Háskóli Íslands

Rannsóknir á sjúkdómum, sníkjudýrum og ónæmisfræði fiska

Fjölbreytileiki smásærra sníkjudýra í fiskum og hryggleysingjum í ferskvatni og sjó í Norður Evrópu, SA Asíu og í Karíbahafi
Starfslið: Árni Kristmundsson, Fjóla Rut Svavarsdóttir, Ásthildur Erlingsdóttir.
Samstarf: Mark A. Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West    Indies; Egill Karlsbakk, Institute of Marine Research, Bergen Noregi; Patrick Keeling, University of British Columbia, Vancouver Kanada; David Bass, CEFAS, Weymouth Bretlandi
Upphaf: 2012 Áætluð lok: Óviss.

Rannsóknirnar miða að því að skima ýmsar tegundir fiska og skelfiska fyrir smásæjum sníkjudýrum. Til þessa hafa fjölmargar tegundir verið rannsakaðar. Verkefnið lýtur að því að finna áður óþekktar tegundir, lýsa þeim og greina erfðafræðilega flokkunarfræði þeirra.
Fjölmargar tegundir fiska og hryggleysingja úr ferskvatni og sjó hafa verið rannsakaðar frá mismunandi svæðum í Norður Evrópu, SA Asíu og í Karíbahafinu.
Nokkrir tugir smásærra sníkjudýrategunda hafa greinst sem ekki hefur áður verið lýst. Verkefnið hefur þegar skilað sex ritrýndum greinum og nú er unnið að skrifum nokkurra til viðbótar.
Verkefnið hefur m.a. notið fjárhagslegs stuðnings frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Ross University School of Veterinary Medicine og University of Malaya, Malasíu (UMRG og RU styrkja).
--------
 
Ichthyophonus hoferi faraldur í íslenskri sumargotssíld – hugsanleg tengsl við veirusýkingar
Starfslið: Árni Kristmundsson, Fjóla Rut Svavarsdóttir, Heiða Sigurðardóttir, Sigríður Guðmundsdóttir.
Upphaf: 2016. Áætluð lok: 2018.
 
Ichthyophonus hoferi er sveppa-líkt einfruma sníkjudýr sem lengi vel flokkaðist til sveppa. Það er ósérhæft hvað varðar hýsla og hefur fundist í meira en 100 fisktegundum. Næmi fisktegunda fyrir sýkingum er þó mjög mismunandi, en síldartegundir, bæði í Atlantshafi (Clupea harangus) og Kyrrahafi (Clupea pallasii), eru taldar einna næmastar fyrir sýklinum. Rannsóknir á Íslandi árin 1991-2000 hafa sýnt að stórsæ einkenni sýkingar var að finna í u.þ.b. 0,1% síldar við Ísland á því tímabili. Ichthyophonus faraldrar varð vart í íslensku sumargotsíldinni í nóvember 2008. Í kjölfarið hóf Hafrannsóknastofnun kerfisbundnar rannsóknir á faraldrinum sem leiddu í ljós mjög háa tíðni sýnilegra sýkinga árin 2008-2011, eða allt að 70%. Árið 2014 var tíðni sýkinga enn há í eldri árgöngum en mun lægri í þeim yngri. Faraldurinn hefur valdið verulegum skaða á síldarstofninum; bæði hefur hrygningarstofninn minnkað umtalsvert, miðað við árin fyrir faraldur, auk þess sem segja má að hrun hafi orðið í nýliðun. Það leiðir því að sjálfu sér að löndun afla minnkaði mikið þessi ár. Þrátt fyrir umtalsverðar rannsóknir hefur gengið erfiðlega að greina orsakir þess að faraldrar sem þessir komi upp. Það á einnig við í tilfelli faraldursins við Ísland sem virðist hafa verið skyndilegur. Hvað veldur því að tíðni Ichthyophonus fer úr því að vera um 0,1% árin á 10. áratugnum yfir í 30-70% tæplega 10 árum síðar, er því ennþá ráðgáta.
Auk þess að vera sérlega næm fyrir Ichthyophonus sýkingum hafa erlendar rannsóknir sýnt að síld er einnig næmari fyrir ýmsum veirusýkingum, miðað við margar aðrar fisktegundir, ekki síst VHSV og VEN veirunum en báðar hafa þessar veirur valdið afföllum í villtum síldarstofnum erlendis. Í ljósi þess að nýlega greindist VHSV veiran í fyrsta sinn á Íslandi, þ.e. í villtum hrognkelsum úr Breiðafirði, var ákveðið að kanna hvort ástæða Ichthyophonus faraldrar í síld við Ísland gæti tengst veirusýkingum, en engar slíkar rannsóknir hafa áður verið gerðar m.t.t. síldar. Tilgátan er sú að vægar undirliggjandi Ichthyophonus sýkingar hafi verið til staðar í stofninum sem með tilkomu veirusýkinga að auki, hafi sýkingar náð að magnast upp og verða að faraldri. 
Verkefnið hófst haustið 2016 og því fyrirliggjandi niðurstöður takmarkaðar. Þær benda þó sterklega til þess að enn séu Ichthyophonus sýkingar algengar í fullorðinni síld. Auk þessa, greindust vefjaskemmdir sem ekki er hægt að heimfæra á Ichthyophonus en gefa fremur vísbendingar um veirusmit. 
Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi.
--------
 
