Síðustu vikur hefur Matvælastofnun skimað fyrir Meticillín ónæmum Staphylococcus aureus (MÓSA) við slátrun svína, og eru þær skimanir framkvæmdar á Keldum. Stroksýni eru tekin úr nefholi svína við slátrun og eru sýni tekin frá öllum svínabúum sem slátra eldisgrísum, eða samtals 15 búum. Nú þegar hefur verið skimað í svínum frá 13 búum og hafa sýni frá þremur þeirra reynst jákvæð í skimuninni. Fyrir liggur að fara þarf í frekari sýnatökur inni á búunum til að staðfesta hvort MÓSA finnist þar og kanna hvort frekari dreifing hafi átt sér stað. Munu þær skimanir einnig fara fram á Keldum.
Þegar jákvæð sýni koma upp er staðfest með bíókemískum prófum að um Staphylococcus aureus sé að ræða. Í framhaldinu eru gerð næmispróf á stofnunum, til að skoða hvort næmi stofnanna samræmist þeirri svipgerð sem MÓSA stofnar sýna. Að lokum eru stofnar staðfestir sem MÓSA með PCR, þar sem er skoðað hvort og þá hvaða MÓSA sértæku ónæmisgen stofninn ber og af hvaða stofngerð hann er.
Þeir stofnar sem ræktuðust úr jákvæðu sýnunum báru allir mecA ónæmisgen og voru af stofngerð CC398, en sú gerð er svokallaður búfjártengdur MÓSA. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi gerð sýklalyfjaónæmra baktería greinist í búfé á Íslandi, en þær eru mjög útbreiddar í búfé í Evrópu og víðar. MÓSA er ekki matarborið smit og því ekki talin hætta á neyslu á svínaafurðum. Ekki er heldur um eiginlegan dýrasjúkdóm að ræða því smitið er almennt ekki talið valda veikindum í dýrum heldur verða þau einkennalausir berar. Fólk sem starfar í mikilli nálægð við dýrin er í aukinni áhættu að verða fyrir smiti. Líkt og hjá dýrum veldur smit í fólki sjaldnast veikindum, nema ef það berst í fólk með skert ónæmiskerfi eða veldur sárasýkingum. Þá getur verið erfitt að meðhöndla slíkar sýkingar með hefðbundnum sýklalyfjum. Því er afar mikilvægt að MÓSA smit berist ekki inn á heilbrigðisstofnanir.
Frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu Matvælastofnunar.