
Markmið verkefnisins er að meta mótefna- og boðefnasvörun í hrossum sem bólusett hafa verið með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði gegn sumarexemi.
Tuttugu og sjö hestar hafa verið bólusettir þrisvar sinnum með fjögurra vikna millibili með níu aðalofnæmisvökum í ónæmisglæðablöndu og fluttir út á flugusvæði í kjölfarið til að kanna hvort bóluefnið virki.
Ofnæmisvakarnir níu verða hreinsaðir úr skordýrafrumum til notkunar í ónæmisprófum. Sex af bólusettu hestunum verða prófaðir fyrir mótefna og boðefnasvari á þremur af vökunum sem voru í bóluefninu. Samskonar sýni úr sex óbólusettum hestum verða prófuð til samanburðar.
Þættir verkefnis
1. Framleiðsla, hreinsun og prófun á endurröðuðum ofnæmisvakapróteinum úr skordýrafrumum
2. Söfnun á sýnum (sermi og hvítfrumum) úr bólusettum og óbólusettum hestum
3. Einangrun á hvítfrumum úr blóði
4. Prófun á geymsluþoli hreinsaðra endurraðaðra ofnæmisvaka
5. Prófun á fjölstofna mótefnum sem framleidd hafa verið gegn þremur ofnæmisvökum
6. Mæling á sértæku ónæmissvari bólusettra hesta.
a. Mótefnasvar
b. Boðefnasvar