Háskóli Íslands

Rannsóknir á sníkjudýrum, örverum og meinafræði í ýmsum dýrategundum

Er skógarmítillinn Ixodes ricinus landlægur á Íslandi?
Starfslið: Matthías Eydal.
Samstarf: Jolyon Medlock og Kayleigh Hansford, Public Health England.
Erling Ólafsson, Matthías Alfreðsson og Ester Rut Unnsteinsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Upphaf: 2015 Lok: Óviss.
 
Verkefnið er þáttur í stærra verkefni (VectorNet) en í því er fólgin samvinna milli fjölda sérfræðinga viðsvegar í Evrópu um leit að skógarmítli (Ixodes ricinus) og skráningu á útbreiðslu/útbreiðsluaukningu hans. Í rannsókninni er í fyrsta sinn leitað kerfisbundið að skógarmítlum í skóglendi hér á landi, búsvæði mítlanna. Auk þess er skráningu á greindum mítlatilfellum á dýrum og á fólki haldið áfram. Leitað hefur verið að mítlum á allmörgum músum og refum og á fáeinum farfuglum. Á árinu 2016 var sérstaklega óskað liðsinnis dýralækna, heilbrigðisstarfsfólks og almennings við að halda til haga mítlum sem finnast á fólki eða dýrum (hundum og köttum) og senda inn til greiningar. Við leit í skóglendi á 111 stöðum víðs vegar um landið á árunum 2015-2016 fundust einungis fáeinir mítlar og á mjög afmörkum svæðum og lirfustig mítilsins hefur enn ekki fundist. Fáeinir mítlar fundust á farfuglum við komu til landsins, en engir á músum og refum. Innsendum mítlum hefur fjölgað á allra síðustu árum, mítlar hafa einkum fundist á hundum, en einnig á öðrum dýrum og á fólki. Keldum og Náttúrufræðistofnun bárust til skoðunar mun fleiri skógarmítlar á árinu 2016 en nokkurn tímann fyrr, samtals 43 mítlar víða að af landinu. Ekki er enn hægt að staðfesta að skógarmítill ljúki lífsferli sínum hér á landi. Ekki leikur á því vafi að skógarmítlar berast til landsins á vorin með farfuglum og e.t.v. er það uppruni allra mítlanna sem síðan finnast á spendýrum yfir sumarið.
--------
 
Fósturlát hjá gemlingum
Starfslið: Einar Jörundsson, Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir, Guðbjörg Jónsdóttir og starfsfólk sýklafræðideildar á Keldum.
Samstarf: Charlotta Oddsdóttir, Emma Eyþórsdóttir og Eyjólfur K. Örnólfsson, Landbúnaðarháskóla Íslands, Sigrún Bjarnadóttir, Matvælastofnun, Jón Viðar Jónmundsson, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins.
Upphaf: 2015. Lok: Óviss.
 
Lambleysi veturgamalla áa hefur þekkst lengi hér á landi, og hafa sést talsverðar sveiflur milli ára. Áður var talið að vandamálið skýrðist af breytileika í kynþroska og hæfni til að festa fang frá ári til árs. Þegar fósturtalningar með ómsjá hófust hér á landi kom fljótt í ljós að allt að helmingur veturgamalla áa á einstaka búum gengu með dauð fóstur, og skiluðu ekki lambi að vori. Það varð því ljóst að þótt gemlingar festu fang var talsvert um fósturlát. Fyrri rannsóknir hér á landi miðuðu að því að kanna hvort búskaparlag og aðstæður, selenskortur eða þekktir sýkingarvaldar séu áhrifavaldar í þessu vandamáli en ekki tókst að greina fylgni milli þessara þátta og fósturláts í gemlingum. Í gögnum sem safnað hefur verið undanfarin ár á Tilraunabúinu að Hesti eru vísbendingar um að þeir gemlingar sem þyngjast hraðar eigi frekar á hætta að missa fóstur.
Verkefnið snýst um að rannsaka fósturlát í íslenskum gemlingum. Lögð er áhersla á að greina hvenær á meðgöngunni fósturlát verður hjá gripunum. Í þessu samhengi er fylgst með þyngdaraukningu gemlinganna á mánuðunum fyrir fengitíma og meðan á meðgöngu stendur. Einnig er leitast við að gera víðtæka meinafræðilega skoðun á gemlingum sem eru við það að láta fóstri, í því skyni að greina almennt heilsufar gripanna. 
Á árinu voru gerðar blóðhagsmælingar á 177 blóðsýnum, og 7 gemlingar og fóstur þeirra krufin. 
Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóð landbúnaðarins.
--------
 
Hreindýrasníkjudýr
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Christine Cuyler, Greenland Institute of Natural Resources, Nuuk.
Upphaf: 2013. Lok: Óviss.
 
Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar allt frá árinu 2002 á sníkjudýrafánu íslenskra hreindýra. Árið 2013 hófst samvinna við hreindýrasérfræðing á Grænlandi um sníkjudýrarannsóknir þarlendra hreindýra, nánar tiltekið í blönduðum stofni innfluttra Finnmerkurhreindýra og upprunalegs stofns, á Ameralik svæðinu í námunda við Nuuk á Vestur Grænlandi. Rannsökuð hafa verið saursýni úr kálfum í tvö skipti. Í fyrra skiptið komu í ljós tvær tegundir þráðorma og hnísillinn Eimeria rangiferis og voru niðurstöðurnar birtar í fagtímaritinu Rangifer. Árið 2015 voru fleiri sýni athuguð og þá fannst áður óþekkt hníslategund. Var henni lýst sem nýrri tegund fyrir vísindin  (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“). Heiti hnísilsins, Eimeria tuttui, er leitt af orðinu tuttu sem er nafn hreindýrsins í máli Inúíta.
--------
 
Kregðubólusetningartilraun
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Einar Jörundsson, Ólöf G. Sigurðardóttir, Vilhjálmur Svansson, Eygló Gísladóttir, Guðbjörg Jónsdóttir, Sigríður Hjartardóttir, Vala Friðriksdóttir og starfsfólk sýklafræðideildar Keldna.
Samstarf: Charolotta Oddsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands, Björn Steinbjörnsson, dýralæknir.
Upphaf: 2016. Lok: 2016.
 
Kregða er sjúkdómur í sauðfé af völdum Mycoplasma ovipneumoniae (M. ovipneumoniae). Sjúkdómurinn hefur verið þekktur í áratugi á Norðausturlandi en hefur á seinni árum náð fótfestu víða um land. Ekkert bóluefni er fáanlegt á almennum markaði gegn kregðu í sauðfé. 
Að frumkvæði Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytisins og Björns Steinbjörnssonar dýralæknis var farið í tilraunabólusetningu gegn kregðu á einu búi á norðurlandi. Þýskt fyrirtæki framleiddi sérsniðið tilraunabóluefni úr M. ovipneumonia stofnum sem einangraðir voru úr einum hrút frá viðkomandi bæ.  
Niðurstöður: sjá lokaskýrslu um tilraunina.
--------
 
Lífsferlar og vistfræði fuglaagða
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Kirill Galaktionov og Anya Gonchar, Dýrafræðistofnun Rússnesku Vísindaakademíunnar, St. Pétursborg, Rússlandi; Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Simona Georgieva, Jana Roháčová, Aneta Kostadinova og fleiri samverkamenn þeirra við Sníkjudýradeild Háskólans í Ceské Budejovice í Tékklandi.
Upphaf: 1998. Lok: Óviss.
 
Um árabil hafa rannsóknir verið stundaðar á Keldum á sníkjudýrafánu villtra íslenskra fugla. Meðal annars hefur verið unnið að raðgreiningum og útlitsathugunum ögðutegunda (Digenea) sem lifa sem lirfur í fjöru- og sjávarsniglum en á fullorðinsstigi í fjöru- og sjófuglum. Samvinna um þessar rannsóknir hefur verið við sérfræðinga í Frakkalandi og Rússlandi og sem stendur vinnur doktorsnemi (AG) í verkefninu. 
Á svipaðan hátt hafa ýmsar athuganir verið gerðar á ögðum sem hafa lífsferil sem bundinn er við ferskvatn, tegundir sem lifa á lirfustigi í vatnabobbanum Radix balthica (eldra heiti peregra) eða snúðbobbanum Gyraulus sp. Á seinni árum hafa athuganirnar einkum beinst að ættkvíslunum Petasiger, Echinostoma og Diplostomum. Á árinu var skipuleg leit gerð að fullorðinsstigum þessara agða, og raunar mörgum fleiri tegundum, í fjölmörgum fuglategundum, sumum sjaldgæfum á Íslandi. Sumir fuglanna voru veiddir að fengnu leyfi þar til bærra yfirvalda með rannsóknirnar í huga, nokkrar tegundir drukknuðu í silunganetum í Ytri Flóa Mývatns, aðrar voru fengnar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Jafnframt var vatnasniglum safnað í tvígang í nokkrum vötnum á höfuðborgarsvæðinu og í október einnig í Helgavogi í Mývatnssveit. Sníkjulirfufána sniglanna var ávörðuð bæði með sameindalíffræðilegum og útlitsfræðilegum aðferðum. Verið er að vinna úr niðurstöðunum og undirbúa birtingu gagna sem aflað var í ár sem og undanfarin ár. Á árinu voru haldnir tveir fyrirlestrar um strigeid ögður á fagráðstefnum erlendis (sjá „Erindi og veggspjöld á alþjóðlegum ráðstefnum“).
Verkefnin hafa notið styrks úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til margra ára.
--------
 
Meinafræði, faraldsfræði og erfðafræðileg flokkunarfræði sníkjudýra af fylkingu “Apicomplexa” í stofnum hörpuskelja í Norður Atlantshafi.
Starfslið: Árni Kristmundsson og Matthías Eydal.
Samstarf: Mark Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies, Jónas P. Jónasson, Hafrannsóknarstofnun, Susan Inglis, University of Massachusetts-Dartmouth, 
Upphaf: 2002. Áætluð lok: Óviss.
 
