Háskóli Íslands

Rannsóknir á sjúkdómum, sníkjudýrum og ónæmisfræði fiska

Fjölbreytileiki smásærra sníkjudýra í fiskum og hryggleysingjum í ferskvatni og sjó í Norður Evrópu, SA Asíu og í Karíbahafi
Starfslið: Árni Kristmundsson, Fjóla Rut Svavarsdóttir, Ásthildur Erlingsdóttir.
Samstarf: Mark A. Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West    Indies; Egill Karlsbakk, Institute of Marine Research, Bergen Noregi; Patrick Keeling, University of British Columbia, Vancouver Kanada; David Bass, CEFAS, Weymouth Bretlandi
Upphaf: 2012 Áætluð lok: Óviss.

Rannsóknirnar miða að því að skima ýmsar tegundir fiska og skelfiska fyrir smásæjum sníkjudýrum. Til þessa hafa fjölmargar tegundir verið rannsakaðar. Verkefnið lýtur að því að finna áður óþekktar tegundir, lýsa þeim og greina erfðafræðilega flokkunarfræði þeirra.
Fjölmargar tegundir fiska og hryggleysingja úr ferskvatni og sjó hafa verið rannsakaðar frá mismunandi svæðum í Norður Evrópu, SA Asíu og í Karíbahafinu.
Nokkrir tugir smásærra sníkjudýrategunda hafa greinst sem ekki hefur áður verið lýst. Verkefnið hefur þegar skilað sex ritrýndum greinum og nú er unnið að skrifum nokkurra til viðbótar.
Verkefnið hefur m.a. notið fjárhagslegs stuðnings frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Ross University School of Veterinary Medicine og University of Malaya, Malasíu (UMRG og RU styrkja).
--------
 
Ichthyophonus hoferi faraldur í íslenskri sumargotssíld – hugsanleg tengsl við veirusýkingar
Starfslið: Árni Kristmundsson, Fjóla Rut Svavarsdóttir, Heiða Sigurðardóttir, Sigríður Guðmundsdóttir.
Upphaf: 2016. Áætluð lok: 2018.
 
Ichthyophonus hoferi er sveppa-líkt einfruma sníkjudýr sem lengi vel flokkaðist til sveppa. Það er ósérhæft hvað varðar hýsla og hefur fundist í meira en 100 fisktegundum. Næmi fisktegunda fyrir sýkingum er þó mjög mismunandi, en síldartegundir, bæði í Atlantshafi (Clupea harangus) og Kyrrahafi (Clupea pallasii), eru taldar einna næmastar fyrir sýklinum. Rannsóknir á Íslandi árin 1991-2000 hafa sýnt að stórsæ einkenni sýkingar var að finna í u.þ.b. 0,1% síldar við Ísland á því tímabili. Ichthyophonus faraldrar varð vart í íslensku sumargotsíldinni í nóvember 2008. Í kjölfarið hóf Hafrannsóknastofnun kerfisbundnar rannsóknir á faraldrinum sem leiddu í ljós mjög háa tíðni sýnilegra sýkinga árin 2008-2011, eða allt að 70%. Árið 2014 var tíðni sýkinga enn há í eldri árgöngum en mun lægri í þeim yngri. Faraldurinn hefur valdið verulegum skaða á síldarstofninum; bæði hefur hrygningarstofninn minnkað umtalsvert, miðað við árin fyrir faraldur, auk þess sem segja má að hrun hafi orðið í nýliðun. Það leiðir því að sjálfu sér að löndun afla minnkaði mikið þessi ár. Þrátt fyrir umtalsverðar rannsóknir hefur gengið erfiðlega að greina orsakir þess að faraldrar sem þessir komi upp. Það á einnig við í tilfelli faraldursins við Ísland sem virðist hafa verið skyndilegur. Hvað veldur því að tíðni Ichthyophonus fer úr því að vera um 0,1% árin á 10. áratugnum yfir í 30-70% tæplega 10 árum síðar, er því ennþá ráðgáta.
Auk þess að vera sérlega næm fyrir Ichthyophonus sýkingum hafa erlendar rannsóknir sýnt að síld er einnig næmari fyrir ýmsum veirusýkingum, miðað við margar aðrar fisktegundir, ekki síst VHSV og VEN veirunum en báðar hafa þessar veirur valdið afföllum í villtum síldarstofnum erlendis. Í ljósi þess að nýlega greindist VHSV veiran í fyrsta sinn á Íslandi, þ.e. í villtum hrognkelsum úr Breiðafirði, var ákveðið að kanna hvort ástæða Ichthyophonus faraldrar í síld við Ísland gæti tengst veirusýkingum, en engar slíkar rannsóknir hafa áður verið gerðar m.t.t. síldar. Tilgátan er sú að vægar undirliggjandi Ichthyophonus sýkingar hafi verið til staðar í stofninum sem með tilkomu veirusýkinga að auki, hafi sýkingar náð að magnast upp og verða að faraldri. 
Verkefnið hófst síðastliðið haust og því fyrirliggjandi niðurstöður takmarkaðar. Þær benda þó sterklega til þess að enn séu Ichthyophonus sýkingar algengar í fullorðinni síld. Auk þessa, greindust vefjaskemmdir sem ekki er hægt að heimfæra á Ichthyophonus en gefa fremur vísbendingar um veirusmit. 
Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi.
--------
 
