Háskóli Íslands

Veikur hringanóri í slippnum í Njarðvík var smitaður af lungnaormi

Á dögunum kom lögreglan á Suðurnesjum í Húsdýragarðinn í Reykjavík með hringanóra, Phoca hispida, sem fangaður hafði verið í Slippnum í Njarðvík. Um var að ræða 10 mánaða gamlan kóp sem líklega hefur fæðst á útmánuðum síðast árs á lagnaðarísnum norður af landinu. Kópurinn var mjög rýr, vó einungis um 7.5 kíló, en lengdin var 73 sm samkvæmt upplýsingum frá Þorkeli Heiðarssyni líffræðingi sem ásamt starfsfólki Húsdýragarðsins tók að sér að hjúkra kópnum með það markmið að hægt verði að sleppa honum sem fyrst út í náttúruna (sjá https://mu.is/is/hringanori-i-me-fer/). 
 
Í samráði við Karl Skírnisson, dýrafræðing á Keldum, var rannsakað saursýni úr kópnum. Í því var leitað að þolhjúpum einfrumunga, ormaeggjum og lirfum sníkjudýra sem vitað er að geta lifað í iðrum eða í lungum sela. Sú athugun leiddi í ljós að kópurinn var smitaður af lungnaorminum Otostrongylus circumlitum, þráðormi sem þekktur er af því að geta farið illa með unga hringanóra þegar margir ormar eru til staðar í lungunum. Ormarnir lifa inni í barkapípunum og valda þar ertingu og örva bólgu- og slímmyndun og geta hindrað eðlilegt loftflæði. Skertir köfunarmöguleikar geta svo leitt til verri  möguleika á fæðuöflun þannig að dýrið sveltur og dregst upp.
 
Þessi lungnaormur hefur aldrei áður verið staðfestur í sel hér við land en hann getur lifað í ýmsum öðrum tegundum sela. Selirnir smitast við að éta fisk sem hýsir þriðja stigs lirfur (L3) þráðormsins. 
 
Á myndinni hér að neðan er sýnd fyrsta stigs lirfa (L1) Otostrongylus circumlitum en hún finnst í saur smitaðra sela. Lirfan barst úr lungunum upp í kok hringanórans sem svo kyngdi lirfunni niður í meltingarveg. Þaðan berast lirfur svo út úr dýrinu með saurnum. 
 
Ljósmynd: Karl Skírnisson.   
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is