PKD-nýrnasýki í íslensku ferskvatni - útbreiðsla og áhrif á villta stofna laxfiska
Starfslið: Árni Kristmundsson og Fjóla Rut Svavarsdóttir.
Samstarf: Þórólfur Antonsson og Friðþjófur Árnason, Veiðimálastofnun. 
Mark A. Freeman, Ross University, School of Veterinary Medicine, Basseterre, St. Kitts, West Indies.
Upphaf: 2008. Áætluð lok: Óviss.
 
PKD-nýrnasýki, eða “Proliferative Kidney Disease”, er alvarlegur sjúkdómur sem herjar á laxfiska í ferskvatni.  Sjúkdómurinn orsakast af smásæju sníkjudýri, Tetracapsuloides bryosalmonae, sem þarfnast tveggja hýsla til að ljúka lífsferli sínum; laxfiska og mosadýra. Sjúkdómurinn hefur lengi verið þekktur erlendis og valdið þar miklu tjóni, bæði í eldisfiski og villtum fiskum. PKD-nýrnasýki er beintengd vatnshita, sem þarf að ná a.m.k. 12°C í nokkurn tíma svo fiskar sýni einkenni sjúkdóms. Sníkjudýrið er þó fært um að ljúka lífsferli sínum við lægri vatnshita og viðhalda smiti í köldu árferði. 
Samfara hlýnandi veðurfari hefur sýkin verið vaxandi vandamál í villtum laxfiskastofnum í Evrópu og greinist nú á norðlægari slóðum en áður, nú síðast á Íslandi haustið 2008. Á sama tíma hefur bleikjustofnum hnignað víða á Íslandi, einkum í grunnum láglendisvötnum þar sem vatnhiti yfir sumarið getur orðið umtalsverður. 
Umfangsmiklar rannsóknir á PKD-nýrnasýki hafa verið í gangi undanfarin 9 ár sem miðað hafa að því að kanna útbreiðslu sýkinnar í ferskvatnskerfi Íslands og hvort sýkillinn sé áhrifavaldur í viðgangi laxfiskastofna í íslensku ferskvatni. Niðurstöður rannsóknanna sýna að sýkillinn sem veldur PKD-nýrnasýki er útbreiddur í íslensku ferskvatni. Líklegt er að PKD-sýki hafi verulega neikvæð áhrif á laxfiskastofna í ákveðnum ferskvatnskerfum á Íslandi. Unnið er að greinaskrifum en mikið magn upplýsinga liggja nú fyrir.
Framhaldsrannsóknir sem nú eru í gangi miða að því að: (1) Auka skilning á lífsferlum sníkjudýrsins í mismunandi tegundum laxfiska á Íslandi, en ekki hefur reynst unnt að staðfesta að bleikja sé virkur hýsill fyrir sníkjudýrið í Evrópu. (2) Að þróa næmt magnbundið PCR próf til að greina smitefnið í vatnssýnum og fá með því hugmynd um áhrif sýkinnar í viðkomandi vatni/á, án þess að veiða þurfi fiska. (3) Útbúa spálíkan (fram- og afturvirkt), með notkun umhverfisbreyta (einkum vatnshita) sem gæfi hugmynd um áhrif sýkinnar á fiska í viðkomandi vatnakerfi. Hluti verkefnisins var viðfangsefni Fjólu Rutar Svavarsdóttur í rannsóknarverkefni hennar til meistaraprófs sem hún lauk vorið
Verkefnið hefur notið styrkja frá Rannís, Orkuveitu Reykjavíkur, Umhverfisráði Reykjavíkurborgar, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Fiskræktarsjóði.
--------
 
