Háskóli Íslands

Hif umritunarþáttur og Nóbelsverðlaunin í líf- og læknisfræði árið 2019.

Fræðslufundur á fimmtudaginn, 24. október 2019 kl. 12:20, á bókasafni Tilraunastöðvarinnar.

Fyrirlesari: Sigurður Ingvarsson, prófessor og forstöðumaður á Keldum.

Heiti erindis: Hif umritunarþáttur og Nóbelsverðlaunin í líf- og læknisfræði árið 2019.

Dýr þurfa súrefni til að breyta fæðu í nýtanlega orku. Lengi hefur verið vitað um mikilvægi súrefnis fyrir lífríkið, en vitneskja um hvernig frumur líkamans nema og bregðast við breytilegu súrefnismagni er tiltölulega nýleg. Gregg L. Semenza, Sir Peter J. Ratcliffe og William G. Kaelin Jr. hljóta Nóbelsverðlaunin í líf- og læknisfræði árið 2019 fyrir uppgötvanir á lykilferlum innan fruma vegna súrefnisviðbragðs.  Helsta próteinið sem tekur þátt í því ferli er lykilumritunarþátturinn Hif (Hypoxia inducible factor). Stöðug tjáning er á Hif í frumum og helsta stýring á magni Hif er með ubiquitin-proteasome niðurbrotsferli. Því ferli er stýrt með súrefnismagni. Hýdroxílhópur er hengdur á tvær prólín amínósýrur í Hif sem merkir Hif til niðurbrots eftir tengingu við Vhl próteinið. Þannig virkar hýdroxílhópurinn sem sameindarofi og fær Vhl til að tengjast Hif. Ensímið prolyl hydroxylase hvatar tengingu hydroxýlhópsins við Hif og efnahvarfið er háð súrefni. Allmörg markgen Hif eru þekkt og taka próteinafurðir þeirra þátt í ýmsum ferlum líkamans, s.s. efnaskiptum, æðamyndun og myndun rauðra blóðkorna. Í erindinu verður farið yfir helsu tímamótaskref í rannsóknum verðlaunahafanna. Einnig verður fjallað almennt um þetta innafrumuboðkerfi og mikilvægi þessarar nýju þekkingar varðandi skilning á lífeðlisfræði líkamans og sjúkdómum og meðferð við þeim. Í dag er þetta best þekkta sameindaferlið sem tekur þátt í súrefnisjafnvægi.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is