PKD-nýrnasýki í íslensku ferskvatni - útbreiðsla og áhrif á villta stofna laxfiska
Starfslið: Árni Kristmundsson og Fjóla Rut Svavarsdóttir.
Samstarf: Þórólfur Antonsson og Friðþjófur Árnason, Veiðimálastofnun. 
Mark A. Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies.
Upphaf: 2008. Áætluð lok: 2016.
 
PKD-nýrnasýki, eða “Proliferative Kidney Disease”, er alvarlegur sjúkdómur sem herjar á laxfiska í ferskvatni.  Sjúkdómurinn orsakast af smásæju sníkjudýri, Tetracapsuloides bryosalmonae, sem þarfnast tveggja hýsla til að ljúka lífsferli sínum; laxfiska og mosadýra. Sjúkdómurinn hefur lengi verið þekktur erlendis og valdið þar miklu tjóni, bæði í eldisfiski og villtum fiskum. PKD-nýrnasýki er beintengd vatnshita, sem þarf að ná a.m.k. 12°C í nokkurn tíma svo fiskar sýni einkenni sjúkdóms. Sníkjudýrið er þó fært um að ljúka lífsferli sínum við lægri vatnshita og viðhalda smiti í köldu árferði. 
Samfara hlýnandi veðurfari hefur sýkin verið vaxandi vandamál í villtum laxfiskastofnum í Evrópu og greinist nú á norðlægari slóðum en áður, nú síðast á Íslandi haustið 2008. Á sama tíma hefur bleikjustofnum hnignað víða á Íslandi, einkum í grunnum láglendisvötnum þar sem vatnhiti yfir sumarið getur orðið umtalsverður. 
Umfangsmiklar rannsóknir á PKD-nýrnasýki hafa verið í gangi undanfarin 8 ár, sem er samstarfsverkefni Tilraunastöðvar HÍ að Keldum,  Veiðmálastofnunar og Dr. Mark A. Freeman, Ross University School of Veterinary Medicine í St. Kitts.  
Markmið þessa verkefnis er að rannsaka útbreiðslu PKD í ferskvatnskerfi Íslands og kanna hvort sýkillinn sé áhrifavaldur í viðgangi laxfiskastofna í íslensku ferskvatni. Niðurstöður rannsóknanna sýna að sýkillinn sem veldur PKD-nýrnasýki er útbreiddur í íslensku ferskvatni. Hlutfall sjúkra fiska er hátt í sumum vötnum eða ám; á bilinu 7 – 100%. Sjúkdómseinkenni greinast nær eingöngu í 1-3ja ára fiski, bæði bleikju og urriða. Smit hefur greinst í laxaseiðum en þó hafa engin þeirra haft einkenni sjúkdóms. Líklegt er að PKD-sýki hafi verulega neikvæð áhrif á laxfiskastofna í ákveðnum ferskvatnskerfum á Íslandi.
Hluti verkefnisins, var viðfangsefni Fjólu Rutar Svavarsdóttur í rannsóknarverkefni hennar til meistaraprófs sem hún lauk vorið 2016. Verkefnið er styrkt af Rannís, Orkuveitu Reykjavíkur, Umhverfisráði Reykjavíkurborgar og Fiskræktarsjóði.
--------
 
Ranaveira í hrognkelsum
Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir, Árni Kristmundsson, Fjóla Rut Svavarsdóttir og Heiða Sigurðardóttir.
Samstarf: EURL (European Union Reference Laboratory for Fish Diseases) í Kaupmannahöfn. Stofnfiskur lagði til hrognkelsaseiði.
Upphaf: 2016. Lok: 2017.
 
