Aneta Kostadinova við Sníkjudýradeild Háskólans í Ceské Budejovice í Tékklandi
Upphaf: 1997. Lok: Óviss.

Áfram var unnið að rannsóknum sem tengjast sundmannakláða en honum valda sundlirfur fuglablóðagða af ættinni Schistosomatidae. Rannsóknirnar hófust árið 1997. Síðan hafa tugþúsundir vatnabobba (einkum Radix balthica) og hundruð fugla (aðallega andfuglar) verið rannsakaðir og nokkrum áður óþekktum tegundum lýst fyrir vísindin (álftaögðunni Allobilharzia visceralis, toppandarögðunni Trichobilharzia mergi og grágæsaögðunni T. anseri). Jafnframt var T. regenti lýst í fyrsta sinn úr náttúrulegum lokahýsli tegundarinnar (stokkönd í Landmannalaugum). Enn er unnið að lýsingu þriggja iðraagða sem við höfum undanfarin ár fundið í öndum af ættkvíslunum Anas, Aythya og Mergus. Til skamms tíma töldum við að þessar þrjár tilheyrðu hópi sem gengið hefur undir nafninu T. franki. Unnið er að ritun vísindagreina um þessar tegundir, að hluta til í samvinnu við sérfræðingana í Ceské Budejovice í Tékklandi, en þeir hafa einnig lýst útliti og raðgreint tugi Trichobilharzia tegunda í lífríki Íslands.
Verkefnið hefur um árabil hlotið styrki úr Rannsóknarsjóði H.Í. og árin 2012 og 2014 hlaut verkefnið styrki úr Jules Verne sjóðnum.
---------

Rannsóknir á hvítabjörnum
Starfslið: Karl Skírnisson og Ólöf G. Sigurðardóttir.
Samstarf: Walter Vetter og stúdentar hans við Eiturefnadeild Háskólans í Hohenheim í Þýskalandi.
Upphaf: 2008. Lok: Óviss.

Frá árinu 2008 hafa fimm hvítabirnir synt til Íslands, sá síðasti gekk á land 16. júlí 2016. Í framhaldinu hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar á þessum dýrum samanber ritaskrár í síðustu ársskýrslum. Tvær greinar bættust í hópinn á árinu, báðar fjalla um rannsóknir á eiturefnum (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“).
Eftir er að taka saman og birta niðurstöður á sníkjudýrarannsóknum sem gerðar hafa verið á þessum fimm hvítabjörnum en þar eru nokkrar tegundir á ferðinni, þeirra á meðal norðurhjaratríkínan Trichinella nativa.
--------

Rannsóknir á notkun kítinafleiða sem beingræðsluefnis í kindamódeli
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Elvar Hólm Ríkharðsson, Guðmundur Einarsson, Katrín Ástráðsdóttir og Sigurður H. Helgason.
Samstarf: Jóhannes Gíslason, verkefnisstjóri, Jón M. Einarsson og Ng Chuen How hjá Genis ehf. Atli Dagbjartsson, Elín H. Laxdal, Halldór Jónsson og Sigurbergur Kárason hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Gissur Örlygsson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Upphaf: 2009. Lok: Óviss.

Um er að ræða verkefni á vegum líftæknifyrirtækisins Genis ehf. Markmið verkefnisins er að þróa nýja markaðsvöru (BoneReg™) til nota við bæklunarskurðlækningar sem ætlað er að fullnægja vaxandi eftirspurn eftir nýjum beinígræðsluefnum synthetic bone graft) sem komið geta í stað beingræðlinga sem sóttir eru í heilbrigðan beinvef sjúklingsins (autograft). Slík beinígræðsluefni þurfa í megin atriðum að fullnægja tveimur mikilvægum skilyrðum. Annarsvegar þurfa þau að auðvelda myndun á nýjum beinvef með því að brúa bil í beininu sem ekki getur gróið af sjálfsdáðum („osteoconductive“) og hinsvegar er æskilegt að þau innihaldi líffræðilega virk efni sem hafa örvandi áhrif á þær frumur sem taka þátt í nýmyndun beinvefsins („osteogenetic“ eða „osteoinductive“).
Verkefnið byggir á því að nota calcíum fosföt sem kristallast þegar þau blandast vatni og mynda hydroxiapatít, líkt og algengt er um mörg beinfylliefni sem eru á markaðnum. Inn í þessa kalsíum fosfat blöndu eru settar amínósykrur sem eru deasetyleraðar afleiður af kítíni. Þessar sykrur eru á fjölsykru formi og hafa þá eiginleika að brotna niður í smærri fásykrusameindir fyrir tilstilli sérhæfðra kítínasa sem eru tjáðir í ýmsum frumum ónæmiskerfisins sem taka virkan þátt í græðingu beinsins. Þessar fásykrur hafa síðan áhrif til örvunar í beinmyndunarferlinu, auka nýmyndun í beinvefnum og örva beinþéttnina í nýmynduðum og nærliggjandi beinvef.
Framvindan í verkefninu felur í sér bestun á samsetningum kítínafleiðanna með hliðsjón af efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum og niðurstöðum úr tilraunum í rottum. Í kindamódeli eru eiginleikar og áhrif borin saman við önnur ígræðsluefni, sem hafa fengið markaðsleyfi og eru í klínískri notkun („predicate device“). Einnig eru könnuð í kindatilraun langtímaáhrif BoneReg™ í beinvef og áhrif efnisins á almennt heilsufar ígræðsluþeganna með hliðsjón af hugsanlegum vefjabreytingum í helstu líffærum og breytingum í blóðmynd á 12-18 mánaða tímabili.
Í tengslum við þetta verkefni var innréttuð ný skurðstofa til aðgerða á stórum tilraunadýrum eins og t.d. kindum og svínum við Tilraunastöðina. Skurðstofan er all vel búin tækjum svo sem góðu skurðarborði, svæfingartækjum, röntgentækjum o.fl. Allt eru þetta tæki sem hafa áður verið notuð við aðgerðir á fólki en hafa orðið að víkja fyrir nýrri búnaði. Þau eru hins vegar í ágætlega nothæfu ástandi og henta vel til aðgerða á stærri tilraunadýrum.
Verkefnið er styrkt með Öndvegisstyrk frá Rannís.
--------

