Sumarexem er ofnæmi gegn próteinum, sem berast í hross við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides, sem við köllum smámý.
Engar tegundir af þessari fluguættkvísl lifa á Íslandi. Hestar hér á landi fá því ekki ofnæmið. Exemið lýsir sér í útbrotum og kláða sérstaklega í fax- og taglrótum og ef ekkert er að gert, sáramyndun og sýkingu í sárunum. Eina leiðin til þess að halda exeminu niðri er að hýsa hrossin í ljósaskiptunum, þegar mest er af flugu, eða hylja þau með ábreiðum. Mögulegt er að meðhöndla með sterum en engin varanleg lækning eða vörn er fyrir hendi. Sumarexem er því verulegt dýravelferðarmál.