Hrognkelsarækt hófst hérlendis með stuttum aðdraganda í ársbyrjun 2014. Hvatinn var mikil eftirspurn eftir hrognkelsaseiðum, einkum í Færeyjum, til að nota sem „hreinsifisk“ í laxeldi í sjó. Laxalús er mikill skaðvaldur á sjókvíalaxi í nálægum löndum og vaxandi eftirspurn er eftir hreinsifiski til að éta lúsina af laxinum. Vorið 2015 ræktaðist veira af ættkvíslinni Ranavirus (ætt: Iridoviridae) úr villtum klakfiski sem veiddur var skammt undan Grindavík og aftur 2016, í fiski veiddum undan Reykjanestá og á Breiðafirði. Raðgreiningar á s.k. MCP geni veirunnar sýna mestan skyldleika við veirur sem ræktuðust í Danmörku fyrir all mörgum árum, úr þorski annars vegar en sandhverfu hins vegar. Í hvorugt skiptið var um sjúkdóm að ræða. Þá er umtalsverður skyldleiki við EHNV og ECV/ESV sem eru sjúkdómsvaldandi veirur. Unnið er að raðgreiningu búta úr fleiri genum, sem búið er að einangra úr veirunni, svo unnt verði að fá gleggri mynd af stöðu hennar innan ættkvíslarinnar. Sams konar veira hefur nú ræktast úr hrognkelsum í Færeyjum, Skotlandi og Írlandi.
Á árinu var sett upp frumtilraun, í kerasal á Keldum, til að skoða áhrif Ranaveirusýkingar í hrognkelsum. Hrognkelsaseiði (5-10g), alin hjá Stofnfiski í Höfnum, voru sprautuð í kviðarhol (i.p.) með þremur mismunandi veiruþynningum. Viðmiðunarhópar fengu PBS (saltlausn). Meðan á tilraun stóð, í 4 vikur, var fóðrað daglega og ker þrifin reglulega. Fylgst var með dauða allan tímann og sýni tekin úr öllum dauðum fiski, sett í veiruæti (4,5 ml) og geymd við -80°C uns þau voru unnin til sáningar á frumulínur (Bf-2 og EPC). Á rannsóknartímabilinu voru einnig tekin sýni í vefjafræðiskoðun með reglulegu millibili.
Mikil afföll hófust um 14 dögum eftir upphaf tilraunar í veirusmituðum fiski sem fékk sterkustu og miðlungssterku veirulausnina. Veiran óx úr öllum sýnum úr smituðum fiski utan einu. Nokkur dauði var í ósýktum fiski síðustu vikuna, sem líklega má rekja til eldisaðstæðna, en veira óx ekki úr þeim fiski. Niðurstöðurnar sýna að mögulegt er að smita hrognkelsi með þessari veiru með því að sprauta veirulausn í kviðarhol. Umfangsmiklar vefjaskemmdir greindust í smituðum fiski, einkum í hjarta, nýra, milti og lifur. Nauðsynlegt er að gera frekari tilraunir til að skoða áhrif annarra smitaðferða, þ.e. baðsmits og samvistarsmits, til að hægt verði að skilgreina meinvirkni veirunnar við eldisaðstæður betur. Þá ber einnig brýna nauðsyn til að athuga hvort hún getur sýkt lax. Ef svo er, þarf að athuga hvort smit berist auðveldlega milli þessara fisktegunda.
Verkefnið er styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis: U 16 009-16.
--------
 
Rannsóknir á ónæmiskerfi þorsks í bráðasvari
Starfslið: Birkir Þór Bragason, Sigríður Guðmundsdóttir og Carmelo Iaria ERASMUS nemandi.
Samstarf: Caterina Faggio, prófessor við líffræðideild háskólans í Messina á Sikiley. Starfsfólk á Þekkingarsetrinu í Sandgerði. 
Upphaf: 2005.
 