Mikil afföll voru í íslenska hörpuskeljastofninum við Ísland árin 1999-2006 og náði stofnvísitalan sögulegu lágmarki árið 2008, og var þá aðeins um 13% af meðaltali áranna 1996-2000. Afföllin voru bundin við eldri skeljar (veiðistofn). Við Færeyjar og austurströnd Norður-Ameríku hafa einnig orðið óeðlileg afföll á skyldum tegundum (Queen scallop- Chlamys opercularis; Sea scallop – Placopecten magellanicus). Markmið þessa verkefnis er að rannsaka hvort sjúkdómar geti átt beinan eða óbeinan þátt í afföllum skeljastofnanna.
Um 15 ára skeið hafa hörpuskeljar verið fengnar reglulega frá nokkrum lykilsvæðum í Breiðafirði auk sýna frá Arnarfirði, Hvalfirði og Húnaflóa til leitar og staðfestingar á sjúkdómsvöldum. Alls hafa verið rannsökuð meira en 5000 sýni.. 
Áður óþekkt tegund frumdýrs af fylkingu Apicomplexa sem sýkir og drepur vöðva- og blóðfrumur (hemocytes) hefur greinst. Smittíðnin er 100% í stærri skeljum á öllum sýnatökusvæðum, en nokkuð lægri í minnstu skeljunum (<4sm).  Tegundin (sníkjudýrið) hefur afgerandi áhrif á þyngd og gæði vöðva og kynkirtla skeljanna og benda líkur til þess að sýkingarnar hafi neikvæð áhrif á hrygningu stærri skeljanna, sem jafnan framleiða lífvænlegustu hrognin. Niðurstöður sýna að þessar sníkjudýrasýkingar eru aðalorsök stofnhruns hörpuskeljastofnsins.
Á síðustu 6-7 árum hafa sýkingar verið í rénun. Samhliða því hefur ástand skeljanna batnað mikið; stórsæ sjúkdómseinkenni eru sjaldgæf og þyngd vöðva og kynkirtla orðin eðlileg. Merki eru og um að stofninn sé á uppleið.
Rannsóknir á “Queen scallop” (Chlamys opercularis) frá Færeyjum og Skotlandi,“King scallop” (Pecten maximus) við V-Skotland og “Sea scallop“ (Placopecten magellanicus) við Atlantshafsströnd Kanada og Bandaríkjanna staðfesta tilvist sömu sníkjudýrategundar í skeljunum. Sambærileg sjúkdómseinkenni og í íslensku skelinni hafa greinst í skeljum við Færeyjar,  Bandaríkin og Kanada og því líkur á að sýkingarnar valdi afföllum í þeim, líkt og í íslensku hörpuskelinni. Auk þessa eru vísbendingar um að sama sníkjudýr valdi tjóni á stofnum bæði í Norður Kyrrahafi sem og í Barentshafi.
Síðustu ár hafa rannsóknir verið útvíkkaðar og áhersla lögð á að kanna smitferil sníkjudýrsins. Upphaflega var talið að smit bærist beint á milli skelja en sterkar vísbendingar eru nú um að lífsferill sníkjudýrsins þarfnist millihýsils. Sú vinna er langt á veg komin og er nú unnið að skrifum greina á þeim niðurstöðum.
Niðurstöður rannsókna úr verkefninu hafa nú þegar verið birtar í fjórum greinum í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum, nú síðast á haustmánuðum 2016. 
Verkefnið er styrkt af Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytinu og University of Massachusetts.
--------
 
Meinafræði íslensku rjúpunnar 
Starfslið: Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Ólafur K. Nielsen og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, Karl Skírnisson, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, Gunnar Stefánsson, Raunvísindastofnun Íslands, Sighvatur Sævar Árnason og Björg Þorleifsdóttir, Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands
Upphaf: 2006. Lok: 2017.
 
