Háskóli Íslands

Rannsóknir á sníkjudýrum, örverum og meinafræði í ýmsum dýrategundum

Er skógarmítillinn Ixodes ricinus landlægur á Íslandi?
Starfslið: Matthías Eydal.
Samstarf: Jolyon Medlock og Kayleigh Hansford, Public Health England. Erling Ólafsson og Matthías Alfreðsson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Upphaf: 2015. Lok: Óviss.
 
Sérfræðingar á Tilraunastöðinni að Keldum og Náttúrufræðistofnun Íslands tóku nýverið saman öll tiltæk gögn um stórmítla (Ixodida) hér á landi, þar á meðal um skógarmítil (Ixodes ricinus) og birtu í Icelandic Agricultural Sciences (Sigurður H. Richter o.fl. 2013). Í kjölfarið barst þessum stofnunum erindi frá sérfræðingum við stofnunina Public Health England um samstarf við leit að skógarmítli á Íslandi. Þetta er þáttur í stærra verkefni (VectorNet) en í því er fólgin samvinna milli fjölda sérfræðinga viðsvegar í Evrópu um leit að skógarmítli og skráningu á útbreiðslu/útbreiðsluaukningu hans. Sérstök áhersla var lögð á það á árinu 2015 að kanna tilvist mítilsins á norðlægum slóðum.
Sumarið 2015 var farið á 54 staði, fyrst og fremst skóglendi, suðvestanlands og á Austurlandi sem líklegri þóttu en aðrir sem heppilegt búsvæði fyrir skógarmítla, og leitað kerfisbundið að mítlum í gróðri með svokallaðri „dragging“ aðferð, meðal annars á svæðum þar sem mítlar höfðu áður fundist á hundum.
Niðurstöðurnar urðu þær að engir skógarmítlar fundust í þessari könnun sumarsins. Samt sem áður bárust Keldum og Náttúrufræðistofnun til skoðunar mun fleiri skógarmítlar á árinu en nokkurn tímann fyrr, alls 24 sýni víða að af landinu. Þráðurinn verður aftur tekinn upp sumarið 2016. Enn er ósvarað spurningunni hvort skógarmítill sé orðinn landlægur á Íslandi. Ekki leikur á því vafi að skógarmítlar berast til landsins á vorin með farfuglum og e.t.v. er það uppruni allra mítlanna sem síðan finnast á spendýrum yfir sumarið.
 
------
 
Fósturlát hjá gemlingum
Starfslið: Einar Jörundsson, Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Charlotta Oddsdóttir, Emma Eyþórsdóttir og Eyjólfur K. Örnólfsson, Landbúnaðarháskóla Íslands; Sigrún Bjarnadóttir, Matvælastofnun; Jón Viðar Jónmundsson, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins.
Upphaf: 2015. Lok: 2016.
 
Lambleysi veturgamalla áa hefur þekkst lengi hér á landi, en talsverðar sveiflur eru milli ára. Áður var talið að vandamálið skírðist af breytileika í kynþroska og hæfni til að festa fang frá ári til árs. Þegar fósturtalningar með ómsjá hófust hér á landi kom fljótt í ljós að allt að helmingur veturgamalla áa á einstaka búum gengu með dauð fóstur, og skiluðu ekki lambi að vori. Það varð því ljóst að gemlingar festu fang en að talsvert var um fósturlát.
Fyrri rannsóknir hér á landi miðuðu að því að kanna hvort búskaparlag og aðstæður, selenskortur eða þekktir sýkingarvaldar séu áhrifavaldar í þessu vandamáli, en ekki tókst að greina fylgni milli þessara þátta og fósturláts í gemlingum. Í gögnum sem safnað hefur verið undanfarin ár á Tilraunabúinu að Hesti eru vísbendingar um að þeir gemlingar sem þyngjast hraðar eigi frekar á hættu að missa fóstur.
Verkefnið snýst um að rannsaka fósturlát í íslenskum gemlingum. Lögð verður áhersla á að greina hvenær á meðgöngunni fósturlát verður hjá gripunum. Fylgst verður með þyngdaraukningu gemlinganna á mánuðunum fyrir fengitíma og meðan á meðgöngu stendur. Einnig verður leitast við að gera víðtæka meinafræðilega skoðun á gemlingum sem eru við það að láta fóstri, í því skyni að greina almennt heilsufar gripanna.
Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
 
-----
 
Hreindýrasníkjudýr
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Christine Cuyler, Greenland Institute of Natural Resources, Nuuk.
Upphaf: 2013. Lok: Óviss.
 
Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar allt frá árinu 2002 á sníkjudýrafánu íslenskra hreindýra. Árið 2013 hófst samvinna við hreindýrasérfræðing á Grænlandi um sníkjudýrarannsóknir á hreindýrum þar í landi, nánar tiltekið blönduðum stofni innfluttra Finnmerkurhreindýra og upprunalegs stofns, á Ameralik svæðinu í námunda við Nuuk á Vestur Grænlandi. Rannsökuð hafa verið saursýni úr kálfum í tvö skipti. Í fyrra skiptið komu í ljós tvær tegundir þráðorma og hnísillinn Eimeria rangiferis og voru niðurstöðurnar birtar í fagtímaritinu Rangifer á síðasta ári. Árið 2015 voru fleiri sýni athuguð og þá fannst áður óþekkt hníslategund. Var henni lýst sem nýrri tegund fyrir vísindin (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“). Heiti hnísilsins, Eimeria tuttui, er leitt af orðinu tuttu sem er nafn hreindýrsins í máli Inúíta.
 
