Háskóli Íslands

Einar Jörundsson er látinn

Einar Jörundsson dýralæknir og meinafræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum lést langt um aldur fram eftir erfið veikindi þann 27. október 2017.
Einar á að baki glæsilegan náms- og rannsóknarferil. Hann nýtti sér vel menntun sína og starfsreynslu við lausn verkefna á sviði meinafræði. Rannsóknir Einars í doktorsnáminu beindust að snertiofnæmi í lömbum þar sem hann skilgreindi ýmsa þætti í ónæmis- og meinafræði viðkomandi sjúkdóma. Auk doktorsritgerðar hefur Einar birt vísindagreinar í alþjóðlegum vísindatímaritum og útdrætti. Hann hefur kynnt rannsóknir sínar á innlendum og erlendum vettvangi. Einar réð yfir fjölbreytilegri aðferðafræði, einkum í vefjameinafræði, frumumeinafræði, ónæmisfræði og meinefnafræði. Hann var skapandi í starfi sínu og gæði á vinnu hans voru ótvíræð og niðurstöður rannsókna hans og sjúkdómagreininga áreiðanlegar.
Vegna sérþekkingar og reynslu voru Einari falin ýmis ráðgjafar-, nefndar- og trúnaðarstörf á vegum Tilraunastöðvarinnar. Einar var afkastamikill og störf hans og frumkvæði eru mikils metin á Tilraunastöðinni og jafnframt í íslenska- og alþjóðlega fræðasamfélaginu. Hann vann að því að efla Tilraunastöðina og honum var ávallt annt um velferð hennar. 
 
Starfsmenn Keldna þakka Einari fyrir samfylgdina og framlag hans í þágu Tilraunastöðvarinnar og færa fjölskyldu hans samúðarkveðjur.
 
Upplýsingar um ævi og störf Einars má finna á heimasíðu Dýralæknafélags Íslands og á heimasíðu Lífvísindaseturs Háskóla Íslands
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is