Haustið 2016 voru veiddar rúmlega 100 rjúpur í Þingeyjarsýslu og þær rannsakaðar. Breytingar voru skráðar og sýni tekin m.a. til vefjarannsókna. Sambærileg söfnun hefur verið framkvæmd ár hvert síðan 2006. Nýrnasýni hafa verið tekin úr 100 fuglum ár hvert þar sem niðurstöður frá 2006 sýndu oxalat nýrnakvilla hjá sumum fuglum. Fjöldi fugla með nýrnakvillann hefur verið breytilegur milli ára, frá 5% og upp í  47% fugla. Árið 2016 voru 25% fugla með nýrnakvillann. Kanna á útbreiðslu þessara breytinga og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigði rjúpunnar. Þessar meinafræðirannsóknir eru hluti af stóru verkefni þar sem kanna á tengsl heilbrigðis við stofnbreytingar íslensku rjúpunnar.
--------
 
Rannsóknir á blóðögðum í fuglum, lirfum þeirra í vatnasniglum og sundmannakláða
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Libuse Kolařová, Háskólanum í Prag í Tékklandi.
Upphaf: 1997. Lok: Óviss.
 
Áfram var unnið að rannsóknum sem tengjast sundmannakláða en honum valda sundlirfur fuglablóðagða af ættinni Schistosomatidae. Rannsóknirnar hófust árið 1997. Síðan hafa tugþúsundir vatnabobba (einkum Radix balthica) og hundruð fugla (aðallega andfuglar) verið rannsakaðir og áður óþekktum tegundum lýst fyrir vísindin (álftaögðunni Allobilharzia visceralis,  toppandarögðunni Trichobilharzia mergi og grágæsaögðunni T. anseri). Jafnframt var tegundinni T. regenti (nasaagða, hinar tegundirnar sem hér finnast lifa fullorðnar í lifur eða í æðum tengdum iðrum) lýst í fyrsta sinn úr náttúrulegum lokahýsli tegundarinnar (stokkönd í Landmannalaugum). Enn er unnið að lýsingu þriggja annarra tegunda, iðraögðum sem við höfum undanfarin ár fundið í öndum af ættkvíslunum Anas, Aythya og Mergus (stórvaxnari tegund en hin áðurnefnda T. mergi). Til skamms tíma töldum við að þessar þrjár tilheyrðu hópi sem gengið hefur undir nafninu T. franki. Enn er verið að safna efniviði og framkvæma rannsóknir þannig að hægt verði að ljúka lýsingu þessara tegunda. Á árinu flutti franski samverkamaðurinn DJ erindi tengt rannsóknunum á ráðstefnu erlendis (sjá „Erindi og veggspjöld á alþjóðlegum ráðstefnum“).
Verkefnið hefur um árabil hlotið styrki úr Rannsóknarsjóði H.Í. og árin 2012 og 2014 hlaut verkefnið styrki úr Jules Verne sjóðnum.
--------
 
Rannsóknir á hvítabjörnum
Starfslið: Karl Skírnisson og Ólöf G. Sigurðardóttir. 
Samstarf: Walter Vetter og Vanessa Gall, Eiturefnadeild Háskólans í Hohenheim í Þýskalandi; Frank Hailer, Verena Kutschera og Axel Janke við LOEWE rannsóknarstöðina (Biodiversität und Klima Forschungszentrum BiK-F) í Frankfurt í Þýskalandi.
Upphaf: 2008. Lok: Óviss.
 
Frá árinu 2008 hafa fimm hvítabirnir synt til Íslands, sá síðasti gekk á land 16. júlí á þessu ári (sjá neðar). Í framhaldinu hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar á þessum dýrum samanber ritaskrár í síðustu ársskýrslum. Ein grein til viðbótar birtist á árinu. Er hún um  erfðabreytileika og skyldleika hvítabjarna á Norðurhveli (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“). Önnur er í undirbúningi um umhverfismengun í fituvefjum hvítabjarna. 
Dýrið sem gekk á land í júlí og fellt var við Hvalnes á Skaga var birna og var hún í góðum holdum. Rannsóknir á líklegri lífssögu dýrsins, byggðar á athugunum árhringja í tannrótum, gefa til kynna að birnan hafi verið komin á 12. ár og fjórum sinnum um ævina skriðið í híði til að eignast afkvæmi, sem þó aðeins einu sinni náðu þeim aldri (þriðja ári)  að hafa getað orðið sjálfstæðir. Húnninn eða húnar sem birnan eignaðist í janúar 2016, um sjö mánaða gamlir, eru taldir hafa farist á leiðinni til landsins en mjólk var í spenum móðurinnar. Þrjár tegundir sníkjudýra fundust í birnunni, þeirra á meðal norðurhjaratríkínan Trichinella nativa. Skýrsla um rannsóknirnar var send Umhverfisráðuneytinu og Náttúrufræðistofnun (sjá „Ýmsar greinar og skýrslur“) og er hún einnig aðgengileg á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.
--------
 
Rannsóknir á lungnasjúkdómum í sauðfé
Starfslið: Þorbjörg Einarsdóttir, Sigríður Hjartardóttir, Ólöf Sigurðardóttir, Einar Jörundsson, Eggert Gunnarsson, Vala Friðriksdóttir og starfslið sýkla- og meinafræðideildar. 
Samstarf: Matvælastofnun og sauðfjárbændur. 
Upphaf: 2013. 
 
