Háskóli Íslands

Bólusetning hesta með endurröðuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði - áskorun

Ofnæmi: Ofnæmi er yfirdrifið ónæmissvar gegn próteinum (ofnæmisvökum) á Th2 braut með IgE mótefnaframleiðslu. Bóluefninu er ætlað að beina ónæmissvari gegn ofnæmisvökunum á Th1 braut og koma í veg fyrir IgE framleiðslu. Bóluefnablandan er samsett úr enduröðuðum hreinsuðum ofnæmisvökum og ónæmisglæði sem á að beina svarinu á Th1 braut.

Ofnæmisvakar: Yfir 20 mismunandi ofnæmisvakar ættaðir úr munnvatnskirtlum smámýstegunda hafa verið einangraðir og tjáðir í E. coli, sumir í skordýrafrumum og þrír í byggi (Langner et al., 2009; Schaffartzik et al., 2010; Schaffartzik et al., 2011; Peeters et al., 2013; van der Meide et al., 2013, Jonsdottir et al. 2018). Vakarnir eru mis mikilvægir og til þess að velja vakana sem nota á í endanlegt tilraunabóluefni var gerð kortlagning með örflögutækni (Component-resolved microarray analysis). Prófuð voru sermi úr nokkur hundruð sumarexemhestum og heilbrigðum samanburðarhestum á rúmlega 20 mismunandi ofnæmisvökum (handrit í vinnslu).

Ónæmisglæðar: Ónæmisglæðar eru efni sem blandað er í ofnæmisvakana til þess að efla og stýra ónæmissvarinu. Þeir eru notaðir bæði í bólusetningum og afnæmingum. Okkur hefur tekist að Th1 miða ónæmissvar gegn ofnæmisvökum með ónæmisglæðinum IC31(Jonsdottir et al., 2015) og með alum/MPLA glæðablöndu (Jonsdottir et al., 2016) með því að sprauta blöndunni í eitla og er það án aukaverkana. Eitlar eru verkstöðvar ónæmiskerfisins og í mönnum hefur verið sýnt fram á að með því að sprauta í eitla má fá mjög öflugt svar og það á stuttum tíma með litlu magni af ofnæmisvökum. Sprautun í eitla reynist líkt og í fólki mjög öflug í hestum en er frekar erfið í framkvæmd. Þess vegna er núna verið að bera saman sprautun í eitla og sprautun undir húð með ofnæmisvökum í alum/MPLA.

Áskorunartilraun: Eina leiðin til að prófa endanlega hvort að bólusetning virkar, sama hver bólusetningaraðferðin er notuð er að gera áskorun (challenge). Áskorunartilraun felst í því að bólusetja hóp hesta og flytja síðan þessa hesta út á flugusvæði í Evrópu. Þessi hross yrðu að vera á flugusvæði í a.m.k 3 ár þar sem fylgst yrði með ónæmissvari þeirra og hvort þeir fái sumarexem. Áskorunartilraunin tekur langan tíma jafnframt því að vera mjög kostnaðarsöm og vinnufrek. Áætlað er að gera áskorunartilraun 2020. Bólusetja á með mikilvægustu vökunum eða þeim sem meira en 60% sumarexemshesta frá Íslandi svara á. Sprautað verður þrisvar sinnum með fjögurra vikna millibili annað hvort í eitla eða undir húð og hestarnir í kjölfarið fluttir út.  Ekki verða flutt út samhliða óbólusett samanburðarhross þar sem það þykir sannprófað með rannsóknum að a.m.k. 50% hesta sem fluttir eru frá Íslandi og eru útsettir fyrir smámýi í þrjú sumur fá sumarexem (Björnsdóttir et al., 2006; Torsteinsdottir et al., 2018).

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is