Í verkefninu, sem Bergljót Magnadóttir setti á fót og stjórnaði til 2012, hefur verið unnið að rannsóknum á bráðasvari í þorski. Ætlunin er að halda þeim rannsóknum áfram. Undanfarin ár hefur verið unnið að rannsóknum á bráðasvari gagnvart bakteríusýkingu. Heilbrigð þorskseiði voru sýkt í vöðva með kýlaveikibróðurbakteríu (Aeromonas salmonicida spp. achromogenes) og samanburðarhópur var sprautaður með saltdúa. Blóð- og vefjasýni voru tekin með reglulegu millibili yfir vikutíma og þannig útbúið stórt sýnasafn. Verkefnið var hluti af Laurea magistrale ritgerð (samsvarar M.Sc.) Antonella Fazio við háskólann í Messína á Sikiley. Antonella útskrifaðist haustið 2014.
Samanber fyrri ársskýrslur, þá er búið að ljúka mælingum, og úrvinnslu gagna þar að lútandi, á magni kortisóls, fríu járni og járnbindigetu í sermi. Hið sama á við um genatjáningu  IL-1ß, C3, CRP-PI og PII, ApoA-I, hepsidíns, transferríns og elongation factor 1alpha í sýnum úr milta, nýra og lifur. Á árinu 2016 var mæld tjáning genanna IL-8, IFN-y, cathelicidin og lysozyme í lifur, nýra og milta. Þá vinnu vann Carmelo Iaria, Erasmus nemi frá Háskólanum í Messina á Sikiley. Niðurstöður verkefnisins eru í handriti.
Verkefnið hefur verið styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og ERASMUS áætlun Evrópusambandsins.HÍ. 
--------
 
Sporð- og uggarot í íslensku fiskeldi
Starfslið: Sigríður Hjartardóttir, Þorbjörg Einarsdóttir, Árni Kristmundsson, Sigríður Guðmundsdóttir og Guðbjörg Guttormsdóttir. 
Samstarf: Agnar Steinarsson, Hafrannsóknastofnun og Jón Kjartan Jónsson, Samherja. 
Upphaf: 2013. Lok: 2016.
 
Sporð- og uggarot er vaxandi vandamál í fiskeldi víða um heim en sjúkdómurinn er einnig þekktur í villtum fiskistofnum. Orsakavaldarnir eru bakteríur af flokki Tenacibaculum sp. sem valda sjúkdómi í fiskum í söltu og hálfsöltu vatni og Flavobacterium sp. sem valda sjúkdómi í ferskvatnsfiskum. Frá árinu 2009 hefur sporð- og uggarot verið áberandi í íslensku fiskeldi og þá sérstaklega í bleikjueldi.
Verkefnið hófst árið 2013 og síðan þá hefur miklum efnivið verið safnað bæði úr eldisfiski og villtum fiski. Aðal áherslan hefur verið lögð á efnivið úr bleikju og laxeldi, bæði úr sjúkum fiski, bleikjuhrognum frá kynbótastöð og eins úr inntaksvatni eldisstöðva.
Samanburður á 16S rRNA genum sýndi að bakteríurnar eru mjög fjölbreytilegar. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að smit berist ekki með hrognum en smit berist mögulega með vatni. Með raðgreiningu á sjö genum til viðbótar, þ.e.a.s. með MLST greiningu, hefur okkur tekist að finna bakteríuísólöt úr fiskum og vatni með sömu MLST arfgerð. Samkvæmt því eru sterkar líkur á að sjúkdómurinn berist með því vatni sem fiskurinn syndir í.
Sú tegund ættkvíslarinnar Flavobacterium sp. sem talinn er aðal sjúkdómsvaldurinn í lax- og silungseldi er Flavobacerium psychrophilum og kallast sjúkdómurinn sem hún veldur Cold water disease eða Rainbow trout fry syndrome. Það er athyglisvert að aðeins hluti þeirra bakteríustofna sem við höfum einangrað flokkast undir þessa tegund og því spurning hvort í stofnasafni okkar megi finna nýjar ótegundagreindar tegundir sporð- og uggarotsbaktería.
Áhugi er fyrir því að þróað verði bóluefni gegn sjúkdómnum. Enn sem komið er er ekki til neitt bóluefni á markaðnum þó víða hafi verið gerðar tilraunir til framleiðslu á sérhönnuðum bóluefnum fyrir ákveðin eldisfyrirtæki. Vegna þeirrar miklu fjölbreytni bakteríuísólata hér á landi verður erfitt að finna einn eða fáa fulltrúa í bólefnagerð sem gagnast öllum. 
Í framhaldinu verður lögð áhersla á samanburð á sýkihæfni okkar Flavobacterium sp. stofna og framkvæmd leit að sameiginlegum ónæmisþáttum sem að gagni geta komið við bóluefnaþróun. 
Verkefnið er styrkt af AVS, rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Fyrirlestur var haldinn um stöðu verkefnissins á fræðslufundi á Keldum þann 25. febrúar 2016 og hluti verkefnisins kynnt með veggspjaldi á Vísindadegi á Keldum þann 4. maí 2016.
-------- 
 