Verkefnið gengur út á að þróa bóluefni gegn tveim alvarlegum lungnasjúkdómum í sauðfé, kregðu (sumarhósta) og lungnapest. Í báðum tilfellum eru það bakteríur sem valda sýkingunni. Talið er að kregða sé oft fyrirrennari lungnapestar. 
1. Kregða.  Bóluefni gegn M. ovipneumoniae bakteríunni sem veldur kregðu, var prófað með því að bólusetja kindur fjórum sinnum yfir 10 mánaða tímabil. Sermi og hvítar blóðfrumur voru einangruð reglulega úr kindunum yfir tímabilið til að kanna hvort bóluefnið væki mælanlegt ónæmissvar gegn bakteríunni. Svo virðist sem lítið mótefnasvar hafi myndast í kindunum gegn bakteríunni og svarið jókst ekki með endurtekinni bólusetningu. Frumubundin svörun var einnig lítil og því er talið ólíklegt að þetta bóluefni gæti veitt marktæka vernd gegn sjúkdómnum.
Unnið er að þróun annarra bóluefna en einnig er unnið að grunnrannsóknum á bakteríunni með það að leiðarljósi að þróa bætt bóluefni. Rannsóknir okkar benda til þess að bakterían geti verið bæði utan hýsilfrumna og innan þeirra og opnar það möguleikann á hönnun fjölda nýrra bóluefnakandidata. Reiknað er með því að vinna við einn nýjan bóluefnakandidat hefjist á næstunni. Unnið er að greinahandriti þar sem niðurstöðum þessum er betur lýst.
2. Lungnapest. Unnið hefur verið að þróun bóluefna gegn Pasteurella bakteríum (Pasteurella multocida og Mannheimia haemolytica) sem valda lungnapest í kindum. Pasteurellur geta valdið sjúkdómi í öðrum dýrategundum, t.d. svínum, þar sem toxín eru helsti meinvirkniþáttur bakteríanna sem framkallað geta ákveðin sjúkdómseinkenni ein og sér. Með því að breyta toxínunum má “afeitra” þau og koma í veg fyrir sjúkdómseinkennin.
Bóluefnaþróun gegn Pasteurella í íslenskum kindum byggði á toxínum bakteríanna, og fylgdi vinnan að mestu þeirri áætlun sem gerð var. Hins vegar tókst okkur ekki að framkalla eituráhrif í frumurækt, og því gátum við því ekki sýnt fram á að afeitrun hefði verndandi áhrif. Þar sem ekki var hægt að sýna fram á eiturvirkni toxínanna í kindafrumum, þá var ólíklegt að hægt væri að sýna fram á verndandi áhrif mótefna eftir bólusetningu kinda. Því var ekki talið forsvaranlegt að halda þessu verkefni áfram óbreyttu.
Ein grein var birt á árinu (Einarsdottir T et al. J Med Microbiol. 2016 Sep;65(9):897-904), og vinna er hafin við skrif á öðru handriti.
Rannsóknarverkefnið var styrkt af Bændasamtökum Íslands, Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Rannís.
--------
 
Rannsóknir á notkun kítinafleiða sem beingræðsluefnis í kindamódeli
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Elvar Hólm Ríkharðsson, Guðmundur Einarsson, Katrín Ástráðsdóttir og Sigurður H. Helgason.
Samstarf: Jóhannes Gíslason, verkefnisstjóri, Jón M. Einarsson og Ng Chuen How hjá Genis ehf. Atli Dagbjartsson, Elín H. Laxdal, Halldór Jónsson og Sigurbergur Kárason hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Gissur Örlygsson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Upphaf: 2009. Lok: Óviss.
 