-----
 
Lífsferlar og vistfræði fuglaagða
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Kirill Galaktionov og Anya Gonchar, Dýrafræðistofnun Rússnesku Vísindaakademíunnar, St. Pétursborg, Rússlandi; Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi og Aneta Kostadinova ásamt MS og PhD nemendum og samverkamönnum við Sníkjudýradeild Háskólans í Ceské Budejovice í Tékklandi.
Upphaf: 1998. Lok: Óviss.
 
Um árabil hafa rannsóknir verið stundaðar á Keldum á sníkjudýrafánu villtra fugla hér á landi. Meðal annars hefur verið unnið að raðgreiningum og útlitsathugunum ögðutegunda (Digenea) sem lifa sem lirfur í fjöru- og sjávarsniglum en á fullorðinsstigi í fjöru- og sjófuglum. Samvinna um þessar rannsóknir hefur verið við sérfræðinga í Frakkalandi og Rússlandi og nú vinnur einn doktorsnemi (AG) í verkefninu.
Á svipaðan hátt hafa ýmsar athuganir verið gerðar á ögðum sem hafa lífsferil sem bundinn er við ferskvatn, tegundir sem lifa á lirfustigi í vatnabobbanum Radix balthica (fyrra heiti peregra). Á seinni árum hafa athuganirnar einkum beinst að ættkvíslunum Petasiger, Echinostoma og Diplostomum. Á síðasta ári birtust tvær greinar um síðastnefndu ættkvíslina eftir að sex lirfutegundir (fimm þeirra áður óþekktar í vísindaheiminum) fundust í lífríki Íslands. Á árinu var skipuleg leit gerð að fullorðnu lífsformum þessara óþekktu tegunda í 40 fuglum af 12 mismunandi tegundum (flórgoða, fimm andategundum, fjórum tegundum máfa, hrossagauk og stara). Verið er að vinna úr niðurstöðunum og er frekari söfnun fyrirhuguð á næsta ári.
Verkefnin hafa notið styrks úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til margra ára.
 
-----
 
Meinafræði, faraldsfræði og erfðafræðileg flokkunarfræði hnísildýrasýkinga (Apicomplexa) í stofnum hörpuskelja við strendur Íslands, Færeyja, Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada
Starfslið: Árni Kristmundsson, Sigurður Helgason og Matthías Eydal.
Samstarf: Mark Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies; Jónas P. Jónasson, Hafrannsóknastofnun; Susan Inglis, University of Massachusetts- Dartmouth; Grant Campell, Scot-Hatch Ltd. Aultbea, Loch Ewe, Scotland, UK.
Upphaf: 2002. Lok: Óviss.
 
Mikil afföll voru í íslenska hörpuskeljastofninum við Ísland árin 1999-2006 og náði stofnvísitalan sögulegu lágmarki árið 2008, og var þá aðeins um 13% af meðaltali áranna 1996-2000. Afföllin voru bundin við eldri skeljar (veiðistofn). Við Færeyjar og austurströnd Norður-Ameríku hafa einnig orðið óeðlileg afföll á skyldum tegundum (Queen scallop- Chlamys opercularis; Sea scallop – Placopecten magellanicus). Markmið þessa verkefnis er að rannsaka hvort sjúkdómar geti átt beinan eða óbeinan þátt í afföllum skeljastofnanna.
Um 14 ára skeið hafa hörpuskeljar verið fengnar reglulega frá nokkrum lykilsvæðum í Breiðafirði auk sýna frá Arnarfirði, Hvalfirði og Húnaflóa til leitar og staðfestingar á sjúkdómsvöldum. Alls hafa verið rannsökuð um 5000 sýni úr u.þ.b. 2300 skeljum.
Áður óþekkt tegund frumdýrs af fylkingu Apicomplexa sem sýkir og drepur vöðva- og blóðfrumur (haemocytes) hefur greinst. Smittíðnin er 100% í stærri skeljum á öllum sýnatökusvæðum, en nokkuð lægri í minnstu skeljunum (<4 sm). Tegundin (sníkjudýrið) hefur afgerandi áhrif á þyngd og gæði vöðva og kynkirtla skeljanna og benda líkur til þess að sýkingarnar hafi neikvæð áhrif á hrygningu stærri skeljanna, sem jafnan framleiða lífvænlegustu hrognin. Niðurstöður sýna að þessar sníkjudýrasýkingar eru aðalorsök stofnhruns hörpuskeljastofnsins.
Á síðustu 5-6 árum hafa sýkingar verið í rénun. Samhliða því hefur ástand skeljanna batnað mikið; stórsæ sjúkdómseinkenni eru sjaldgæf og þyngd vöðva og kynkirtla orðin eðlileg. Merki eru og um að stofninn sé á uppleið.
Rannsóknir á “Queen scallop” (Chlamys opercularis) frá Færeyjum og Skotlandi, “King scallop” (Pecten maximus) við V-Skotland og “Sea scallop“ (Placopecten magellanicus) við Atlantshafsströnd Kanada og Bandaríkjanna staðfesta tilvist sömu sníkjudýrategundar í skeljunum. Sambærileg sjúkdómseinkenni og í íslensku skelinni greinast (greindust) í skeljum við Færeyjar og Bandaríkin og á vissum svæðum við Kanada og því líkur á að sýkingarnar valdi afföllum í þeim, líkt og í íslensku hörpuskelinni.
Niðurstöður rannsókna úr verkefninu hafa nú þegar verið birtar í þremur greinum í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum.
Verkefnið er styrkt af Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytinu.
 
