Háskóli Íslands

Laust starf til umsóknar - Sérfræðingur í sameindalíffræði með áherslu á veirufræði

Laust er til umsóknar starf sérfræðings í sameindalíffræði með áherslu á veirufræði á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.  (English)
 
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er háskólastofnun sem tengist læknadeild en hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Starfsemin er fjölþætt og aðferðum margra fræðigreina er beitt í rannsóknum og þjónustu.  Upplýsingar um hlutverk Keldna er að finna á www.keldur.is. Hlutverkið er tilgreint með lögum nr. 67 frá 1990 og lögum nr. 50 frá 1986.
Í starfinu felast skyldur við grunn- og þjónustuverkefni sem varða greiningar á veirum og viðbrögðum hýsils og hýsilfruma í smitferlinu. Dýraveirur hafa verið rannsakaðar á Keldum frá upphafi stofnunarinnar og gerðar voru tilraunir og settar voru fram kenningar um eðli veira sem hafa staðist tímans tönn. Rannsóknirnar hafa lýst óvenjulegu líffræðilegu fyrirbæri sem á samsvörun í mönnum. Mikilvægt er að umsækjandinn fylgi eftir þeim veirurannsóknum á Keldum sem hafa verið burðarás veirurannsókna á stofnunni. Í starfinu felast einnig skyldur við ráðgjöf innan fræðasviða Tilraunastöðvarinnar, alþjóðleg samvinna, umsóknir í samkeppnissjóði, umsjón með rannsóknaverkefnum og leiðbeining nemanda í grunn- og framhaldsnámi.
 
Forsenda fyrir ráðningu í starfið er álit dómnefndar á grundvelli laga og reglna um Háskóla Íslands, auk þess álit valnefndar HÍ og Tilraunastöðvarinnar sem mun gera tillögu um það hvaða umsækjandi verður fyrir valinu á grundvelli heildarmats á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar ráðningu.
Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009.
 
Gerðar eru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:
  • Doktorspróf á sviði sameindalíffræði veira.
  • Góð þekking á helstu aðferðum sameindalíffræðinnar sem notaðar eru við greiningar á veirum og hýsilfrumum þeirra.
  • Reynsla af verkefnastjórnun og umsóknum í samkeppnissjóði.
  • Víðsýni, jákvæðni, góð samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum
Sérfræðingur sem ráðinn verður, mun vinna að uppbyggingu og þróun grunn- og þjónustuverkefna við Tilraunastöðinni með áherslu á sameindalíffræði veira auk vísindastarfa í samræmi við ofangreindar skyldur sérfræðings.
 
Ráðið verður í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum, sbr. a 3. mgr, 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.
 
Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið  bmz@hi.is merkt HI17050127. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6, 101 Reykjavík.
 
Ráðið verður í starfið samkvæmt nánara samkomulagi þegar störfum nefnda, sem um málið fjalla, er lokið. Gert er ráð fyrir viðtölum við umsækjendur, sem jafnframt munu liggja til grundvallar við endanlegt val í starfið. Öllum umsækjendum verður greint frá niðurstöðum dómnefndar og valnefndar og um ráðstöfun starfsins þegar sú ákvörðun liggur fyrir.
 
Tilraunastöðin vinnur eftir stefnu Háskóla Íslands um að jafna hlut karla og kvenna í störfum á sínum vegum sjá: http://www.jafnretti.hi.is/ .
Umsóknarfrestur um framangreint starf er til 8. ágúst 2017.
 
Nánari upplýsingar um starfið veitir Sigurður Ingvarsson forstöðumaður Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði að Keldum í síma 5855123 eða á netfangi: siguring@hi.is.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is