Um er að ræða verkefni á vegum líftæknifyrirtækisins Genis ehf. Markmið verkefnisins er að þróa nýja markaðsvöru (BoneReg™) til nota við bæklunarskurð-lækningar sem ætlað er að fullnægja vaxandi eftirspurn eftir nýjum beinígræðslu-efnum (synthetic bone graft) sem komið geta í stað beingræðlinga sem sóttir eru í heilbrigðan beinvef sjúklingsins (autograft). Slík beinígræðsluefni þurfa í megin atriðum að fullnægja tveimur mikilvægum skilyrðum. Annarsvegar þurfa þau að auðvelda myndun á nýjum beinvef með því að brúa bil í beininu sem ekki getur gróið af sjálfsdáðum („osteoconductive“) og hinsvegar er æskilegt að þau innihaldi líffræðilega virk efni sem hafa örvandi áhrif á þær frumur sem taka þátt í nýmyndun beinvefsins („osteogenetic“ eða „osteoinductive“).
Verkefnið byggir á því að nota calcíum fosföt sem kristallast þegar þau blandast vatni og mynda hydroxiapatít, líkt og algengt er um mörg beinfylliefni sem eru á markaðnum. Inn í þessa kalsíum fosfat blöndu eru settar amínósykrur sem eru deasetyleraðar afleiður af kítíni. Þessar sykrur eru á fjölsykru formi og hafa þá eiginleika að brotna niður í smærri fásykrusameindir fyrir tilstilli sérhæfðra kítínasa sem eru tjáðir í ýmsum frumum ónæmiskerfisins sem taka virkan þátt í græðingu beinsins. Þessar fásykrur hafa síðan áhrif til örvunar í beinmyndunarferlinu, auka nýmyndun í beinvefnum og örva beinþéttnina í nýmynduðum og nærliggjandi beinvef.
Framvindan í verkefninu felur í sér bestun á samsetningum kítínafleiðanna með hliðsjón af efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum og niðurstöðum úr tilraunum í rottum. Í kindamódeli eru eiginleikar og áhrif borin saman við önnur ígræðsluefni, sem hafa fengið markaðsleyfi og eru í klínískri notkun („predicate device“). Einnig eru könnuð í kindatilraun langtímaáhrif BoneReg™ í beinvef og áhrif efnisins á almennt heilsufar ígræðsluþeganna með hliðsjón af hugsanlegum vefjabreytingum í helstu líffærum og breytingum í blóðmynd á 12-18 mánaða tímabili.
Í tengslum við þetta verkefni var innréttuð ný skurðstofa til aðgerða á stórum tilraunadýrum eins og t.d. kindum og svínum við Tilraunastöðina. Skurðstofan er all vel búin tækjum svo sem góðu skurðarborði, svæfingartækjum, röntgentækjum o.fl. Allt eru þetta tæki sem hafa áður verið notuð við aðgerðir á fólki en hafa orðið að víkja fyrir nýrri búnaði. Þau eru hins vegar í ágætlega nothæfu ástandi og henta vel til aðgerða á stærri tilraunadýrum.
Verkefnið er styrkt með Öndvegisstyrk frá Rannís.
-------
 
Rannsóknir á orsökum smitandi hósta í hrossum
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Ólöf Sigurðardóttir, Sigríður Jónsdóttir, Sigríður Hjartardóttir, Vilhjálmur Svansson og Þórunn Rafnar.  
Samstarf: Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hestasjúkdóma, Matvælastofnun; Andrew Waller, Richard Newton og Carl Robinson, Animal Health Trust, Newmarket, Englandi, Matthew Holden, Wellcome Trust Sanger Institute, Cambridge, Englandi
Upphaf: 2010. Lok: Óviss.
 
Snemma á árinu 2010 kom upp áður óþekktur smitsjúkdómur í hrossum hér á landi. Sjúkdómurinn lýsti sér með hósta og graftarkenndri útferð úr nefi og minnk-uðu úthaldi hrossa í stífri þjálfun. Sjúkdómurinn reyndist mjög smitandi. Hross sýndu einkenni veikinnar í 2- 10 vikur og aðeins í örfáum tilfellum dró sjúkdómurinn hross til dauða. Gerðar voru umfangsmiklar rannsóknir til þess að komast að orsök¬um sjúkdómsins. Strax í upphafi voru tekin blóðsýni til mótefnamælinga og stroksýni úr nefi til veiru- og bakteríurannsókna. Auk bakteríuræktana var prófað fyrir öllum veirum sem vitað er til að leggist á öndunafæri hrossa með mótefnamælingum og sameindalíffræðilegum aðferðum sem og fyrir nokkrum öðrum öndunarfæraveirum í dýrum og mönnum. Ennfremur var veiruræktun reynd á þeim grundvellli að um óþekkta veiru í hrossum væri að ræða. Tilraunasmit var framkvæmt með því að koma ósýktum hrossum fyrir í smituðu umhverfi og fylgst með þróun sjúkdómsins, m.a. lengd meðgöngu, sjúkdómseinkennum og breytingum á blóðhag. Smituðum einstakl¬ingum var síðan lógað og meinafræði sjúkdómsins skoðuð. Þá voru nokkur fullorðin hross og folöld sem grunur lék á að sjúkdómurinn hafi dregið til dauða krufin. 
Engar vísbendingar komu fram um að veirur væru orsök sjúkdómsins. Hins vegar ræktaðist bakterían Streptococcus equi subsp. zooepidemicus frá nær öllum veikum hrossum, hrossum úr smittilraunum og hrossum þar sem krufningsmynd benti til að sjúkdómurinn hafi dregið til dauða. Bakterían hefur ennfremur ræktast úr hundum, köttum og manni, sem líkur eru á að hafi smitast vegna umgangs við veik hross. Rannsóknarniðurstöður benda til þess að bakterían S. equi subsp. zooepidem¬icus, sem yfileitt er litið á sem tækifærissýkil og orsök kjölfarsýkinga eftir veirusmit sé aðalorsök  þessa nýja smitsjúkdóms í hrossum hér á landi. Þótt yfirleitt sé um vægan sjúkdóm að ræða getur hann leitt dýr til dauða og jafnvel borist í aðrar dýra¬tegundir og menn. Samanburður á bakteríustofnum úr þessum efnivið með sameinda¬liffræðilegum aðferðum (pulse field gel electrophoresis (PFGE) og multilocus gene sequense typing (MLST)) benda til þess að ákveðinn stofn þessarar bakteríu sé aðal¬orsök faraldursins en stofn þessi hefur ekki áður greinst í hrossum hér á landi. Heilraðgreining á erfðaefni mismunandi streptokokkastofna sem einangraðir voru í tengslum við faraldurinn hefur rennt frekari stoðum undir þessa ályktun.
Þessum stofni, ST 209, var lýst árið 2008 sem orsök svipaðra sjúkdómstilfella í nágrannalandi okkar. Má því ætla að hann hafi borist hingað erlendis frá. Áframhaldandi rannsóknir á þessum bakteríustofni beinast að því að bera saman erfðaefni ST209 stofnsins við aðra íslenska og erlenda stofna af Streptococcus equi subsp. zooepidemicus og þannig leitast við að greina þá þætti í erfðaefni ST209 stofnsins sem tengjast meinvirkni hans í hrossum hérlendis. Vonast er til að þessar rannsóknir nýtist við hönnun á bóluefni til notkunnar í unghross og þróunnar grein-ingarprófs.
Fyrir tilstilli landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins fékk stofnunin myndarlegan styrk í formi aukafjárveitingar til þessara rannsókna.
--------
 
