Háskóli Íslands

Skýrsla starfshóps um varnir gegn sýklalyfjaónæmi

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði, til að setja fram tillögur um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi, hefur skilað ráðherra skýrslu með tillögum sínum. Niðurstöður nefndarinnar verða kynntar á ráðstefnu um sýklalyfjaónæmi sem haldin er í dag.

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Dauðsföllum af völdum fjölónæmra baktería fer fjölgandi. Áætlað er að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi nú þegar um 700.000 dauðsföllum í heiminum á hverju ári og að þeim fjölgi í allt að 10 milljónir á ári árið 2050, verði ekkert að gert.

Í skýrslu starfshópsins er gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum sem stuðla að útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og tilgreindar aðgerðir í tíu liðum sem hópurinn telur nauðsynlegar til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu þess.

Hér á landi hefur sýklalyfjaónæmi verið mun minna vandamál en í nálægum löndum og telur starfshópurinn því mikilvægt að móta sem fyrst opinbera stefu um aðgerðir til að stemma stigu við frekari útbreiðslu. Brýnt sé að ráðast í þær aðgerðir sem hópurinn leggur til eins fljótt og unnt er til að koma í veg fyrir þær heilsufarslegu og fjárhagslegu afleiðingar sem skapast geta af sýklalyfjaónæmum bakteríum.

Í starfshópnum áttu sæti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem var formaður hópsins, Sigurbjörg Daðadóttir yfirdýralæknir og Vala Friðriksdóttir deildarstjóri Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Í dag kl. 13:30 verður haldin í Reykjavík ráðstefna um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi og þar verða m.a. kynntar niðurstöður starfshópsins. Matvælastofnun og Matvælaöryggisstofnun Evrópu standa fyrir ráðstefnunni.

Sjá nánar:

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is