Háskóli Íslands

Rannsóknarátak gegn sumarexemi

Vilhjálmun Svansson, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Eliane MartiVorið 2000 skipaði þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, að höfðu samráði við Framleiðnisjóð landbúnaðarins, starfshóp til að skipuleggja rannsóknir á sumarexemi í hestum. Formaður starfshópsins var Ingileif Jónsdóttir prófessor í ónæmisfræði. Hópurinn lagði til að gert yrði stórt rannsóknarátak á sumarexemi í hrossum, sem fyrst og fremst yrði unnið af sérfræðingum á Keldum í samstarfi við rannsóknarhóp í Bern í Sviss svo og í samstarfi við aðra íslenska og erlenda sérfræðinga. Ákveðið var að aðalmarkmið rannsóknanna yrði að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi en til að ná því þyrfti fyrst að skilgreina ofnæmisvakana í smámýinu og ónæmisferlana í sjúkdómnum.

Rannsóknarátakinu var skipuð stjórn sem í sitja Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands formaður, Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma, Ólafur Andrésson prófessor í erfðafræði, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur á Keldum og Eliane Marti dýralæknir og ónæmisfræðingur við Dýrasjúkdómastofnun Háskólans í Bern í Sviss.

Í kjölfarið eða haustið 2000 hófust rannsóknir á sumarexemi á Keldum, undir stjórn Sigurbjargar og Vilhjálms Svanssonar dýralæknis og undir stjórn Eliane Marti í Bern. Rannsóknirnar voru í upphafi styrktar af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannís og Svissneska rannsóknarsjóðnum og síðan einnig af fleiri aðilum.

Þekking á ofnæminu við upphaf rannsóknarátaksins takmörkuð auk þess sem mikill skortur á sértækum líf- og prófefnum háði öllum rannsóknum á ónæmissvörun í hrossum á þeim tíma. Því varð að byrja á að framleiða prófefni eða prófa hvort efni sem gerð höfðu verið fyrir aðrar dýrategundir dygðu fyrir hross. Á þessum tíu árum hafa verið framleidd eða fundin mörg nauðsynleg prófefni bæði af okkur og öðrum. Miklar framfarir hafa einnig orðið í aðferðafræði í sameindafræðum, rannsóknum á ónæmiskerfi músa og manna sem og í meðhöndlun á ofnæmi og þróun á bóluefnum og bólusetningum í fólki. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is