Rannsóknir á virkni unnins þorskroðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum og svínum
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Einar Jörundsson, Eygló Gísladóttir, Elvar Hólm Ríkharðsson og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Hilmar Kjartansson (verkefnisstjóri), Ingvar H. Ólafsson, Guðjón Birgisson og Sigurbergur Kárason hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi.
Upphaf: 2014. Lok: Óviss.

Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur þróað einkaleyfavarðar aðferðir og tækni sem umbreyta þorskroði, hráefni sem hingað til hefur verið fleygt, í verðmæta lækningavöru. Kerecis Omega3 er affrumað fiskiroð sem nota má til margskonar húð og vefjaviðgerða.
Kerecis hefur í samstarfi við Keldur unnið að margskonar prófunum á virkni affrumaðs roðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum og svínum. Prófanirnar hafa verið framkvæmdar skv. leyfum sem veitt hafa verið af tilraunadýranefnd og hefur tilgangur prófananna verið að sýna fram á öryggi og virkni tækni Kerecis. Prófanir þær sem framkvæmdar hafa verið á Keldum eru undanfari prófana sem Kerecis hyggst framkvæma í mönnum og hefur tekist náið samstarf milli Kerecis og Keldna varðandi þessar prófanir sem gera Kerecis kleyft að framkvæma stærri hluta af vöruþróunarferli sínu á Íslandi.
--------

Rjúpusníkjudýr
Starfslið: Karl Skírnisson og Guðný Rut Pálsdóttir.
Samstarf: Ólafur Karl Nielsen, Ute Stenkewitz og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun Íslands; Ólöf G. Sigurðardóttir, Tilraunastöðinni á Keldum; Gunnar Stefánsson, Tölfræðimiðstöð HÍ; Björg Þorleifsdóttir og Sighvatur Sævar Árnason, Lífeðlisfræðistofnun HÍ; Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Náttúrustofu Norðausturlands.
Upphaf: 2006. Lok: Óviss.

Undanfarin tólf haust (2006-2017) hafa hvert ár 100 rjúpur (60 ungir og 40 gamlir fuglar) verið veiddar í rannsóknaskyni fyrstu vikuna í október í Þingeyjarsýslu. Rannsóknir á sníkjudýrum eru gerðar á Keldum en aðrar athuganir einkum á Náttúrufræðistofnun Íslands. Nokkrir nemendur hafa tekið að sér að vinna ákveðna verkþætti. Ber þar hæst doktorsverkefni Ute Stenkewitz sem lokið var við á árinu. Þrjár vísindagreinar voru birtar (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“ í þessari, sem og eldri ársskýrslum). Fyrir haustsöfnunina 2017 var búið að vinna úr öllum sníkjudýrasýnum sem þá hafði verið safnað. Áætlað er að allri úrvinnslu verði lokið á vordögum 2018 og þá verður tekið til við að gera verkefnið upp.
Verið er að rita grein um sníkjudýr rjúpna sem safnað var á tveimur svæðum á austurströnd Grænlands (Kulusukk og Skoresbysundi) fyrir nokkrum árum auk þess sem í smíðum er handrit sem sérstaklega fjallar um mítla sem lifa inni í fjaðurstöfum á væng rjúpna. Þar næra þeir sig með því að reka langan sograna út í gegn um vegginn og sjúga upp næringu úr aðliggjandi vef.
Verkefnið hefur notið styrkja úr Rannsóknarsjóði H.Í. Árið 2009 hlaut það verkefnastyrk til þriggja ára úr Rannsóknarsjóði og árið 2014 naut US doktorsstyrks frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.
--------

Tíðni og orsakir folaldadauða á Íslandi
Starfslið: Einar Jörundsson, Ólöf G. Sigurðardóttir, Vilhjálmur Svansson, Matthías Eydal, Eggert Gunnarsson, Eygló Gísladóttir, Guðbjörg Jónsdóttir og starfsfólk sýklafræðideildar Keldna.
Samstarf: Sigríður Björnsdóttir, Matvælastofnun.
Upphaf: 2016. Lok: 2017.

