Háskóli Íslands

Riða og riðuskimun

Riðuveiki í kindum hefur verið þekkt á Íslandi í meira en 140 ár og valdið miklum búsifjum í áranna rás.

Riða er ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á taugakerfið og engin meðferð né bólusetning er möguleg.  Smitefnið er prótein sem finnst á eðlilegu formi í öllum spendýrum, svokallað príonprótein, sem á umbreyttu formi verður smitandi og afar þolið.

Greining sjúkdómsins byggist á mælingu á riðusmitefninu í heilasýnum.  Árið 2005 var byrjað að nota Elísu-próf  til riðuskimunar í stað hefðbundinnar vefjalitunar.

Komið var upp rannsóknaraðstöðu á Tilraunastöðinni, þar sem eingöngu er unnið að rannsóknum á riðusjúkdómnum. Elísu-prófið (TeSeE, Bio-Rad) byggist á einangrun riðusmitefnisins úr heilavef, þ.e. mænukylfu og litla heila, og mælingu á magni þess með mótefnaprófi.   Til að staðfesta riðusmit ef sýni reynast jákvæð í þessu prófi, er notað próteinþrykk.

 

Með Elísu-prófinu er hægt að greina kúariðu og klassíska riðu í kindum en auk þess greinir það óhefðbundin riðutilfelli öðru nafni Nor98 riðu. Þau hafa greinst víða í Evrópu á síðustu árum, en hér á landi hafa Nor98 riðutilfelli greinst á sjö bæjum, það fyrsta frá árinu 2004. Þessi riðutilfelli greinast oft í eldra fé og oftast er bara um eina jákvæða kind að ræða í hverri hjörð.    

Helstu einkenni þessara tilfella er önnur dreifing vefjaskemmda og uppsöfnunar smitefnis í heila miðað við klassíska riðu. Auk þess bera þessi tilfelli aðrar arfgerðir príongensins en þær sem hafa verið tengdar áhættu fyrir riðu. Nor98 riða er greind út frá öðru bandamynstri á próteinþrykki en klassísk riða sýnir.

Yfirlit yfir þjónusturannsóknir vegna riðu úr ársskýrslu Keldna fyrir 2019 má sjá hér

Kynningarmyndband um riðuskimun á Keldum.  

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is