Ranaveira í hrognkelsum
Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir, Árni Kristmundsson, Fjóla Rut Svavarsdóttir og Heiða Sigurðardóttir.
Samstarf: EURL (European Union Reference Laboratory for Fish Diseases) í Kaupmannahöfn. Stofnfiskur lagði til hrognkelsaseiði.
Upphaf: 2016. Lok: 2017.
 
Hrognkelsarækt hófst hérlendis með stuttum aðdraganda í ársbyrjun 2014. Hvatinn var mikil eftirspurn eftir hrognkelsaseiðum, einkum í Færeyjum, til að nota sem „hreinsifisk“ í laxeldi í sjó. Laxalús er mikill skaðvaldur á sjókvíalaxi í nálægum löndum og vaxandi eftirspurn er eftir hreinsifiski til að éta lúsina af laxinum. Vorið 2015 ræktaðist veira af ættkvíslinni Ranavirus (ætt: Iridoviridae) úr villtum klakfiski sem veiddur var skammt undan Grindavík og aftur 2016 í fiski veiddum undan Reykjanestá og á Breiðafirði (sjá nánar í ársskýrslu 2016). Veiran ræktaðist einnig úr nokkrum sýnum frá sömu slóðum 2017 og virðist því vera all algeng í íslenska hrognkelsastofninum. Sams konar veira hefur ræktast úr hrognkelsum í Færeyjum, Skotlandi og Írlandi. Stofnaður hefur verið samstarfshópur vísindamanna frá þessum löndum, auk Danmerkur, um þekkingaröflun og miðlun upplýsinga og samstarf um rannsóknir á þessari veirusýkingu.
Samanburður á raðgreiningarniðurstöðum á s.k. MCP geni sýndi afar lítinn mun milli stofna. Hópurinn komst í samband við einn helsta sérfræðing um Ranaveirur, Dr. Tom Waltzek, við Dýralæknadeild Flórídaháskóla, sem bauðst til að heilraðgreina veiruna. Sú vinna mun vera langt komin og niðurstöður verða birtar í grein ásamt þeim niðurstöðum sem þegar liggja fyrir í handriti. Hópurinn hefur enn fremur sótt um styrk í AquaExel-2020, sem er verkefni á vegum ESB, til að gera smittilraunir hjá EURL í Danmörku vorið 2018. Sótt er um að prófa nokkra stofna veirunnar, íslenskan stofn þar á meðal. Hrognkelsaseiði verða flutt frá Íslandi til Danmerkur. Eins og fram kom í ársskýrslunni 2016 var auðvelt að smita hrognkelsin með stungu í kviðarhol. Í umsókninni sem að ofan getur verður þessi aðferð notuð, en einnig aðferðir sem líkja eftir náttúrulegu smiti. Fáist styrkféð, munu niðurstöður liggja fyrir á hausti komanda.
--------
 
Rannsókn á ónæmissvari bleikju gegn tveimur bakteríum
Starfslið: Birkir Þór Bragason og Sigríður Guðmundsdóttir.
Samstarf: Jón Kjartan Jónsson. Íslandsbleikja.
Upphaf: 2017. Lok: 2019.
 
