Háskóli Íslands

Inflúensa í svínum

 

Inngangur
Svínainflúensu (SI) valda sýkingar með inflúensuveirum af stofni A í svínum. Nokkrar sermisgerðir af svínainflúensuveirum A (SIAV) er að finna í svínum. Algengustu gerðirnar nú um stundir eru H1N1, H1N2 og H3N2. Aðrar gerðir hafa einstöku sinnum fundist s.s. H3N1 sem nýlega greindist í Bandaríkjunum (BNA) og Kóreu og einnig ræktaðist H2N3 nýlega úr svínum í BNA.

Innflúensuveirur
Inflúensuveirur af gerð A tilheyra Orthomyxoviridae veirufjölskyldunni. Þetta eru hjúpklæddar veirur 100-300 nm að stærð. Erfðaefnið eru 8 einstrengja neikvæðir RNA bútar sem skrá fyrir 10-11 próteinum. Utan hýsilsins eru inflúensuveirur viðkvæmar fyrir hita og hitabreytingum og afvirkjast af flestum gerðum sótthreinsiefna. Inflúensuveirum er skipt niður í undirgerðir eftir sermisgerð tveggja próteina í hjúpnum þ.e. hemagglutinin (H) og neuraminidase (N). Þessi tvö prótein sjá um bindingu og losun veirunnar frá frumunni og ónæmissvör gegn þeim eru mikilvæg fyrir feril sýkingarinnar í hýslinum. Andfuglar og mávar eru taldir höfuðhýslar inflúensuveira og fuglar eru taldir uppspretta inflúensusýkinga í öðrum dýrum. Í fuglum hafa fundist allar þær 16 gerðir af hemaglutinin (H1 - H16) og 9 gerðir af neuraminidase (N1 - N9) sem nú eru þekktar. Fræðilega eru því möguleikar á 144 samsetningum af H og N í inflúensuveirum (H1N1, H1N2, H1N3 o.s.frv.). Breytingar í erfðaefni inflúensuveira eiga sér stað með tvennum hætti þ.e. punktstökkbreytingar í kirnisröðum RNA og hinsvegar uppstokkun á RNA bútum milli tveggja eða fleiri inflúensugerða. Svínainflúensuveirur geta skipst á RNA bútum við inflúensuveirur A úr fuglum, mönnum og líklega öðrum dýrum. Löngum hefur verið talað um svín sem uppsprettu inflúensufaraldra í mönnum og að inflúensuveirur úr fuglum þyrftu fyrst að aðlagast svínum áður en þær geti smitað menn. Líkt og aðrar einstrengja RNA veirur er stökkbreytitíðnin í RNA há og er talað um mótefnavakarek (antigen drift) þegar kirnisbreytingar í RNA valda breytingum í próteinum veirunnar. Mótefnavakarek er minna í svínainflúensuveirustofnum en mannastofnum. Þegar inflúensuveirur skiptast á H eða N erfðaefnisbútum er talað um mótefnavakaskipti (antigen shift), slíkar breytingar í H og N tengjast oft alheimsfaröldrum í mönnum.