-----
 
Meinafræði íslensku rjúpunnar
Starfslið: Ólöf G. Sigurðardóttir, Eygló Gísladóttir og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Ólafur K. Nielsen og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun Íslands; Karl Skírnisson, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum; Gunnar Stefánsson, Raunvísindastofnun Íslands; Sighvatur Sævar Árnason og Björg Þorleifsdóttir, Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands.
Upphaf: 2006. Lok: Óviss.
 
Haustið 2015 voru veiddar rúmlega 100 rjúpur í Þingeyjarsýslu og þær rannsakaðar. Breytingar voru skráðar og sýni tekin m.a. til vefjarannsókna. Sambærileg söfnun hefur verið framkvæmd ár hvert síðan 2006. Nýrnasýni voru tekin úr 100 fuglum þar sem niðurstöður frá 2006 sýndu nýrnakvilla hjá sumum fuglum. Fjöldi fugla með nýrnakvilla hefur verið breytilegur milli ára, var m.a. 50%, 14%, 27% og 10% árin 2012-2015.
Kanna á útbreiðslu þessara breytinga og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigði rjúpunnar. Þessar meinafræðirannsóknir eru hluti af stóru verkefni þar sem kanna á tengsl heilbrigðis við stofnbreytingar íslensku rjúpunnar. 
 
-----
 
Rannsóknir á blóðögðum í fuglum, lirfum þeirra í vatnasniglum og sundmannakláða
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Damien Jouet og Hubert Ferté, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Libuse Kolařová og Petr Horák, Háskólanum í Prag í Tékklandi.
Upphaf: 1997. Lok: Óviss.
 
Áfram var unnið að rannsóknum sem tengjast sundmannakláða en honum valda sundlirfur fuglablóðagða af ættinni Schistosomatidae. Rannsóknirnar hófust árið 1997 og síðan þá hafa tugþúsundir vatnabobba (einkum Radix balthica) og hundruð fugla (einkum andfugla) verið rannsakaðir og áður óþekktum tegundum lýst í vísindaheiminum (meðal annarra álftategundinni Allobilharzia visceralis, toppandarögðunni Trichobilharzia mergi) og nú síðast T. anseri sem er mjög algeng í staðbundnu tjarnargæsunum í Reykjavík, en hefur auk þess fundist í villta stofninum hér á landi sem og í grágæsum í Frakklandi (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“). Verið er að vinna með fleiri tegundir, til dæmis tvær sem fundist hafa í stokköndum og duggöndum í Landmannalaugum. Auk ofangreindu tegundanna finnast iðraagðan T. franki og nasaagðan T. regenti jöfnum höndum á Íslandi og á meginlandi Evrópu og enn eru að finnast áður óþekktar tegundir blóðagða hér á landi. Á árinu flutti franski samverkamaðurinn DJ erindi tengt rannsóknum okkar á ráðstefnu erlendis. 
Til að stemma stigu við sundmannakláða í Landmannalaugum hefur öndum verið meinað að verpa og ala upp unga ofan við baðlaugina. Rannsóknir á stokköndum og duggöndum sem felldar hafa verið á svæðinu hafa sýnt að þar er viðvarandi smit í gangi á öllum árstímum.
Verkefnið hefur um árabil hlotið styrki úr Rannsóknarsjóði H.Í. og árin 2012 og 2014 hlaut verkefnið einnig styrki úr Jules Verne sjóðnum.
 
-----
 
Rannsóknir á fálkasníkjudýrum
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Ólafur Karl Nielsen, Náttúrufræðistofnun Íslands; Nanna Daugbjerg Christensen, Háskólanum í Kaupmannahöfn.
Upphaf: 2010. Lok: 2015.
 
Árið 2010 var gerð forkönnun á Keldum á óværu allmargra fálka sem borist höfðu Náttúrufræðistofnun til rannsókna árin þar á undan og haustið 2012 hófust frekari rannsóknir sem miðuðu einnig að athugunum á innri sníkjudýrum fuglanna. Nutum við liðsinnis mastersnema (NDC) sem fjallaði í MS ritgerð sinni við Kaupmannahafnarháskóla um stóran hluta niðurstaðnanna. Grein um þessar niðurstöður birtist í erlendu, ritrýnd fagtímariti á árinu (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“).
 