Eldi í bleikju hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum, frá 977 tonnum árið 2005 til 4.454 tonna árið 2017. Ein af undirstöðum farsæls fiskeldis er þekking á eðli sjúkdóma sem komið geta upp, og aðferðum til að greina og meta sjúkdómsvalda og sporna við sýkingum.
Sýkingar af völdum kýlaveikibróðurbakteríunnar Aeromonas salmonicida undirtegund achromogenes og nýrnaveikibakteríunnar Renibacterium salmoninarum hafa valdið búsifjum í bleikju- og laxeldi í gegnum árin. Bólusetning hefur verið notuð gegn kýlaveikibróðurbakteríunni í bleikju, en sýkingar koma upp endrum og sinnum þrátt fyrir bólusetningu. Gegn nýrnaveiki er ekki til bóluefni og þar er helsta vörnin almennar smitvarnir.
Í þessari rannsókn verður gerð kerfisbundna athugun á ónæmissvari bleikju gegn ofangreindum bakteríum yfir langt tímabil, eða 8 vikur frá sýkingu. Verkefnið er styrkt af AVS, og á árinu hófst undirbúningur að vinnu við verkefnið.
--------
 
Rannsóknir á ónæmiskerfi þorsks í bráðasvari
Starfslið: Birkir Þór Bragason, Sigríður Guðmundsdóttir
Samstarf: Caterina Faggio, prófessor við líffræðideild háskólans í Messina á Sikiley. Starfsfólk á Þekkingarsetrinu í Sandgerði. 
Upphaf: 2005. Lok: 2018.
 
Í verkefninu, sem Bergljót Magnadóttir setti á fót og stjórnaði til 2012, hefur verið unnið að rannsóknum á bráðasvari í þorski. Undanfarin ár hefur verið unnið að rannsóknum á bráðasvari gagnvart bakteríusýkingu. Heilbrigð þorskseiði voru sýkt í vöðva með kýlaveikibróðurbakteríu (Aeromonas salmonicida spp. achromogenes) og samanburðarhópur var sprautaður með saltdúa. Blóð- og vefjasýni voru tekin með reglulegu millibili yfir vikutíma og þannig útbúið stórt sýnasafn. Verkefnið var hluti af Laurea magistrale ritgerð (samsvarar M.Sc.) Antonella Fazio við háskólann í Messína á Sikiley. Antonella útskrifaðist haustið 2014. Verið er að leggja lokahönd á handrit um niðurstöður verkefnisins.
Verkefnið hefur verið styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og ERASMUS áætlun Evrópusambandsins HÍ.
--------
 
Uppruni Ichthyophonus sp. sýkingar í íslenskri sumargotssíld
Starfslið: Hrólfur Smári Pétursson, Birkir Þór Bragason og Árni Kristmundsson.
Samstarf: Guðmundur Óskarsson, Hafrannsóknastofnun.
Upphaf: 2016. Áætluð lok: 2019.
Verkefnið er útvíkkun á verkefni um síldarfaraldur, sem lýst er hér að framan, og er viðfangsefni M.Sc. náms Hrólfs Smára Péturssonar. Markmið þess er að rannsaka uppruna, smitleiðir og þroskaferil Ichthyophonus sýkinga sem valdið hafa faraldri í íslensku sumargotssíldinni. Ýmsar fæðugerðir síldar eru skimaðar fyrir sýklinum með kjarnsýrumögnun (PCR-prófi) og vefjafræðilegum aðferðum, bæði sýni sem safnað var/verður úr mögum síldar og sýni sem safnað var/verður í ljósátutroll. Auk þessa eru heilbrigðar smásíldar skimaðar með sömu aðferðum til að kanna mögulegar einkennalausar, undirliggjandi sýkingar í slíkum fiskum.
Til þess að kanna þroskaferil sýkilsins innan hýsla verða bæði sjúkar og einkennalausar síldar, auk ýmissa átutegunda, rannsakaðar með hefðbundnum vefjameinafræðilegum aðferðum og in situ hybridization (þáttapörun/litun erfðaefnis í vefjasneiðum).
Niðurstöður þessarar rannsóknar gætu orðið mikilvægt framlag í að bæta við þá litlu þekkingu sem til er um lífsferil, dreifingu og magn Ichthyophonus utan síldarinnar.
Auk þess að finnast í og sýkja síld, þá hefur Ichthyophonus sp. fundist í mörgum öðrum fisktegundum og þar á meðal í skarkola við Ísland. Sýkingarhlutfall í skarkola hefur sveiflast milli ára en ekki alveg í takt við hlutfallið í síld og því er spurning hvort um sé að ræða aðra tegund/stofn af Ichthyophonus í skarkola en í síld.
Verkefnið er styrkt af Síldarsjóði.
--------
 
