Háskóli Íslands

Afnæming um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka

ORF Líftækni hefur þróað aðferð til að tjá og framleiða endurröðuð prótein í byggfræjum. Fræin eru náttúrulegt forðabúr og prótein sem tjáð eru þar eru sérstaklega stöðug með mikið geymsluþol. Hjá fyrirtækinu er notuð öflug aðferð til hreinsunar á próteinum úr bygginu (Magnusdottir et al., 2013).

Afnæming um slímhúð munns er í stöðugri þróun í fólki. Til dæmis er farið að nota töflur sem innihalda viðeigandi ofnæmisvaka til að afnæma einstaklinga með gras og birkiofnæmi. Þessi aðferð þykir mun notendavænni en krefst lengri tíma og meira magns af ofnæmisvökunum (Moingeon and Mascarell, 2017).

Þrír ofnæmisvakar hafa verið tjáðir í byggi í samstarfi við ORF Líftækni. Þeir reynast jafn vel í ónæmisprófum en vakar framleiddir í E. coli og skordýrafrumum (Jonsdottir et al., 2018). Aðferð hefur verið þróuð til að meðhöndla hross með endurröðuðu byggmjöli um slímhúð munns þar sem notuð eru sérhönnuð mél. Heilbrigðir hestar meðhöndlaðir með endurröðuðu byggi mynduðu ofnæmisvaka sérhæfð mótefni sem gátu að hluta hindrað IgE bindingu við ofnæmisvakann (Jonsdottir et al., 2017).

Samstarfsaðilar okkar við Cornell háskóla, Íþöku, BNA hafa til umráða íslenska tilraunahesta í tengslum við verkefni um móðuráhrif í sumarexemi.

Hluti af þessum hestum er með sumarexem. Einstakt tækifære er að hafa hóp af íslenskum tilraunahestum alla á sama stað í sama umhverfi. Hestarnir verða notaðir til að prófa meðhöndlun um slímhúð munns. Í þessum tilgangi er ORF að tjá og framleiða fjóra ofnæmisvaka til viðbótar sem hestarnar í Cornell hafa ofnæmi gegn.  Vonir standa til að hægt verði að hefja meðhöndlun með þessum fjórum vökum í byrjun árs 2020.

Í samstarfi við meinafræðingana á Keldum er verið að kortleggja ónæmisfrumur í munnslímhúð hesta.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is