-----
 
Rannsóknir á frumdýrasýkingum í kóraldýrum í Karíbahafi og við strendur Malasíu í tengslum við vaxandi bleikingu (bleaching) dýranna
Starfslið: Árni Kristmundsson.
Samstarf: Mark Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies.
Upphaf: 2013. Lok: Óviss.
 
Bleiking kóraldýra (coral bleaching) í hitabeltinu hefur aukist mikið síðustu ár. Orsök þessa er röskun samlífis kóraldýranna og ljóstillífandi samlífislífveru þeirra, sem eru einfrumungar, m.a. af tegundum Symbiodinium spp. (fylking Alveolata). Röskun á þessu samlífi, sem hefur verið tengd hnattrænni hlýnun, veldur því að kóraldýrin drepast.
Frumniðurstöður hafa leitt í ljós að fjölmörg kóraldýr eru sýkt af einfruma sníkjudýrum af fylkingu Apicomplexa. Markmið þessara rannsókna er að kanna hvort þessar sýkingar eigi þátt í röskun samlífis kóraldýranna og ljóstillifandi frumdýra.
Verkefnið er styrkt af University of Malaya í Malasíu.
 
-----
 
Rannsóknir á hvítabjörnum
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Walter Vetter og Vanessa Gall, Eiturefnadeild Háskólans í Hohenheim í Þýskalandi; Frank Hailer, Verena Kutschera og Axel Janke við LOEWE rannsóknarstöðina (Biodiversität und Klima Forschungszentrum BiK-F) í Frankfurt í Þýskalandi.
Upphaf: 2008. Lok: Óviss.
 
Á árunum 2008 til 2011 syntu fjórir hvítabirnir til landsins. Í framhaldinu hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar á þessum dýrum (sbr. ritaskrár í síðustu ársskýrslum). Á árinu var áfram unnið með sýni úr þessum dýrum erlendis. Annars vegar við LOEWE stofnunina í Frankfurt í Þýskalandi þar sem rituð var grein um erfðabreytileika og skyldleika hvítabjarna á Norðurhveli. Greinin hefur verið samþykkt til birtingar í erlendu fagtímariti. Hinsvegar var tekið til við að vinna að birtingu niðurstaðna sem fengust við rannsóknir á Íslandsbjörnunum við eiturefnadeild Háskólans í Hohenheim og um miðbik ársins birtist grein um það efni í víðlesnu fagtímariti .
 
------
 
Rannsóknir á lungnasjúkdómum í sauðfé
Starfslið: Þorbjörg Einarsdóttir, Sigríður Hjartardóttir, Ólöf Sigurðardóttir, Einar Jörundsson, Eggert Gunnarsson og starfslið sýkladeildar og meinafræðideildar.
Samstarf: Matvælastofnun og sauðfjárbændur.
Upphaf: 2013.
 
Verkefnið gengur út á að þróa bóluefni gegn tveimur alvarlegum lungnasjúkdómum í sauðfé – kregðu (sumarhósta) og lungnapest. Í báðum tilfellum eru það bakteríur sem valda sýkingunni. Talið er að kregða sé oft fyrirrennari lungnapestar.
1. Kregða. Framfarir í ræktun M. ovipneumoniae, bakteríunnar sem veldur kregðu, hafa gert okkur kleift að búa til og prófa tilraunabóluefni. Sex kindur voru bólusettar þrisvar sinnum og ónæmissvör könnuð. Næsta skref verður að kanna hversu góða vernd bóluefnið veitir kindunum. Þróun annarra tegunda bóluefna gegn kregðu heldur jafnframt áfram, sem byggja á sameindalíffræðilegum aðferðum. Vegna þess hve breytileg M. ovipneumoniae bakterían er, þá er einnig unnið að greiningu á skyldleika M. ovipneumoniae baktería og leitað að stofnum og einstökum þáttum bakteríanna sem gætu veitt verndandi ónæmissvar gegn breiðum hóp af sjúkdómsvaldandi kregðubakteríum.
2. Lungnapest. Þrjár tegundir pasteurella baktería geta valdið lungnapest í sauðfé, Pasteurella multocida, Mannheimia haemolytica og Bibersteinia trehalosi. M. haemolytica er helsti orsakavaldur lungnapestar á Íslandi, og veldur um 70% tilfella, á meðan P. multocida veldur um 27% lungnapestartilfella og B. trehalosi um 3% tilfella.
Greining á P. multocida leiddi í ljós að það virðast vera tveir hópar af bakteríum í sauðfé; annars vegar erfðafræðilega einsleitur hópur með hjúpgerð D sem fannst aðallega í lungum sláturhúsafjár, og hins vegar erfðafræðilega breytilegar bakteríur með hjúpgerð A, D eða F sem voru einangraðar úr sýnum sem voru send til Keldna úr veiku eða sjálfdauðu fé. Unnið er að frekari greiningu á þessum stofnum, en líklegt er að lungnapestarbóluefni þurfi að endurspegla þann breytileika sem finnst í P. multocida bakteríum í sauðfé.
Greining á M. haemolytica leiddi í ljós að það eru að minnsta kosti tveir hópar af M. haemolytica bakteríum í íslensku sauðfé. Töluverður munur er á basaröð lktA, helsta meinvirknigens bakteríunnar, á milli hópanna. Unnið verður með báðar útgáfur lktA við bóluefnaþróun, og kannað hvort munur sé á meinvirkni þeirra.
Rannsóknarverkefnið er styrkt af Bændasamtökum Íslands, Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Rannís.
 