Rannsóknir á virkni unnins þorskroðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum 
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Einar Jörundsson, Eygló Gísladóttir, Elvar Hólm
Ríkharðsson og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Hilmar Kjartansson (verkefnisstjóri), Ingvar H. Ólafsson, Guðjón Birgisson og Sigurbergur Kárason hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi.
Upphaf: 2014. Lok: Óviss.
 
Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur þróað einkaleyfavarðar aðferðir og tækni sem umbreyta þorskroði, hráefni sem hingað til hefur verið fleygt, í verðmæta lækningavöru. Kerecis Omega3 er affrumað fiskiroð sem nota má til margskonar húð- og vefjaviðgerða.
Kerecis hefur í samstarfi við Keldur unnið að margskonar prófunum á virkni affrumaðs roðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum. Prófanirnar hafa verið framkvæmdar skv. leyfum sem veitt hafa verið af tilraunadýranefnd og hefur tilgangur prófananna verið að sýna fram á öryggi og virkni tækni Kerecis. Prófanir þær sem framkvæmdar hafa verið á Keldum eru undanfari prófana sem Kerecis hyggst framkvæma í mönnum og hefur tekist náið samstarf milli Kerecis og Keldna varðandi þessar prófanir sem gera Kerecis kleyft að framkvæma stærri hluta af vöruþróunarferli sínu á Íslandi.
--------
 
Rjúpusníkjudýr
Starfslið: Karl Skírnisson og Guðný Rut Pálsdóttir.
Samstarf: Ólafur Karl Nielsen, Ute Stenkewitz og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun Íslands; Ólöf G. Sigurðardóttir, Tilraunastöðinni á Keldum; Gunnar Stefánsson, Tölfræðimiðstöð HÍ; Björg Þorleifsdóttir og Sighvatur Sævar Árnason, Lífeðlisfræðistofnun HÍ; Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Náttúrustofu Norðausturlands; Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Bruce Conn, Berry College og Háskólanum í Harvard í Bandaríkjum Norður Ameríku.
Upphaf: 2006. Lok: Óviss. 
 