Veiruskimun í kvíalaxi og villtum laxi til fiskræktar
Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir verkefnisstjóri, Heiða Sigurðardóttir meðumsækjandi og Harpa Mjöll Gunnarsdóttir starfsmaður verkefnisins. 
Samstarf: Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma, MAST. Starfsmenn nokkurra seiðaeldistöðva sem og sjókvíaeldisstöðva. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, styrknr: R 15 017-15
Nemi: Harpa Mjöll Gunnarsdóttir nemi í lífeindafræði lauk diplomaverkefni innan verkefnisins fyrri hluta árs 2016. Hún hóf vinnu að MS verkefni síðari hluta ársins og mun útskrifast vorið 2017. Auk Sigríðar og Hörpu er Birkir Þ. Bragason í MS-nefndinni.
Upphaf: 2015. Lok: 2017.
 
Markmið verkefnisins er að skima eftir þremur völdum veirum í laxi og auka við þekkingu sem safnast hefur í þjónustuverkefnum á Keldum og í AVS-smáverkefni 2013-2014. Raðgreiningar efniviðar munu auka upplýsingagildið. Niðurstöður hafa verið kynntar á fundum og ráðstefnum innan lands og utan. Á árinu 2016 skiptist vinna við verkefnið í tvo þætti.
Raðgreining HPR0 stofna: Blóðþorri (infectious salmon anaemia eða ISA) er tilkynningaskyldur veirusjúkómur sem herjar á Atlantshafslax (Salmo salar L.). Faraldrar af meinvirkum stofnum veirunnar (ISAV-HPRvir) hafa komið upp í löndum allt í kringum Ísland, en aldrei greinst hérlendis. Ómeinvirkt afbrigði ISAV veirunnar (ISAV-HPR0) greindist hérlendis í 0,63% af sýnum úr eldislaxi sem skimuð voru á árunum 2011-2015. Þessi efniviður var nýttur í verkefninu til að kanna gæði raðgreininga á sýnum sem voru undirbúin með mismunandi hætti. cDNA hreinsun RT-PCR afurða og gelbúta úr rafdrætti nægði oftast til að skila nothæfum raðgreininga- niðurstöðum, sem getur stytt ferlið um a.m.k. 3 daga sé miðað við aðferðir þar sem tópóklónun er hluti ferilsins. Raðgreiningar á breytilegu svæði genabútar nr.6 sýndu að allir íslensku stofnarnir voru nákvæmlega eins. Samanburður við raðir úr HPR0 og HPRvir stofnum frá Noregi, Færeyjum, Skotlandi og Kanada sýndi mestan skyldleika við HPR0 stofna frá Færeyjum og Noregi.
Veiruskimun, skimað eftir PRV, PMCV og ISAV í ýmsum hópum: Vorið 2015 var sýnum safnað úr seiðahópum undan villtum klakfiski úr nokkrum ám á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Haustið 2016 var þessum hópum fylgt eftir með sýnatökum úr klaklaxi sem gekk í árnar eftir eitt til tvö ár í sjó. Vorið 2015 og 2016 var sýnum safnað í seiðaeldisstöð. Hópurinn frá 2015 fór í eldiskvíar á Vestfjörðum en hópurinn 2016 í kvíar á Austfjörðum. Samkvæmt áætlun á að taka sýni úr kvíafiski eftir 8 og 18 mánuði í sjó. Fyrri sýnatakan á Vestfjörðum hefur farið fram og sú seinni verður í byrjun árs 2017. Fyrri sýnatakan á Austfjörðum er á dagskrá snemma árs 2017 og sú síðari um haustið.
Veiruskimanir hafa farið fram í öllum hópunum, sem safnað hefur verið fram til þessa, með RT-qPCR aðferðum. ISAV og PMCV hafa aldrei greinst en PRV fannst í öllum hópum nema einum. Mikill munur var milli hópa, bæði hvað varðar tíðni jákvæðra sýna og útkomu einstakra mælinga. PRV jákvæð sýni sem hafa Ct gildi undir 30 verða unnin áfram fyrir raðgreiningu með vísum fyrir sértækt markgen er nefnist S1. Niðurstöður verða bornar saman við niðurstöður sambærilegara raðgreininga í nálægum löndum.
--------
 