-----
 
Rannsóknir á lyfjaþolnum E. coli í kjúklingaeldi á Norðulöndunum
Starfslið: Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir og Eggert Gunnarsson.
Samstarf: Marianne Sunde, Veterinærinstituttet, Noregi; Björn Bengtsson, Statens veterinärmedicinska anstalt, SVA, Svíþjóð.
Upphaf: 2013. Lok: 2015.
 
Árið 2013 hlutu ofantaldir aðilar styrk frá Norrænum vinnuhópi um örverufræði, dýraheilsu og dýravernd (NMDD, á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar) til að rannsaka lyfjaþolna stofna Escherichia coli sem einangrast úr sláturkjúklingum á Norðurlöndunum. Meginmarkmið verkefnisins er að afla þekkingar um stofna E. coli, sem eru þolnir gegn ákveðnum mikilvægum sýklalyfjum, í kjúklingaeldi á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að geta veitt ráðgjöf til yfirvalda og iðnaðarins um leiðir til að koma í veg fyrir uppkomu og dreifingu slíkra stofna í fæðukeðjunni. Einnig var könnuð faraldsfræði lyfjaþolinna klóna og reynt að skilgreina árangursríka klóna sem mögulega hafa dreifst um Norðulöndin. Lögð var áhersla á að greina stofna sem eru þolnir gegn þriðju kynslóðar cephalosporínum og mynda breiðvirka beta-laktamasa (Extended Spectrum Beta Lactamases, ESBL) og stofna sem eru þolnir gegn lyfjum af flokki kínólóna.
Skimað var fyrir kínólónaþolnum og ESBL myndandi E. coli í eldissýnum úr kjúklingum á Íslandi haustið 2013 og í kjúklingabotnlöngum og kjúklingakjöti frá janúar til nóvember 2014. Kínólónaónæmir stofnar E. coli fundust í um það bil 70% af sýnunum og er það talsverð aukning sé miðað við fyrri rannsóknir sem voru gerðar á árunum 2006-2008 þegar hlutfallið var um 50%. ESBL myndandi E. coli fannst í 8% af sýnunum, bæði í botnlöngum og í kjöti, og er það sambærileg tíðni og á hinum Norðurlöndunum. Fyrstu niðurstöðu faraldsfræðilegra rannsókna sýna að sömu, eða mjög skylda klóna, má finna í öllum löndunum. Unnið var að úrvinnslu og greinaskrifum árið 2015.
 
-----
 
Rannsóknir á notkun kítinafleiða sem beingræðsluefnis í kindamódeli
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Elvar Hólm Ríkharðsson, Guðmundur Einarsson, Katrín Ástráðsdóttir og Sigurður H. Helgason.
Samstarf: Jóhannes Gíslason, verkefnisstjóri, Jón M. Einarsson og Ng Chuen How hjá Genis ehf. Atli Dagbjartsson, Elín H. Laxdal, Halldór Jónsson og Sigurbergur Kárason hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Gissur Örlygsson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Upphaf: 2009. Lok: Óviss.
 