Undanfarin ellefu haust (2006-2016) hafa hvert ár 100 rjúpur (60 ungir og 40 gamlir fuglar) verið veiddar í rannsóknaskyni fyrstu vikuna í október í Þingeyjarsýslu. Rannsóknir á sníkjudýrum eru gerðar á Keldum en aðrar athuganir einkum á Náttúrufræðistofnun Íslands. Nokkrir nemendur hafa tekið að sér að vinna ákveðna verkþætti. Ber þar hæst doktorsverkefni Ute Stenkewitz en í árslok var það komið á lokastig. Tvær greinar eru þegar komnar út (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“) og þriðja greinin hefur þegar verið samþykkt til birtingar. Fyrirhugað er að safna rjúpum í síðasta sinn haustið 2017. Í framhaldinu verður verkefnið svo gert upp.
Tvær greinar sem tengjast verkefninu komu út á árinu. Önnur er um flokkunarfræðilega stöðu refabandormsins Mesocestoides canislagopodis en lirfustig (tetrathyridium) hans hefur af og til fundist í lifur eða í líkamsholi rjúpna. Hin greinin lýsir lirfunum en þær voru áður ókunnar í vísindaheiminum. Efnt var til samstarfs við Bruce Conn um athuganir sem miða að því að kanna hvort þetta lirfustig sé fært um að fjölga sér kynlaust í rjúpum en fyrstu niðurstöður benda til þess að svo sé ekki. 
Í árslok var lokið við að greina sníkjudýr rjúpna sem safnað var á tveimur svæðum á austurströnd Grænlands (Kulusukk og Skoresbysundi) fyrir nokkrum árum en þar finnast sumar tegundanna sem staðfestar hafa verið í íslenskum rjúpum. Greinar og erindi sem tengjast verkefninu eru tilgreind í ritaskrá (sjá „Ritrýndar greinar og erindi á ráðstefnum“).
Verkefnið hefur notið styrkja úr Rannsóknarsjóði H.Í. Árið 2009 hlaut það verkefnastyrk til þriggja ára úr Rannsóknarsjóði og árið 2014 naut US doktorsstyrks frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.
--------
 
Sullaveiki á Norðurhveli
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Rebecca Davidson, Rannsóknarmiðstöð sjúkdómavarna, Kjeller í Noregi og sex aðrir sérfræðingar á Norðurlöndum, Kanada og í Rússlandi.
Upphaf: 2016. Lok: 2016.
 
Sullaveiki í mönnum og dýrum var um aldir mikið heilbrigðisvandamál á Íslandi sem talið er hafa náð hámarki á ofanverðri 19. öld þegar fræðimenn áætluðu að fjórði til fimmti hver Íslendingur hafi verið smitaður. Markvissar aðgerðir leiddu til þess að sullaveikibandorminum (Echinococcus granulosus) var útrýmt hér á landi og þar með hvarf sullaveikin. Er það árangur á heimsmælikvarða. Stakir hundar voru þó greinilega ennþá smitaðir af bandorminum sums staðar á landinu nokkuð fram yfir miðja 20. öld. Vitað er um konu sem smitaðirst af sullaveiki rétt upp úr miðri öldinn og er það síðasta þekkta smit í mönnum. Hægast gekk að útrýma bandorminum austanlands. Þar fundust á árunum 1953 til 1979 sullir í 62 kindum. Sullirnir fundust við kjötskoðun í sláturhúsum og voru kindurnar frá átta eða níu býlum. Síðasta sullaveika kindin fannst á Stöðvarfirði. Í tengslum við yfirlitsgrein um stöðu sullaveikinnar á Norðurhveli var þessi saga rifjuð upp og sett í alþjóðlegt samhengi. (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“). Þar var meðal annars byggt á upplýsingum frá Páli Agnari Pálssyni, fyrrum yfirdýralækni.
--------
 
Tíðni og orsakir folaldadauða á Íslandi
Starfslið: Einar Jörundsson, Ólöf G. Sigurðardóttir, Vilhjálmur Svansson, Matthías Eydal, Eggert Gunnarsson, Eygló Gísladóttir, Guðbjörg Jónsdóttir og starfsfólk sýklafræðideildar Keldna.
Samstarf: Sigríður Björnsdóttir, Matvælastofnun. 
Upphaf: 2016. Lok: 2017.
 
Megin markið verkefnisins er að meta tíðni folaldadauða í íslenska hrossastofninum og greina orsakir hans. Verkefnið byggist annar vegar á upplýsingum frá hrossaræktendum um afföll folalda að 6 mánaða aldri og hins vegar á krufningum á allt að 30 lifandi fæddum folöldum að 6 mánaða aldri.
Ávinningurinn af því að þekkja helstu orsakir og tíðni folaldadauða er í fyrsta lagi til að geta brugðist við með fyrirbyggjandi aðgerðum og/eða réttri meðhöndlun þar sem þess gerist þörf.  Í öðru lagi er nauðsynlegt að þekkja eðlileg afföll til þess að geta brugðist skjótt við ef bera fer á óeðlilegum folaldadauða. 
Á árinu 2016 bárust til rannsóknar að Keldum 16 folöld og voru þau krufin og sjúkdómagreind. Níu folöld voru einungis 1-9 daga gömul og sjö voru 2 vikna – 4 mánaða. Meðal sjúkdómagreininga voru blóðsýkingar (Escherichia coli, Streptococcus equi subsp. zooepidemicus og Clostridium septicum), matarskortur, vansköpun og fituvefsbólga. Í eldri folöldunum var þráðormurinn Strongyloides westeri nokkuð algengur í mjógörn og voru sýkingar miklar í sumum tilfellum.
Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
-----------
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is