VHS-veira í hrognkelsum
Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir, Árni Kristmundsson og Heiða Sigurðardóttir. 
Samstarf: EURL (European Union Reference Laboratory for Fish Diseases) í Kaupmannahöfn. Stofnfiskur lagði til hrognkelsaseiði.
Upphaf: 2016. Lok: 2017.
 
Hrognkelsarækt hófst hérlendis með stuttum aðdraganda í ársbyrjun 2014. Hvatinn var mikil eftirspurn eftir hrognkelsaseiðum, einkum í Færeyjum, til að nota sem „hreinsifisk“ í laxeldi í sjó. Laxalús er mikill skaðvaldur á sjókvíalaxi í nálægum löndum og vaxandi eftirspurn er eftir hreinsifiski til að éta lúsina af laxinum. Sumarið 2015 einangraðist veira úr fiski veiddum á Breiðafirði sem reyndist vera VHSV (viral haemorrhagic septicaemia virus) sem veldur veirublæði. Raðgreining á s.k. G-geni sýndi að veiran tilheyrir flokki IV, en virðist vera af nýjum undirflokki. Frekari raðgreiningar eru nú í úrvinnslu svo unnt verði að staðsetja hana betur innan VHSV undirflokkaanna.
Þetta var í fyrsta sinn sem tilkynningaskyld veira greindist í fiski hérlendis og samkvæmt alþjóðlegum samningum var þetta tilkynnt til OIE 23. október 2015. Greining VHSV veiru í hrognkelsum vakti nokkurn ugg í eldisgeiranum og margar spurningar vöknuðu, einkum þó hvort lax væri móttækilegur fyrir þessum sýkli. Evrópska tilvísunarrannsóknastofan í fisksjúkdómum (European Union Reference Laboratory eða EURL) bauðst til að setja upp tilraun í húsakynnum sínum í Kaupmannahöfn og fór starfsmaður Tilraunastöðvarinnar að Keldum (Sigríður Guðmundsdóttir) utan til að taka þátt í tilrauninni. Unnið var með tvær fisktegundir (lax og regnbogasilung u.þ.b. 2g að þyngd) og 3 undirflokka af veirunni, VHSV-Ia, VHSV-IVa og VHSV-IV-Ice. VHSV-Ia var valin til viðmiðunar þar sem hún er  skæð í regnbogaeldi og VHVS-IVa sem er skæð í Kyrrahafslaxi. Smitað var á tvennan hátt, annars vegar með því að sprauta veirulausn í kviðarhol (i.p. smit) og hins vegar með því að baða seiðin í veirulausn í 5 klst. Í hverjum hópi voru um 90 seiði sem skipt var jafnt í þrjár 10 lítra eldisskálar. Viðmiðunarstofnarnir hegðuðu sér eins og lagt var upp með, þ.e. að VHSV-Ia olli 95,2 % dauða hjá regnbogasilungi í baðsmiti. Aðrar tilraunir til baðsmits tókust ekki. VHSV-IVa reyndist vera u.þ.b. tvöfalt skæðari í laxi en regnboga þegar veirunni var sprautað í kviðarhol (i.p.) sem einnig var í samræmi við væntingar. Dauði í laxi sem sýktur var með VHSV-IV-Ice í kviðarhol var 31,9% en einungis 4% í regnbogasilungi sem sýktur var á sama hátt. Frumtilraunir sýna að unnt er að sýkja hrognkelsi með sýkingu i.p. og einnig með baðsmiti og samvistarsmiti. Þá er fyrirhugað að athuga hvort/hversu auðveldlega smit með VHSV geti borist milli hrognkelsa og laxa. Aðstæður hérlendis eru ekki taldar nægilega öruggar fyrir tilraunir með VHSV, svo reiknað er með að slíkar tilraunir verði settar upp hjá EURL í Kaupmannahöfn. 
Verkefnið er styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis: U 16 009-16.
 
-------------------------------------

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is