Um er að ræða verkefni á vegum líftæknifyrirtækisins Genis ehf. Markmið verkefnisins er að þróa nýja markaðsvöru (BoneReg™) til nota við bæklunarskurð-lækningar sem ætlað er að fullnægja vaxandi eftirspurn eftir nýjum beinígræðslu-efnum (synthetic bone graft) sem komið geta í stað beingræðlinga sem sóttir eru í heilbrigðan beinvef sjúklingsins (autograft). Slík beinígræðsluefni þurfa í megin atriðum að fullnægja tveimur mikilvægum skilyrðum. Annarsvegar þurfa þau að auðvelda myndun á nýjum beinvef með því að brúa bil í beininu sem ekki getur gróið af sjálfsdáðum („osteoconductive“) og hinsvegar er æskilegt að þau innihaldi líffræðilega virk efni sem hafa örvandi áhrif á þær frumur sem taka þátt í nýmyndun beinvefsins („osteogenetic“ eða „osteoinductive“).
Verkefnið byggir á því að nota calcíum fosföt sem kristallast þegar þau blandast vatni og mynda hydroxiapatít, líkt og algengt er um mörg beinfylliefni sem eru á markaðnum. Inn í þessa kalsíum fosfat blöndu eru settar amínósykrur sem eru deasetyleraðar afleiður af kítíni. Þessar sykrur eru á fjölsykru formi og hafa þá eiginleika að brotna niður í smærri fásykrusameindir fyrir tilstilli sérhæfðra kítínasa sem eru tjáðir í ýmsum frumum ónæmiskerfisins sem taka virkan þátt í græðingu beinsins. Þessar fásykrur hafa síðan áhrif til örvunar í beinmyndunarferlinu, auka nýmyndun í beinvefnum og örva beinþéttnina í nýmynduðum og nærliggjandi beinvef.
Framvindan í verkefninu felur í sér bestun á samsetningum kítínafleiðanna með hliðsjón af efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum og niðurstöðum úr tilraunum í rottum. Í kindamódeli eru eiginleikar og áhrif borin saman við önnur ígræðsluefni, sem hafa fengið markaðsleyfi og eru í klínískri notkun („predicate device“). Einnig eru könnuð í kindatilraun langtímaáhrif BoneReg™ í beinvef og áhrif efnisins á almennt heilsufar ígræðsluþeganna með hliðsjón af hugsanlegum vefjabreytingum í helstu líffærum og breytingum í blóðmynd á 12-18 mánaða tímabili.
Í tengslum við þetta verkefni var innréttuð ný skurðstofa til aðgerða á stórum tilraunadýrum eins og t.d. kindum og svínum við Tilraunastöðina. Skurðstofan er all vel búin tækjum svo sem góðu skurðarborði, svæfingartækjum, röntgentækjum o.fl. Allt eru þetta tæki sem hafa áður verið notuð við aðgerðir á fólki en hafa orðið að víkja fyrir nýrri búnaði. Þau eru hins vegar í ágætlega nothæfu ástandi og henta vel til aðgerða á stærri tilraunadýrum.
Verkefnið er styrkt með Öndvegisstyrk frá Rannís.
 
-----
 
Rannsóknir á orsökum smitandi hósta í hrossum
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Ólöf Sigurðardóttir, Sigríður Jónsdóttir, Sigríður Hjartardóttir, Vilhjálmur Svansson og Þórunn Rafnar.
Samstarf: Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hestasjúkdóma, Matvælastofnun; Andrew Waller, Richard Newton og Carl Robinson, Animal Health Trust, Newmarket, Englandi, Matthew Holden, Wellcome Trust Sanger Institute, Cambridge, Englandi
Upphaf: 2010. Lok: Óviss.
 
Snemma á árinu 2010 kom upp áður óþekktur smitsjúkdómur í hrossum hér á landi. Sjúkdómurinn lýsti sér með hósta og graftarkenndri útferð úr nefi og minnkuðu úthaldi hrossa í stífri þjálfun. Sjúkdómurinn reyndist mjög smitandi. Hross sýndu einkenni veikinnar í 2- 10 vikur og aðeins í örfáum tilfellum dró sjúkdómurinn hross til dauða. Gerðar voru umfangsmiklar rannsóknir til þess að komast að orsökum sjúkdómsins. Strax í upphafi voru tekin blóðsýni til mótefnamælinga og stroksýni úr nefi til veiru- og bakteríurannsókna. Auk bakteríuræktana var prófað fyrir öllum veirum sem vitað er til að leggist á öndunafæri hrossa með mótefnamælingum og sameindalíffræðilegum aðferðum sem og fyrir nokkrum öðrum öndunarfæraveirum í dýrum og mönnum. Ennfremur var veiruræktun reynd á þeim grundvellli að um óþekkta veiru í hrossum væri að ræða. Tilraunasmit var framkvæmt með því að koma ósýktum hrossum fyrir í smituðu umhverfi og fylgst með þróun sjúkdómsins, m.a. lengd meðgöngu, sjúkdómseinkennum og breytingum á blóðhag. Smituðum einstaklingum var síðan lógað og meinafræði sjúkdómsins skoðuð. Þá voru nokkur fullorðin hross og folöld sem grunur lék á að sjúkdómurinn hafi dregið til dauða krufin.
Engar vísbendingar komu fram um að veirur væru orsök sjúkdómsins. Hins vegar ræktaðist bakterían Streptococcus equi subsp. zooepidemicus frá nær öllum veikum hrossum, hrossum úr smittilraunum og hrossum þar sem krufningsmynd benti til að sjúkdómurinn hafi dregið til dauða. Bakterían hefur ennfremur ræktast úr hundum, köttum og manni, sem líkur eru á að hafi smitast vegna umgangs við veik hross. Rannsóknarniðurstöður benda til þess að bakterían S. equi subsp. zooepidemicus, sem yfileitt er litið á sem tækifærissýkil og orsök kjölfarsýkinga eftir veirusmit sé aðalorsök þessa nýja smitsjúkdóms í hrossum hér á landi. Þótt yfirleitt sé um vægan sjúkdóm að ræða getur hann leitt dýr til dauða og jafnvel borist í aðrar dýrategundir og menn. Samanburður á bakteríustofnum úr þessum efnivið með sameinda-liffræðilegum aðferðum (pulse field gel electrophoresis (PFGE) og multilocus gene sequense typing (MLST)) benda til þess að ákveðinn stofn þessarar bakteríu sé aðalorsök faraldursins en stofn þessi hefur ekki áður greinst í hrossum hér á landi. Heilraðgreining á erfðaefni mismunandi streptokokkastofna sem einangraðir voru í tengslum við faraldurinn hefur rennt frekari stoðum undir þessa ályktun.
Þessum stofni, ST 209, var lýst árið 2008 sem orsök svipaðra sjúkdómstilfella í nágrannalandi okkar. Má því ætla að hann hafi borist hingað erlendis frá. Áframhaldandi rannsóknir á þessum bakteríustofni beinast að því að bera saman erfðaefni ST209 stofnsins við aðra íslenska og erlenda stofna af Streptococcus equi subsp. zooepidemicus og þannig leitast við að greina þá þætti í erfðaefni ST209 stofnsins sem tengjast meinvirkni hans í hrossum hérlendis. Vonast er til að þessar rannsóknir nýtist við hönnun á bóluefni til notkunnar í unghross og þróunnar greiningarprófs.
Fyrir tilstilli landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins fékk stofnunin myndarlegan styrk í formi aukafjárveitingar til þessara rannsókna.
 