Svínainflúensuveirur
Inflúensuveirustofnar í svínum eru frekar erfðafræðilega stöðugir og mótefnarek í svínum er töluvert minna en hjá mannaflensuveirum. Uppstokkun á erfðaefnisbútum milli veirugerða í svínum þekkist og eins eru sumir svínastofnar með erfðaefnisbúta úr manna og/eða fugla inflúensustofnum.
Svínainflúensa er bráður öndunarfærasjúkdómur í svínum. Sýkingatíðni (morbidity) í hjörðum er há eða allt að 100% en dauðatíðnin (mortality) yfirleitt lág eða 1-4% komi fylgisýkingar ekki til. Sumar SIAV gerðir í svínum valda litlum eða engum klínískum einkennum. Í kjölfar svínainflúensu geta fylgt sýkingar með bakteríum eða öðrum veirutegundum sem valda því að sjúkdómurinn verður alvarlegri. Einkennin koma fram eftir 1-3 daga frá smiti og koma skyndilega fram í stórum hluta hjarðarinnar. Svínin hafa hita >40°C, éta og hreyfa sig lítið. kvef og hósti er algengur. Eftir 3-6 daga veikindi ná svínin sér fljótlega og oftast er átlyst í hjörðinni orðin eðlileg viku eftir að fyrstu einkenni sáust.
Sýkingar með inflúensuveirum eru algengar í svínum víða um heim. Ísland er eitt fárra landa þar sem svín eru ekki smituð af inflúensuveirum. Í norðuramerískum og evrópskum svínum er inflúensa landlæg og inflúensumótefni greinast í hárri tíðni. Þó að svínainflúensuveirurnar í þessum heimshlutum séu af sömu undirgerðum er hægt að greina á milli amerískra og evrópska afbrigða með erfðafræðilegum aðferðum.
Fyrir utan svín er SI smit þekkt í mönnum og kalkúnum. Sýkingar í mönnum með SI veirum þekkjast en virðast fátíðar. Einkenni slíks smits eru svipuð og þegar menn smitast með mannainflúensustofnum. Svínainflúensuveirur dreifast yfirleitt ekki milli manna. Flest þekkt smittilvik hafa verið menn í beinni snertingu við svín og þeir í einstaka tilfellum náð að smita fjölskyldumeðlimi. Þó hafa komið upp tilvik þar sem svínainflúensuveirur hafa náð meiri dreifingu í mönnum. Eitt slíkt dæmi er þekkt frá herstöð í BNA árið 1976, er um 500 manns smituðust af H1N1 svínainflúensuveiru.

H1N1 afbrigði svínainflúensuveirunnar
Nýjasta dæmi um smit úr svínum í menn er afbrigðið af H1N1 svínainflúensuveiru sem kom upp í Mexikó í byrjun árs 2009 en sú veira fer nú um alla heimsbyggðina. Veira þessi hefur enn ekki stökkbreyst svo mikið að hún hafi tapað eiginleikanum að smita svín. Nokkur tilfelli eru staðfest þar sem veiran hefur borist í svín úr mönnum en auk þess hefur afbrigðið verið staðfest í einangruðum tilfellum í hænum, kalkúnum og gæludýrum (hundum, köttum og frettu). Inflúensu A/H1N1 veirur voru fyrst einangraðar úr svínum 1930 en líklegt er talið að H1N1 veiran hafi borist í svín 1918 á sama tíma og H1N1 veiran sem olli spænskuveikinni í mönnum. Rannsóknir á erfðaefnisbútum nýja afbrigðisins af H1N1 svínaflensuveirunni sem nú sýkir menn benda til að hún sé blanda af norðuramerískum og evrópskum SI veirum. Allir erfðaefnisbútar veirunnar eru þekktir frá öðrum SI veirugerðum og hafa verið til staðar í svínum í minnst 10 ár. Nokkrir bútanna eru úr upprunalegu H1N1 veirunni frá 1918 en aðrir eru komnir seinna úr fugla og mannaveirum.
Þar sem H1N1 afbrigðið hefur borist í svín virðast einkennin vera svipuð og sjást í öðrum SI sýkingum í svínum. Einungis ein grein hefur birst hingað til um tilraunasmit í svínum. Í tilrauninni voru fimm 10 vikna grísir smitaðir með veirunni í nös. Þessir grísir gengu saman með þremur ósmituðum grísum og kjúklingum. Smituðu grísirnir sýndu einkenni á þriðja degi frá smiti og hinir 2-3 dögum seinna. Einkenni smitsins voru voru kvef, hósti, hiti og skita, einkennin voru mild og stóðu yfir í 4-5 daga. Hægt var að greina veirusmit í svínunum allt að 11 dögum eftir smit. Kjúklingarnir sýndu engin merki um sýkingu.

H1N1 svínainflúensuveiran í mönnum virðist smitast auðveldlega í svín en smitdreifing í aðrar dýrategundir er fátíð. Svínainflúensa kom upp á tveim svínabúum hérlendis síðla árs 2009 þegar faraldur af völdum veirunnar var hér í hámarki í mönnum . En fyrir þann tíma hafði inflúensa aldrei greinst í svínum á Íslandi.

Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum (08.01.2010) 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is