Veiruskimun í kvíalaxi og villtum laxi til fiskræktar
Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir verkefnisstjóri, Heiða Sigurðardóttir meðumsækjandi og Harpa Mjöll Gunnarsdóttir starfsmaður verkefnisins.
Samstarf: Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma, MAST. Starfsmenn nokkurra seiðaeldistöðva sem og sjókvíaeldisstöðva. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, styrknr: R 15 017-15.
Nemi: Harpa Mjöll Gunnarsdóttir nemi í lífeindafræði lauk diplomaverkefni innan verkefnisins vorið 2016. Hún hóf vinnu að MS verkefni síðari hluta ársins og útskrifaðist vorið 2017. Auk Sigríðar og Heiðu var Birkir Þ. Bragason í MS-nefndinni.
Upphaf: 2015. Lok: 2018.
Markmið verkefnisins var að afla þekkingar á þremur veirum, PRV, PMCV og ISAV, sem allar geta valdið hjartasjúkdómum í laxi. Verkefnið skiptist í tvo meginþætti:1) Prófun aðferða til að undirbúa sýni úr safni Keldna og úr AVSsmáverkefni 2013-2014 fyrir raðgreiningu á ómeinvirku afbrigði ISAV veirunnar (ISAV-HPR0). 2) Skimun eftir PRV, PMCV og ISAV í völdum hópum laxa: eldisseiða, sjókvíafisks, klakfisks, seiða í fiskrækt og villtra seiða. Raðgreiningar á hluta efniviðar voru notaðar til að afla frekari þekkingar. Niðurstöður hafa verið kynntar í skýrslum og á fundum og ráðstefnum innan lands og utan.
Raðgreining HPR0 stofna: Blóðþorri (infectious salmon anaemia eða ISA) er tilkynningaskyldur veirusjúkómur sem herjar á Atlantshafslax (Salmon salar L.). Faraldrar af meinvirkum stofnum veirunnar (ISAV-HPRvir) hafa komið upp í löndum allt í kringum Ísland, en aldrei greinst hérlendis. Ómeinvirkt afbrigði ISAV veirunnar (ISAV-HPR0) greindist hérlendis í 0,63% af sýnum úr eldislaxi sem skimuð voru á árunum 2011-2015. Þessi efniviður var nýttur í verkefninu til að kanna gæði raðgreininga á sýnum sem voru undirbúin með mismunandi hætti. cDNA hreinsun RTPCR afurða og gelbúta úr rafdrætti nægði oftast til að skila nothæfum raðgreininganiðurstöðum, sem getur stytt ferlið um a.m.k. 3 daga sé miðað við aðferðir þar sem TOPO-klónun er hluti ferilsins. Raðgreiningar á breytilegu svæði genabútar nr. 6 sýndu að allir íslensku stofnarnir voru nákvæmlega eins. Samanburður við raðir úr HPR0 og HPRvir stofnum frá Noregi, Færeyjum, Skotlandi og Kanada sýndi mestan skyldleika við HPR0 stofna frá Færeyjum og Noregi.
Veiruskimun: skimað eftir PRV, PMCV og ISAV í ýmsum hópum: Vorið 2015 var sýnum safnað úr seiðahópum undan villtum klakfiski úr nokkrum ám á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Haustið 2016 var þessum hópum fylgt eftir með sýnatökum úr klaklaxi sem gekk í árnar aftur eftir eitt til tvö ár í sjó. Vorið 2015 og 2016 var sýnum safnað í seiðaeldisstöð. Hópurinn frá 2015 fór í eldiskvíar á Vestfjörðum en hópurinn 2016 í kvíar á Austfjörðum. Samkvæmt áætlun voru tekin sýni úr kvíafiski eftir 8 og 18 mánuði í sjó.
Haustið 2017 var sýnum safnað úr villtum laxaseiðum í fjórum ám á SV- og V-landi auk þess sem færi gafst á að safna sýnum úr urriða veiddum í Elliðavatni. Veiruskimanir hafa farið fram í öllum hópunum með RT-qPCR aðferðum. ISAV og PMCV hafa aldrei greinst en PRV fannst í öllum hópum nema einum. Mikill munur var milli hópa, bæði hvað varðar tíðni jákvæðra sýna og útkomu einstakra mælinga. PRV jákvæð sýni sem hafa Ct gildi undir 30 eru unnin áfram fyrir raðgreiningu með vísum fyrir sértækt markgen er nefnist S1. Lokaniðurstöður úr þessum hluta munu liggja fyrir vorið 2018.
--------
 
VHS-veira í hrognkelsum
Starfslið: Sigríður Guðmundsdóttir, Árni Kristmundsson og Heiða Sigurðardóttir.
Samstarf: EURL (European Union Reference Laboratory for Fish Diseases) í Kaupmannahöfn. Stofnfiskur lagði til hrognkelsaseiði. Verkefnið er styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis: U 16 009-16.
Upphaf: 2016. Lok: 2018.

Hrognkelsarækt hófst hérlendis með stuttum aðdraganda í ársbyrjun 2014. Hvatinn var mikil eftirspurn eftir hrognkelsaseiðum, einkum í Færeyjum, til að nota sem „hreinsifisk“ í laxeldi í sjó. Laxalús er mikill skaðvaldur á sjókvíalaxi í nálægum löndum og vaxandi eftirspurn er eftir hreinsifiski til að éta lúsina af laxinum. Sumarið 2015 einangraðist veira úr fiski veiddum á Breiðafirði sem reyndist vera VHSV (viral haemorrhagic septicaemia virus) sem veldur veirublæði. Raðgreining á s.k. G-geni sýndi að veiran tilheyrir flokki IV, en virðist vera af nýjum undirflokki. Þetta var í fyrsta sinn sem tilkynningaskyld veira greindist í fiski hérlendis og samkvæmt alþjóðlegum samningum var þetta tilkynnt til OIE 23. október 2015. Greining VHSV veiru í hrognkelsum vakti nokkurn ugg í eldisgeiranum og margar spurningar vöknuðu, einkum þó hvort lax væri móttækilegur fyrir þessum sýkli. Evrópska tilvísunarrannsóknastofan í fisksjúkdómum (European Union Reference Laboratory eða EURL) bauðst til að setja upp tilraun í húsakynnum sínum í Kaupmannahöfn og fór starfsmaður Tilraunastöðvarinnar að Keldum (Sigríður Guðmundsdóttir) utan til að taka þátt í tilrauninni.
Gerðar voru smittilraunir í laxa- og regnbogaseiðum, annars vegar með því að sprauta veirulausn í kviðarhol (i.p. smit) og hins vegar með því að baða seiðin í veirulausn í 5 klst., 3 undirflokkar af veirunni, VHSV-Ia, VHSV-IVa og VHSV-IVIce. Niðurstöður má sjá í ársskýrslu fyrir 2016. Frekari raðgreiningar á 545 basapara búti úr s.k. G-geni sýndu að íslenski stofninn fellur ekki í neinn undirflokk genagerðar IV. Skyldasti stofninn reyndist vera kanadískur. Líklegt er að íslenski stofninn muni falla í nýjan undirflokk. Sett var upp tilraun í Kaupmannahöfn þar sem ósmituð laxaseiði voru sett í ker með hrognkelsum sem höfðu fengið veiruna í kviðarhol. Ekki var sýnt fram á að laxaseiðin hefðu tekið smit í þessari samvistarsmitstilraun, en nauðsynlegt er að endurtaka tilraun af þessu tagi.
--------