Megin markmið verkefnisins er að meta tíðni folaldadauða í íslenska hrossastofninum og greina orsakir hans. Verkefnið byggist annars vegar á upplýsingum frá hrossaræktendum um afföll folalda að 6 mánaða aldri og hins vegar á krufningum á allt að 30 lifandi fæddum folöldum að 6 mánaða aldri.
Ávinningurinn af því að þekkja helstu orsakir og tíðni folaldadauða er í fyrsta lagi að geta brugðist við með fyrirbyggjandi aðgerðum og/eða réttri meðhöndlun þar sem þess gerist þörf. Í öðru lagi er nauðsynlegt að þekkja eðlileg afföll til þess að geta brugðist skjótt við ef bera fer á óeðlilegum folaldadauða.
Sextán folöld voru send í krufningu árið 2016. Engin folöld voru send inn á fyrri hluta ársins 2017. Unnið var úr sýnunum á árinu og niðurstöður birtar í skýrslu.
Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
--------

Úttekt á öndunarfæravandamálum í sauðfé
Starfslið: Ólöf G. Sigurðardóttir, Sigríður Hjartardóttir og Vala Friðriksdóttir
Samstarf: Charlotta Oddsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands; Sigrún Bjarnadóttir, Matvælastofnun; Anna Karen Sigurðardóttir og Guðríður Eva Þórarinsdóttir, sjálfstætt starfandi dýralæknar.
Upphaf: 2017. Lok: 2018.

Markmið verkefnisins er að kortleggja og greina orsakir öndunarfærasjúkdóma hjá sauðfé, einkum í ásetningslömbum til þess að geta áætlað hvaða áhrif þeir hafi á velferð gripanna og fjárhagslega afkomu bænda. Fyrri hluti verkefnisins snýr að gagnasöfnun með spurningalista til bænda um öndunarfæraeinkenni hjá fé. Seinni hlutinn snýr að meinafræðilegri úttekt á lungum sláturlamba í sláturhúsum. Gagnasöfnun fór fram vorið 2017 og úttekt á lungum sláturlamba um haustið. Tilraunastöðin fékk send sýni úr lungum 54 lamba frá bæjum víðsvegar um landið. Kregðusýkilinn, Mycoplasma ovipneumonia, ræktaðist úr öllum lungnasýnum utan lungna sem höfðu verið fryst. Árið 2018 verður áfram unnið úr gögnum sem söfnuðust á árinu.
Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
--------

Vöðvasullur í sauðfé og vöðvasullsbandormur í lokahýslum
Starfslið: Matthías Eydal, Ólöf G. Sigurðardóttir og starfsfólk á bakteríu-, sníkjudýra- og meinafræðisviði á Keldum.
Samstarf: Matvælastofnun, dýralæknar og bændur.
Upphaf: 2014. Lok: Óviss.

Vöðvasullur, Taenia (Cysticercus) ovis, greindist fyrst hér á landi í sauðfé haustið 1983 og fannst í fé frá a.m.k. 40 bæjum á árabilinu 1983-1985 eins og greint var frá í greinum sem birtust í tímaritinu Frey: Sigurður H. Richter o.fl., 1984 og 1987.
Vöðvasullur hefur verið að greinast í sauðfé á ný á árabilinu 2014 - 2017, en hafði þá ekki fundist í 13 ár (Læknablaðið 2017: Matthías Eydal, Einar Jörundsson). Sýni úr sláturlömbum eru send sérfræðingum á Tilraunastöðinni að Keldum til staðfestingar á greiningu. Markmið verkefnisins er að halda skrá yfir öll staðfest vöðvasullstilfelli, og að safna m.a. upplýsingum um einkenni, form og byggingu vöðvasulla í vefjasýnum. Ennfremur að leita sérstaklega að vöðvasullsbandorminum sjálfum, eða eggjum hans í saur, í lokahýslum vöðvasullsins, hundum og villtum refum. Leit hefur farið fram að bandorminum í hundum frá nokkrum bæjum þar sem sullurinn hefur greinst í fé, og ennfremur hefur verið safnað sýnum úr villtum refum til rannsóknar. Bandormurinn hefur nú greinst í nokkrum hundum, og er það í fyrsta sinn sem hann er staðfestur í lokahýsli hér á landi. Bandormurinn hefur ekki enn fundist í refum. Þá eru tiltæk gögn frá fyrri áratugum þar sem skráðar hafa verið ýmsar athuganir og lýsingar á vöðvasullum ásamt upplýsingum sem varða leit að vöðvasullsbandormum í hundum og refum, sem skoða á nánar.
----------------

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is