-----
 
Rannsóknir á virkni unnins þorskroðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum
Starfslið: Eggert Gunnarsson, Einar Jörundsson, Eygló Gísladóttir, Elvar Hólm Ríkharðsson, Sigurður H. Helgason og Guðbjörg Jónsdóttir.
Samstarf: Hilmar Kjartansson (verkefnisstjóri), Ingvar H. Ólafsson og Sigurbergur Kárason hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi.
Upphaf: 2014. Lok: Óviss.
 
Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur þróað einkaleyfavarðar aðferðir og tækni sem umbreyta þorskroði, hráefni sem hingað til hefur verið fleygt, í verðmæta lækningavöru. Kerecis Omega3 er affrumað fiskiroð sem nota má til margskonar húð- og vefjaviðgerða. 
Kerecis hefur í samstarfi við Keldur unnið að margskonar prófunum á virkni affrumaðs roðs sem vefjaviðgerðarefni í kindum. Prófanirnar hafa verið framkvæmdar skv. leyfum sem veitt hafa verið af tilraunadýranefnd og hefur tilgangur prófananna verið að sýna fram á öryggi og virkni tækni Kerecis. Prófanir þær sem framkvæmdar hafa verið á Keldum eru undanfari prófana sem Kerecis hyggst framkvæma í mönnum og hefur tekist náið samstarf milli Kerecis og Keldna varðandi þessar prófanir sem gera Kerecis kleyft að framkvæma stærri hluta af vöruþróunarferli sínu á Íslandi.
 
-----
 
Rjúpusníkjudýr
Starfslið: Karl Skírnisson, Ute Stenkewitz og Finnur Karlsson.
Samstarf: Ólafur Karl Nielsen og Guðmundur A. Guðmundsson, Náttúrufræðistofnun Íslands; Ólöf G. Sigurðardóttir, Tilraunastöðinni á Keldum; Gunnar Stefánsson, Tölfræðimiðstöð HÍ; Björg Þorleifsdóttir og Sighvatur Sævar Árnason, Lífeðlisfræðistofnun HÍ; Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Náttúrustofu Norðausturlands; Damien Jouet, Háskólanum í Reims í Frakklandi; Bruce Conn, Berry College og Háskólanum í Harvard í Bandaríkjum Norður Ameríku.
Upphaf: 2006. Lok: Óviss.
 
Undanfarin tíu haust (2006-2015) hafa hvert ár 100 rjúpur (60 ungir og 40 gamlir fuglar) verið veiddar í rannsóknaskyni fyrstu vikuna í október í Þingeyjarsýslu. Rannsóknir á sníkjudýrum eru gerðar á Keldum en aðrar athuganir eru gerðar á Náttúrufræðistofnun Íslands, öðrum deildum HÍ og erlendis. Nokkrir nemendur hafa tekið að sér að vinna ákveðna verkþætti rannsóknanna sem námsverkefni. Ber þar hæst doktorsverkefni Ute Stenkewitz, sem hefur aðgang að niðurstöðum áranna 2006-2012 og vinnur verkefnið undir leiðsögn Ólafs K. Nielsen, fuglavistfræðings (umsjónakennari), Gunnars Stefánssonar tölfræðings og ofanritaðs  (KS). Unnið er að greinaskrifum. Ein grein er þegar komin út (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“) og tvær aðrar komnar í ritrýningu. Fyrirhugað er að safna rjúpum í síðasta sinn haustið 2017.
Blásið var til samstarfs við Damien Jouet um sameindalíffræðilegar rannsóknir á flokkunarfræðilegri stöðu refabandormsins Mesocestoides canislagopodis en meint lirfustig (tetrathyridium) tegundarinnar hefur af og til verið að finnast í líkamsholi rjúpnanna sem hér hafa verið til rannsóknar undanfarin tíu ár. Reyndist sama tegundin þarna á ferðinni. Þá var lokið við að lýsa útliti lirfustigsins fyrir vísindaheiminn en það var áður óþekkt mönnum. Í þessu skyni voru ritaðar á árinu tvær greinar um þessar niðurstöður og eru báðar farnar í ritrýningu í erlend fagtímarit. Einnig var efnt til samstarfs við Bruce Conn um athuganir sem miða að því að kanna hvort lirfustig tegundarinnar sé fært um að fjölga sér kynlaust í rjúpum en fyrstu niðurstöður benda til þess að svo sé ekki. Að endingu voru veiddar rúmlega 60 hagamýs í Þingeyjarsýslu í vetrarbyrjun 2014. Leit að tetrhyridium lirfum í þeim hefur þegar borið árangur.
Til samanburðar við íslensku niðurstöðurnar var haldið áfram við að rannsaka sníkjudýrafánu rjúpna sem lifa á Austur Grænlandi.
Verkefnið hefur notið styrkja úr Rannsóknarsjóði H.Í. Árið 2009 hlaut það verkefnastyrk til þriggja ára úr Rannsóknarsjóði og árið 2014 naut US doktorsstyrks frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.
 
