Launa-og jafnlaunastefna Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum (samþykkt á stjórnarfundi Tilraunastöðvarinnar 3. desember 2019)
Launastefna
Markmið Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er að búa starfsfólki sínu góð launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu svo að Tilraunastöðin geti ráðið til sín og haldið hæfu starfsfólki í samkeppni við innlendan og erlendan vinnumarkað.
Laun skulu ákvörðuð á grundvelli hlutlægra og gagnsærra mælikvarða. Launakerfi skal tryggja samræmi í ákvörðun launa og réttláta launaröðun starfsfólks.
Stjórn Tilraunastöðvarinnar og forstöðumaður bera, sem æðstu stjórnendur, ábyrgð á launastefnunni. Framkvæmdastjóri, í umboði framangreindra aðila, ber ábyrgð á því að launastefnunni sé framfylgt og að starfsfólk og stjórnendur Tilraunastöðvarinnar þekki til stefnunnar.
Jafnlaunastefna
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur það að markmiði að tryggja öllu starfsfólki sínu jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Skal þess sérstaklega gætt að starfsfólki sé ekki mismunað í launum vegna kynferðis eða annarra ómálefnalegra ástæðna.
Til þess að ná því markmiði mun Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum gera eftirfarandi ráðstafanir:
- Fylgja þeim lögum og reglum sem í gildi eru hverju sinni og snúa að þeirri meginreglu að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.
- Innleiða vottað jafnlaunakerfi í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008, sbr. lög nr. 56/2017.
- Skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfinu og tryggja stöðugar umbætur.
- Láta gera launagreiningu einu sinni á ári til þess að kanna hvort kynbundinn launamunur sé til staðar og kynna niðurstöður fyrir starfsfólki.
- Setja verklagsreglur um viðbrögð við óútskýrðum launamun.
- Láta fara fram árlega rýni æðstu stjórnenda á hlítingu við lög og reglur um jafnlaunakerfi.
- Sjá til þess að starfsfólki sé hverju sinni kunnugt um launastefnu og jafnlaunastefnu Tilraunastöðvarinnar og gæta þess að stefnurnar séu aðgengilegar bæði starfsfólki og almenningi.
Jafnlaunastefna þessi er órjúfanlegur hluti af launastefnu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum