Háskóli Íslands

Bólusetning með endurröðuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði

Eitlar eru verkstöðvar ónæmiskerfisins og í mönnum hefur verið sýnt fram á að með því að sprauta í eitla í stað þess að sprauta undir húð, má fá mun öflugra svar og það á styttri tíma með minna magni af ofnæmisvökum. Ónæmisglæðar eru efni sem blandað er í ofnæmisvakana til þess að efla og stýra ónæmissvarinu. Þeir eru notaðir bæði í bólusetningum og afnæmingum. Við höfum gert bólusetningatilraunir á hestum með endurröðuðum ofnæmisvökum, prófað mismunandi sprautunarstaði og ónæmisglæða. það tókst að Th1 miða ónæmissvar bæði með því að sprauta hreinsuðum ofnæmisvökum í eitla og í húð í ónæmisglæðinum IC31 og einnig með sprautun í eitla með alum/MPLA glæðablöndu. Niðurstöðurnar  eru birtar í eftirfarandi tveimur greinum eftir Sigríði Jónsdóttur og fleiri í Vet. Immunol. Immunopathol. 2015 og 2016:

 I.  Developing a preventive immunization approach against insect bite hypersensitivity using recombinant allergens: A pilot study. 

II.  A preventive immunization approach against insect bite hypersensitivity: Intralymphatic injection with recombinant allergens in Alum or Alum and monophosphoryl lipid A. 

Sprautun í eitla reynist líkt og í fólki mjög öflug í hestum en er frekar erfið í framkvæmd.  Ef rannsóknarstyrkir fást verður haldið áfram á sömu braut. Sprautun í eitla og Alum/MPLA verða reynd betur í fleiri hestum og aðferðin borin saman við sprautun í vöðva með ofnæmisvökum á veirulíkum ögnum. Á grundvelli niðurstaðna verður síðan gerð áskorunartilraun.

Áskorunartilraun er eina leiðin til að prófa endanlega hvort að bólusetning virkar, sama hver bólusetningaraðferðin er. Hún felst í því að bólusetja 20 hesta t.d. með endurröðuðum ofnæmisvökum og ónæmisglæði og flytja síðan þessa hesta út á flugusvæði í Evrópu ásamt 20 óbólusettum samaburðarhestum. Þessi hross yrðu að vera öll á sama svæði í a.m.k 3 ár þar sem fylgst yrði með ónæmissvari þeirra og hvort þeir fái sumarexem. Áskorunartilraunin tekur langan tíma jafnframt því að vera mjög kostnaðarsöm og vinnufrek. Við þurfum því að vera nokkuð örugg um að efnið og aðferðin sem nota á, örvi rétta gerð af ónæmissvari, sé þaulprófað og valdi litlum eða engum aukaverkunum.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is