Þróun sértæks bóluefnis gegn kýlaveikibróður í bleikju
Starfslið: Sigríður Hjartardóttir, Keldum; Heiðdís Smáradóttir, Íslandsbleikju ehf., verkefnisstjóri; Rannveig Björnsdóttir, Háskólanum á Akureyri, meðumsækjandi; Bryndís Björnsdóttir, MATÍS, meðumsækjandi; Marta Perelló Rodríguez, Hipra, meðumsækjandi.
Samstarf: Fiskeldisstöðvar á Íslandi sem rækta bleikju til manneldis.
Upphaf: 2017. Lok: 2019.

Markmið verkefnisins er að framleiða endurbætt sértækt einþátta bóluefni gegn kýlaveikibróður (Aeromonas salmonicida ssp. achromogenes), ASA, í bleikju. Íslandsbleikja er stærsti bleikjuframleiðandi í heiminum í dag og hefur lagt áherslu á að vera með eins vistvænt eldi og kostur er. Engin lyf önnur en fyrirbyggjandi bóluefni hafa verið notuð, meðal annars til þess að skapa jákvæða ímynd í kringum eldið.
Sá sjúkdómur sem valdið hefur hvað mestum afföllum í bleikjueldi hér á landi er kýlaveikibróðir. Til varnar sjúkdómnum er nú notast við bóluefnið Alpha-Ject-3000 sem þróað hefur verið gegn hinni eiginlegu kýlaveiki (Aeromonas salmonicida ssp. salmonicida) auk tveggja Listonella (Vibrio) anguillarum sermisgerða, en rannsóknir hafa sýnt að það bóluefni getur einnig krossvarið laxfiska gegn kýlaveikibróður, ASA. Þessi bólusetning hefur gefist vel en frá árinu 2011 hefur borið á því að bólusett bleikja sýni einkenni kýlaveikibróður þegar fiskurinn fer að nálgast sláturstærð.
Rannsókn sem gerð var árið 2011 sýndi að bleikja þróar með sér nokkuð lakari og styttri mótefnasvörun gagnvart bólusetningu með Alpha-Ject-3000 en bæði lax og regnbogasilungur og vörnin er lítil sem engin eftir að bleikjan nær 800 gr. þyngd.
Árið 2014 hófst samstarf Íslandsbleikju og spænska lyfjaframleiðandans Hipra sem byggir á því að framleiða sértækt ASA bóluefni fyrir bleikju. Framkvæmd var tilraunabólusetning árið 2015 með bóluefni sem unnið var úr íslenskum ASA stofni en árangur með þá hópa seiða sem bólusettir voru hefur ekki verið eins og góður og vonast var til.
Mikill fjölbreytileiki virðist vera í þeim kýlaveikibróður „ísólötum“ sem einangraðir hafa verið úr fiskum á Tilraunastöðinni á Keldum og til þess að kortleggja betur fjölbreytileikann verða tekin sýni úr fiskum frá öllum áframeldisstöðvum Íslandsbleikju auk fiska frá öðrum bleikjueldisstöðvum sem áhuga hafa á að taka þátt í verkefninu.
Árið 2017 bárust Keldum 37 fiskar í verkefnið frá fjórum mismunandi eldisstöðvum. Þeir voru krufðir og rannsakaðir m.t.t. kýlaveikibróður auk þess sem leitað var að öðrum algengum sjúkdómsvaldandi bakteríutegundum í fiskeldi á Íslandi þ.e.a.s. bakteríum sem valda sporðátu, vetrarsárum, rauðmunnaveiki auk Víbríó bakteríutegunda.
Fiskarnir sem valdir voru í sýnatökur sýndu allir einhver sjúkdóms- eða slappleika einkenni og bentu krufningseinkenni til sjúkdóms. Það kemur því á óvart hversu lítið ræktaðist af þekktum sjúkdómsvaldandi bakteríum og greindist kýlaveikibróðir eingöngu í fiskum frá einni eldisstöð.

 
-------------------------------------

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is