-----
 
Sníkjudýr æðarfugla
Starfslið: Karl Skírnisson.
Upphaf: 1993. Lok: 2015.
 
Árið 1993 voru æðarfuglar veiddir í fjögur skipti í vísindaskyni á Skerjafirði (að vetri, fyrir og eftir álegu að vori, að hausti) og rannsóknir gerðar á heilbrigði, fæðuvali og ýmsum þáttum sem lúta að stofnvistfræði (m.a. varplíffræði og árstíðabreytingum á ásigkomulagi). Þessi þáttur rannsóknanna hefur þegar verið birtur. Tugir tegunda ytri og innri sníkjudýra hafa fundist í stofninum hér á landi. Nýverið var punkturinn settur aftan við þessar rannsóknir með því að birta viðamikla grein um niðurstöðurnar í ritinu Journal of Sea Research (sjá „Ritrýndar greinar birtar í bókum eða tímaritum“) en þar eru í mörgum tilvikum tengsl mismunandi fæðuvals kollna og blika annars vegar, og sníkjudýrabyrði hinsvegar, skýrð.
 
-----
 
Tengsl sníkjudýra og hýsla í vistkerfum norðurhjarans: Athuganir byggðar á afráni sjó- og strandfugla á kræklingi
Starfslið: Karl Skírnisson.
Samstarf: Jan Ove Bustnes, Norsku Náttúrufræðistofnuninni í Tromsö; Jim Wilson, Trinity College í Dublin á Írlandi, Kirill V. Galaktionov ásamt fleiri sérfræðingum við rannsóknarstofnanir í Pétursborg, Murmansk og Magadan í Rússlandi.
Upphaf: 2006. Lok: 2015.
 
Sex stofnanir sem liggja að Norður-Atlantshafinu fengu fyrir allmörgum árum styrk frá INTAS, stofnun Evrópusambandsins þar sem kanna átti áhrif sníkjudýra á samskipti afræningja og bráðar. Módeltegundirnar voru kræklingur og æðarfugl en lirfustig sjúkdómsvaldandi sníkjudýra berast ofan í æðarfugl með smituðum skeldýrum. Rannsóknirnar eru gerðar á svæði sem nær frá Íslandi í vestry til Okhotskhafsins við Norður Kyrrahafið í austri. Rannsóknunum er lokið en úrvinnsla og greinaskrif eru enn í gangi. Þegar hefur birtst grein úr verkefninu í ritinu Estuarine, Coastal and Shelf Science en á árinu birtist grein (undir forystu KVG) sem bar heitið Factors influencing the distribution of trematode larvae in blue mussels Mytilus edulis across the north eastern Atlantic í ritinu Marine Biology. 
Væntanlega verður þetta síðasta greinin úr verkefninu en fróðlegt gæti verið að birta þann þátt sérstaklega sem snýr að Íslandi, til dæmis í grein í Náttúrufræðingnum. Í verkefninu voru kræklingar úr Grafarvogi og Hvalfirði meðal annars aldursgreindir og tugir einstaklinga krufðir og sníkjulirfur í þeim taldar og þær ákvarðaðar til tegundar.
 
-----
 
Trichodina bifdýr í hörpudiski, Chlamys islandica, við Ísland
Starfslið: Matthías Eydal og Árni Kristmundsson.
Upphaf: 2013. Lok: Óviss.
Bifdýr (Ciliata) af ættkvíslinni Trichodina eru vel þekktar gisti- eða sníkjulífverur á fiskum. Trichodina bifdýrum í samlokum (Bivalvia) hefur ekki verið gefinn eins mikill gaumur. Í fyrri athugunum okkar á íslenska hörpudiskinum sáust Trichodina bifdýr og markmið þessa verkefnis er að rannsaka nánar tilvist og tíðni þeirra í hörpudiskinum og lýsa bifdýrunum. Skoðaður er hörpudiskur úr Breiðafirði og Dýrafirði. Leitað er að Trichodina bifdýrum á tálknum og á líffærum (labial palps/mouth lips) við munnop. Tvær Trichodina tegundir hafa þegar fundist, áður óþekktar.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is