Háskóli Íslands

Um Hvalnesbirnuna

Hvítabirnan sem felld var við bæinn Hvalnes á Skaga 16. júlí, 2016 var krufin samdægurs á Náttúrufræðistofnun Íslands af dýrafræðingi (Karli Skírnissyni) og dýrameinafræðingi (Ólöfu Sigurðardóttur) sem bæði starfa á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, að Keldum. Nutu þau dyggrar aðstoðar hamskera Náttúrufræðistofnunar (Þorvalds Þórs Björnssonar). Feldur dýrsins er geymdur í frysti á stofnuninni en beinin ásamt hauskúpu hafa þegar verið hreinsuð og útbúin þar til varðveislu.
 
Krufning leiddi í ljós að birnan var í mjög góðum holdum en um 30% líkamsþyngdarinnar var fita. Sker birnan sig þannig frá öðrum hvítabjörnum sem synt hafa hingað til lands frá árinu 2008 en þau hafa öll verið mjög rýr og fitubirgðir litlar eða jafnvel gjörsamlega upp urnar. Ein vígtönnin var brotin. Þrjú sár sáust á framanverðum líkama dýrsins og gróf í einu þeirra. Birnan var einnig með sár í munnviki eftir einhvern nýlegan áverka sem gæti hafa orðið til við að rekast til dæmis á vír í girðingu. Líffæri voru að mestu eðlileg.
 
Aldursgreining og talning á vetrarlínum sem myndast í sementlagið, sem hleðst utan á rætur tanna, gefur til kynna að birnan hafi verið á 12. ári. Mjólk var í spenum þannig að húnn eða húnar voru á spena þegar sundferðin til Íslands hófst. Húnar geta ekki sogið mæður sínar niðri í sjónum. Talið er líklegast að birnan hafi síðast verið sogin uppi á ísjaka. Um það leiti sem ferðalagið til Íslands gæti hafa hafist, undir miðjan júlí, voru jakar að bráðna á hafsvæðinu sunnan við Skoresbysund, hafís með ströndinn þar suðuraf var á þessum tíma að mestu horfinn.
 
Greint er á milli þrennskonar lína í tannrótum hvítabirna (sjá mynd): áberandi vetrarlína (H) sem myndast þegar birnur skríða í híði og ala þar afkvæmi (þriðja hvern vetur gangi allt eftir áætlun); hefðbundinna vetrarlína (svartir tölustafir) sem eru ekki eins greinilegar og híðislínurnar (H); og breiðra, ljósra sumarlína (S) sem myndast þegar birnurnar eru lausar við húnana (á þriðja vetri), tilhugalíf og mökun á sér stað og birnurnar éta selkópa í það miklum mæli að þær ná að safna verulegum fituforða. Forðinn þarf að duga móður og afkvæmum meðan á híðisdvölinni stendur (oft frá því í nóvember fram í mars, yfirleitt er miðað við að húnarnir fæðist 1. janúar). Rýning í árhringjamynstur Hvalnesbirnunnar gefur til kynna að birnan hafi fjórum sinnum skriðið í híði en einungis í eitt skiptið (6 vetra) náð að vera með húnunum þar til þeir komust á þriðja ár og urðu sjálfstæðir. Í hin skiptin hafi húnarnir farist, fyrst þegar hún var 5 vetra, næst 9 vetra en þá virðist eitthvað hafa komið upp á með uppeldið strax eftir fyrsta veturinn. Síðasta breiða sumarlínan er árið 2015. Þá um haustið, 11 vetra, skreið Hvalnesbirnan í híði þannig að afkæmin sem hún þá eignaðist eru þau hin sömu og sugu hana áður en sundið til Íslands hófst, þá um 7 mánaða. Þeirra varð þó ekki vart hér á landi og er líklegt að þau hafi farist á leiðinni til landsins. Syndi fullvaxta birnir beinustu leið milli landanna þarf sundið þó ekki að taka nema nokkra daga því hvítabirnir svamla um 5 kílómetra á klukkustund í sjó. Vilji menn fræðast nánar um aldursgreiningar og áætlaða lífsögu hvítabjarna má benda á nýlega grein um efnið í Náttúrufræðingnum.
 
Rannsóknir á fæðuleifum sýndu að Hvalnesbirnan var búin að vera það lengi uppi á landi að þurrlendisgróður sem hún hafði nartað í ofan fjörumarka var þegar til staðar aftast í ristli. Hversu langan tíma það tekur fæðuleifar að fara í gegn um meltingarveginn er óljóst, örugglega þó margar klukkustundir. Birnan hafði ekki lagt sér fæðu úr dýraríkinu til munns.
 
Sníkjudýrarannsókn leiddi í ljós þrjár tegundir sníkjudýra. Ein tegundanna var tríkínan Trichinella nativa en allir vefir dýrsins innihalda þessar lirfur. Þær lifa það af að frjósa mánuðum og jafnvel árum saman og geta orðið uppspretta sýkinga nái til dæmis nagdýr að narta í smitaða vefi. Ísland er eitt fárra landa á jarðarkringlunni sem laust er við þennan vágest.
 
Nánari umfjöllun um tríkínur er einnig að finna í grein í Náttúrufræðingnum.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is